06.04.1927
Efri deild: 46. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í D-deild Alþingistíðinda. (3739)

92. mál, yfirsíldarmatsstarf á Austurlandi

Magnús Kristjánsson:

Það víkur svo undarlega við, að einmitt á þeim tíma, sem þessi bráðabirgðaráðstöfun er gerð, fara síldveiðar að glæðast á Austfjörðum. Það er ekki langt síðan þetta mál var hjer til umr. Á þinginu 1923 kom fram frv. um að afnema yfirsíldarmatsmannsstarfið á Seyðisfirði, og var því haldið fast fram, að það næði engri átt að kosta það, þar sem reynslan væri sú, að mjög lítið veiddist. Jeg hjelt því þá fram, að slíkt væri hin mesta fljótfæmi, af því að ekki væri hægt að búast við því, að síldin gerði boð á undan sjer, og of seint væri að skipa mann, þegar á þyrfti að halda. Þá var mikið um þetta deilt, og virtist talsverður byr vera fyrir því að leggja starfið niður. Þó komust menn að þeirri niðurstöðu, að það væri álitamál, og endirinn varð sá, að það var ekki lagt niður þá.

Þó að sparnaður sje auðvitað yfirleitt góður og virðingarverður, þá hugsa jeg, að þessi sparnaður sje þýðingarlítill, enda njóti hans ekki lengi við. Það eru áraskifti að síldveiðum. Þó að lítið hafi veiðst um nokkurt árabil, er ekkert líklegra en það, að veiðin glæðist aftur, eins og nú hefir komið í ljós. Þess vegna álít jeg óhjákvæmilegt að hafa fastan mann í þessu starfi.

Jeg geri ráð fyrir, að það hafi verið á 10. þúsund tunnur, sem veiddust á Austurlandi síðastliðið sumar. Jeg verð að álíta, að undir þessum kringumstæðum hefði verið mjög æskilegt, að þar hefði verið maður, sem hefði framkvæmt þetta mat, og eitt er víst, að undirmatsmennirnir hafa eiginlega aldrei fengið þá undirstöðu til þekkingar í starfi sínu, sem þarf til þess að matið geti verið í lagi, vegna þess að yfirmatsmaðurinn var heilsulítill og gat því ekki ferðast um sem þurft hefði, til þess að leiðbeina þeim.

Jeg skal aðeins geta þess, að á síðastliðnu sumri hefir orðið talsvert verðfall á útfluttri síld af Austurlandi, og hygg jeg, að það muni stafa að einhverju leyti af því, að matið hafi verið ófullnægjandi, og jeg veit, að utanlands liggur enn þá nokkuð af síld, vegna þess að kaupendur segja, að þar ægi öllu saman, stórri síld og smárri, og mjer er kunnugt um, að það er verið að reyna að taka síldina upp úr tunnum og meta hana og aðgreina. Jeg skal ekki segja nema þetta hefði getað átt sjer stað, þó að yfirmatsmaður hefði verið búsettur austanlands. En það er auðsjeð, að maður, sem er búsettur á Akureyri, getur ekki sint starfinu á Austurlandi, og því síður á Eyrarbakka og Stokkseyri. Það væri þó sanni nær, að síldarmatsmaður frá Seyðisfirði gæti sint þessu starfi þar, heldur en sá, sem búsettur er á Akureyri.

Jeg get ekki látið hjá líða að minnast á þetta mál, þar sem jeg áður hefi orðið að berjast fyrir því, að þetta starf yrði ekki afnumið, og því get jeg heldur ekki látið hjá líða að láta þá skoðun mína í ljós, að jeg hygg það ekki vel ráðið, ef meiningin er að láta engan yfirmatsmann sitja austanlands, sem geti sint því starfi, því þótt sum ár hafi lítið veiðst þar, þá má minna á það, að síðastliðið ár hefir líklega veiðst þar síld fyrir um ½ milj. kr., og hygg jeg, að það mundi hafa fengist meira fyrir þá síld, ef þeim, sem hana veiddu og söltuðu, hefði verið það ljóst, að það hefði þurft meiri nákvæmni við söltunina; má vera, að þá hefði fengist 3/4 milj. fyrir hana, ef öll skilyrði hefðu verið til staðar fyrir því, að varan yrði rjett með farin til þess að geta talist góð verslunarvara.

Það er ekki meining mín að fara að leggja nokkurn dóm á deilu þeirra hæstv. atvrh. (MG) og hv. 2. þm. S.-M. (IP). En jeg held því aðeins fram, sem jeg hefi áður haldið fram, að jeg álít það ekki hyggilegt að leggja þetta starf alveg niður.