06.04.1927
Efri deild: 46. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í D-deild Alþingistíðinda. (3743)

92. mál, yfirsíldarmatsstarf á Austurlandi

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg hefi litlu að svara hv. 5. landsk. (JBald), því að ræða hans var aðeins vatnsþynning á því, sem áður var búið að segja. En jeg vil benda hv. þm. (JBald) á, að það er lítill kjarkvottur að standa hjer upp í þinghelginni og brigsla öðrum um lögbrot, vitandi það, að ekki er hægt að koma fram ábyrgð á hendur þeim, sem sökina ber fram. Slík aðferð minnir mest á kjarklausa en ósvífna götustrákaræfla, sem hrópa ókvæðisorð að vegfarendum, ef þeir vita sig óhulta.

Jeg man vel, að þegar þetta mál var hjer til meðferðar fyrir nokkrum árum, þá var aðalástæðan til þess, að menn vildu ekki afnema þetta embætti, að háaldraður maður gegndi því, og þótti það því vera mjög hart gagnvart honum að gera það.