05.03.1927
Neðri deild: 22. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í B-deild Alþingistíðinda. (547)

43. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Frsm. meiri hl. (Árni Jónsson):

Frv. þetta hefir verið fyrir hv. deild tvisvar áður. Birtist það nú í sömu mynd og það var samþ. í þessari hv. deild í fyrra. Þætti meiri hl. allshn. æskilegast, að það væri enn samþykt óbreytt.

Í frv. má segja, að sjeu 2 aðalatriði. Annað er að skattleggja dansleiki, en hitt er að færa niður takmörkin á mannfjölda þeim, sem þarf að vera í kauptúnum, svo að þau komist undir skatt.

Það hefir þótt ósanngjarnt, að þau kauptún, sem hafa haft lítið eitt færri íbúa en 1500, væru ekki skattlögð, og hefir í því sambandi aðallega verið vitnað í Siglufjörð. En við síðasta manntal hefir komið í ljós, að íbúatala hans er komin upp fyrir 1500. Eru því ekki eftir önnur kauptún með 1000–1500 íbúa en Akranes, þar sem vera munu um 1100 manna. Held jeg, að ekki væri svo sjerlega mikill slægur í því fyrir sjóðinn að ná í Akranes, því að menn eru þar ekki gefnir fyrir að skemta sjer. — Því vill meiri hl. allshn. fallast á það til samkomulags, að þetta atriði, um að lækka lágmarkstölu íbúanna, falli niður. Eru þó óbundin atkv. nefndarmanna um það. Vona jeg, að málið fái svo að ganga umræðulaust gegnum þessa hv. deild.