07.04.1927
Neðri deild: 49. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í B-deild Alþingistíðinda. (596)

110. mál, akfærir sýslu- og hreppavegir

Flm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg þarf ekki að segja nema örfá orð, því að greinargerð frv. tekur það fram, hvers vegna það er fram komið. Það er vegna áskorana úr Vestur-Húnavatnssýslu um að koma þessu ákvæði inn í lögin, þar sem samskonar ákvæði hafa verið tekin inn í lögin um samþyktir fyrir sýsluvegasjóði. Það er að ýmsu leyti þægilegra fyrir hlutaðeigandi hreppa að koma þessu þannig fyrir heldur en jafna niður á fasteignir og lausafje, og jeg finn ekkert, sem getur mælt á móti því.

Eitt vil jeg taka fram, sem raunar er auðskilið án þess, að þar sem samþyktir hljóða um það, að einhver hluti samþyktarsvæðisins situr við lægra gjald eftir lögunum nú, sökum staðhátta, þá gildir auðvitað það sama hlutfall, þó gjaldinu sje jafnað niður eftir efnum og ástæðum.

Jeg veit ekki, hvort það hefir þýðingu að vísa þessu máli til nefndar, en verði það gert, ætti það að fara til samgmn. Jeg hefi að vísu ekkert á móti því, ef einhver óskar þess, en geri ekki tillögu um það.