29.04.1927
Neðri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í B-deild Alþingistíðinda. (639)

123. mál, veðmálastarfsemi í sambandi við kappreiðar

Flm. (Benedikt Sveinsson):

Jeg ætla að fylgja þessu frv. úr hlaði með örfáum orðum. Greinargerð þess skýrir, hvernig á því stendur og hvernig það er til komið. Hestamannafjelagið „Fákur“ hafði í upphafi allmikinn stuðning af veðmálum, sem fóru fram undir handleiðslu stjórnar fjelagsins, og gat fyrir þá sök veitt hærri verðlaun en áður hafði tíðkast við kappreiðar. En eftir útkomu laga um hlutaveltur og happdrætti, er samþykt voru á Alþingi í fyrra, var litið svo á, að þessi veðmálastarfsemi fjelagsins væri ekki heimil að lögum. Það er að vísu ekki allskostar ljóst, hvort fyrir hana sje girt með þessum lögum, því að fjelagið virðist hvorki hafa fengist við „happdrætti“ nje „hlutaveltur“ í sambandi við kappreiðarnar, þótt veðmál hafi farið fram. En úr því að skilningur stjórnarinnar hefir valdið því, að leyfi hefir ekki fengist til veðmála, þá verður að setja undir lekann og gera þær breytingar, er af taki allan vafa. Af þeim ástæðum er frv. komið fram. Vænti jeg þess, að það gangi til 2. umr. og til allshn.