13.05.1927
Efri deild: 73. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í B-deild Alþingistíðinda. (656)

123. mál, veðmálastarfsemi í sambandi við kappreiðar

Jón Baldvinsson:

Jeg vildi aðeins biðja nefndina að athuga til 3. umr., ef frv. fer svo langt, hvort hún vilji ekki gera þessa breytingu, svo að stjórnin leiki ekki alveg lausum hala um að setja í sjerleyfið það, sem henni sýnist. En mjer sýnist það engin ástæða til að samþ. þetta frv., að þessi starfsemi hefir verið rekin ólöglega undanfarin ár, — heldur miklu fremur ástæða til að synja um leyfi. Jeg tel engin vandkvæði á að hafa eftirlit með, að veðmálastarfsemi fari ekki fram þarna, — sennilegt, að lögreglustjórinn í Reykjavík þyrfti ekki annað en hafa þarna menn við, til þess að líta eftir, að ekkert færi þar fram í bága við landslög. Að minsta kosti ætti þessi veðmálastarfsemi ekki að þurfa að fara þar fram opinberlega, ef eftirlit væri nóg.

Jeg álít, að frv. þetta sje algerlega óhæft að verða að lögum, og vil því endurtaka, hvort nefndin vilji ekki taka til íhugunar að gera till. um breytingu til 3. umr.