06.04.1927
Efri deild: 46. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í B-deild Alþingistíðinda. (675)

109. mál, hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar

Einar Jónsson:

Það er venjulega svo, þegar um aukin útgjöld er að ræða úr ríkissjóði, að jeg er síst á móti að veita fje til verklegra framkvæmda, t. d. hafnarbóta og vegagerða. En þegar þannig háttar, að heimtufrekja sumra kjördæma keyrir fram úr hófi, get jeg ekki á mjer setið að andmæla. Jeg get stutt orð mín, að endurtekin heimtufrekja hefir átt sjer stað frá ýmsum stöðum, með mörgum dæmum. Á það sjer eigi síst stað um hafnarbætur í Vestmannaeyjum, brimbrjót í Bolungarvík o. fl. þess háttar. — Mest furðaði mig á þeim orðum hv. flm., að vegna hafnargerðarinnar í Vestmannaeyjum sje nú nauðsyn að fá fje til að dýpka höfnina — hún hafi grynst svo mikið við að hafnargarðarnir voru gerðir! Ef þessir hafnargarðar, sem afarfje hafa kostað og rótast hafa jafnóðum í sjóinn, gera nú það að verkum, að höfnin grynnist til óbóta, — þá þykir mjer ver farið en heima setið um allar þessar framkvæmdir. — Á síðari árum hefir oft verið veitt fje til Vestmannaeyja, auk hafnarbótanna t. d. til að leita að neysluvatni og til vegagerðar, alt stórkostlegar fjárhæðir. Jeg mun ekki sjá eftir þessu, ef fjeð kemur að notum. En ef svo fer, sem nú gaf að heyra hjá hv. flm., að það fje, sem veitt er, verður til spillis og þarf að veita nýjar fjárfúlgur til að bæta þau óhöpp, sem verða af hinum fyrri framkvæmdum, þá fer jeg að gerast tregur í taumi.

Ekki mun jeg rengja hv. flm. um það, að frá Vestmannaeyjum hafi komið miklar tekjur í ríkissjóð. En sú stefna virðist nú komin upp á hinu háa Alþingi, að öllum tekjum skuli varið í hins sama atriðis þágu, sem þær komu frá. Þetta var að heyra á hv. flm. og þessari skoðun heyrði jeg nýlega haldið fram í hv. Nd., út af því að öllu fje, sem fengist í vitagjöldum, skyldi varið til nýrra vitabygginga. Þessari stefnu, að allar tekjur eigi að sökkva í sjálfar sig aftur, vil jeg andmæla. Það er fleira, sem krefst útgjalda en það, sem gefur af sjer beinar tekjur. Mjer þætti t. d. gaman að sjá embættismennina launaða fyrir þær tekjur, sem úr þeirra vösum fást. Um vegagerðir o. fl. má segja það sama. Þær krefjast mikilla fjárframlaga, en gefa engar beinar tekjur í aðra hönd. — í svona atriði þýðir ekkert að vitna. — Verði með sterkum rökum hægt að sanna mjer brýna nauðsyn þessa verks, þá er ekki víst, að jeg gerist því andvígur. En þegar sjórinn er látinn róta í sig hverri fjárfúlgunni af annari, verð jeg myrkfælinn við að halda öllu lengra á þeirri braut.