17.05.1927
Sameinað þing: 12. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3640 í B-deild Alþingistíðinda. (72)

Dansk-íslensk ráðgjafarnefnd

Magnús Torfason:

Vegna þess að 1918 hafði jeg sjerstöðu að því leyti er þetta sambandsmál snertir, þykir mjer hlýða að gera lítilsháttar grein fyrir atkvæði mínu.

Jeg get verið sammála hv. þm. N.Þ. (BSv) um það, að ekki sje mikið leggjandi upp úr þessari ráðgjafarnefnd út af fyrir sig, eða að hún muni að nokkru leyti hafa áhrif á viðskifti þjóðanna að því er löggjöf beggja snertir. En þegar þetta var samþykt í upphafi, var það meira gert af eftirlátssemi við hinn samningsaðiljann, sem óskaði eftir því, heldur en að við gerðum ráð fyrir nokkrum árangri af störfum nefndarinnar.

Þegar um þetta var rætt 1918, var uppástungan um 4 menn í nefndina miðuð við það, að allir stjórnmálaflokkarnir dönsku ættu menn í nefndinni, og mun þá hafa verið gefið loforð um það af okkar hálfu að verða við óskum Dana, ef þeir færu síðar fram á að fjölga nefndarmönnum.

Nú eru þessar óskir komnar fram, og ef við verðum ekki við þeim, skoða jeg það sem brot á gefnu loforði.

Þess vegna mun jeg greiða atkvæði með því að fjölga nefndarmönnum, enda verð jeg að leggja áherslu á, að úr því sem komið er, hæfi okkur ekki annað en samþykkja þetta. Jeg tel Dani útlenda, og gagnvart þeim leyfi jeg mjer að minna á málsháttinn: Kveður við kalli.