30.04.1927
Efri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í B-deild Alþingistíðinda. (741)

50. mál, vörn gegn berklaveiki

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg mun ekki verða langorð, enda hefi jeg ekki haft tækifæri til þess að kynna mjer það nál., sem hjer liggur fyrir, en jeg ætlaði aðeins að minnast alment á afstöðu mína til þessa máls.

Jeg álít, að við eigum að halda þessum lögum óbreyttum fyrst um sinn, því að í þeim felst mikil mannúð, þar sem öllum berklaveikum eru veitt þau hlunnindi, að þeir geti komist í eitthvert hæli eða sjúkrahús, eða þangað, sem hentugast þykir að koma þeim fyrir, en það hefir einnig mjög mikinn kostnað í för með sjer. Að lögin sjeu mikil mannúðarlöggjöf, dylst engum.

Eins og hæstv. forsrh. (JÞ) tók fram, er ekki fengin nema mjög stutt og ófullkomin reynsla um það, hvernig þessi lög muni gefast. Það er aðeins ein hlið málsins, kostnaðarhliðin, komin svo skýrt í ljós, að ef á að halda áfram framkvæmd á þessum lögum óbreyttum, þá horfir til vandræða um, að ríkissjóður fái risið undir kostnaði þeim, sem af þeim leiðir. En það er ekki mest grundvöllurinn, sem er athugaverður, heldur að það virðist lauslega frá lögunum gengið; það er t. d. ekki ákveðið, hvaða læknar megi eða eigi að úrskurða berklasjúklinga, heldur getur hver ungur maður með læknaprófi gert það. Mjer finst, að það sje þó sýnilega meira öryggi fyrir því, að á hverjum tíma sje feldur rjettur úrskurður, ef vel reyndir læknar, t. d. hjeraðslæknar, hefðu úrskurðarvaldið. Jeg vil taka fram, að þessi orð mín eru ekki sögð í þeim tilgangi að rýra álit ungra manna með læknaprófi, en reynslan á lækningasviðinu gefur hjer þá tryggingu um rjettan úrskurð, sem mjer finst, að ekki megi án vera. Jeg tel það t. d. næga ástæðu til að endurskoða berklavarnalögin, að það þarf að ákveða það í lögunum, hver á að úrskurða menn á berklahæli, því að það hefir ekki svo sjaldan komið fyrir, að maður, sem úrskurðaður var berklasjúklingur, hefir reynst að vera hald inn af öðrum kvilla.

Hv. 5. landsk. (JBald) sagði, að takmarkið með lögunum hefði verið að útrýma berklaveikinni, en því miður virðist ekki margt benda á, að það muni takast; það eitt getur maður sagt, og reynsla er fengin fyrir því, að hvert einasta rúm, sem losnar í svip, bæði hjer í sjúkraskýlum og víðar, fyllist jafnóðum af berklasjúklingum, svo aðrir sjúklingar, jafnvel þótt dauðveikir sjeu, geta ekki komist að. Þetta er ekki allskostar rjettlátt, og frá því sjónarmiði, sem reynsla undanfarinna ára bendir til, er nauðsynlegt að gera ráðstafanir, er fyrirbyggi þetta. Strangari læknisskoðun gæti meðal annars bætt mikið úr þessum annmarka.

Jeg hefi nú gert grein fyrir afstöðu minni til þeirra breytinga á berklavarnalögunum, sem hjer liggja fyrir á þskj. 321. Jeg get ekki aðhylst frv., og mun því greiða atkvæði með þeirri rökstuddu dagskrá, sem hjer liggur fyrir.