19.04.1927
Neðri deild: 55. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í B-deild Alþingistíðinda. (854)

111. mál, sala á Hesti í Ögurþingum

Frsm. meiri hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Allshn. hefir ekki orðið á eitt sátt um þetta mál. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem fram eru bornar á þskj. 338, en hv. minni hl. ræður til að fella frv.

Þessi jörð er þannig sett, að engin líkindi eru til, að hún verði nokkru sinni notuð sem prestssetur. Hún er svo út úr — illa í sveit komið — og er lítið smábýli, sem ekki er að vænta, að taki þeim stakkaskiftum, að hún verði landinu til meiri nytja en hún hefir verið.

Ábúandinn, sem er áhugasamur fjölskyldumaður, hefir sótt um að fá jörðina keypta. Hann er atorkumaður, sem hefir góðan vilja á því að bjarga sjer, og eru nokkur líkindi til, ef honum endist líf og heilsa, að hann geti bætt kotið svo, að hann megi bjargast þar. Af þessum ástæðum og hinu, að engin líkindi eru til, að jörðin verði notuð til þess, sem hún hefir verið ætluð, leggur meiri hl. nefndarinnar til, að ábúanda verði seld jörðin.

Annars hefi jeg altaf litið svo á, að landið hefði ekki átt að selja kirkju- eða þjóðjarðir, heldur hefði landið átt að eiga þær. Nú er svo komið, að búið er að selja flestar bestu jarðirnar, nema þær, sem taldar eru vel fallnar til þess að skiftast niður í nýbýli, og nokkrar, sem liggja nærri kauptúnum og ætlaðar eru þorpsbúum til afnota. Jeg hefi jafnan verið á móti því að selja kirkju- og þjóðjarðir, en úr því að það hefir verið gert, sje jeg ekki ástæðu til að halda í kot, sem ætla má, að bygt muni verða sæmilega upp af ábúanda, ef hann fær að eignast það. Jeg býst ekki við, að landið fari að kaupa aftur þær jarðir, sem það hefir selt, en ef svo væri, væri auðvitað ekki rjett að selja þær fáu þjóðjarðir, sem eftir eru, jafnvel þó um smákot væri að ræða. En jeg býst ekki við, að um slík kjarakaup verði að ræða.

Viðvíkjandi brtt. á þskj. 338, þá vill meiri hl. nefndarinnar ekki ákveða verð jarðarinnar, heldur fari um söluna eftir venjulegum reglum og mati.

Stundum hefir sala farið fram fyrir ofan matsverð. Nefndin vill ekkert um það segja, hvaða verð væri hæfilegt fyrir jörðina, en meiri hl. hennar vill halda þeirri venju, sem verið hefir og lögin um sölu kirkjujarða ákveða, og lýtur 1. brtt. að því.

Þá er 2. brtt. um það, að fella niður 2. gr. frv. í frv. er svo ákveðið, að andvirði jarðarinnar skuli varið til þess að kaupa annað býli eða hús handa prestinum í Ögurþingum. Meiri hl. nefndarinnar vill ekki fallast á þetta, heldur vill hann, að andvirðið renni í kirkjujarðasjóð, og ef síðar þykir fært að hjálpa prestinum í Ögurþingum, þá, en ekki fyr, verði tekin ákvörðun um það og hvernig það verði gert. 3. og síðasta brtt. er aðeins afleiðing af 2. brtt., að 3. gr. frv. verði 2. grein.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar. Úr því sem gera er, er ekki hægt að hafa á móti sölu þessarar jarðar. En minni hl. nefndarinnar er mótfallinn frv., og mun hann færa fram ástæður fyrir því.