09.03.1927
Neðri deild: 25. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í B-deild Alþingistíðinda. (963)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Tryggvi Þórhallsson:

Mjer þykir hlýða að gefa hæstv. forsrh. nokkra kvittun fyrir þá ádrepu, er hann gaf mjer fyrir mína fyrstu ræðu.

Hann hóf máls á því sama og jeg, en vildi neita, að málið væri flutt með offorsi og knúð fram með afbrigðum frá þingsköpum. En svo vel vill til, að um þetta má leiða vitni úr bókum þingsins, og mun þá sjást, að þetta er í fyrsta skifti sem málið kemur afbrigðalaust fyrir. — Við 1. umr. þurfti að leita afbrigða til þess að málið mætti koma fyrir. Og við 2. umr. bar hæstv. forsrh. fram brtt., sem gerbreytti öllu frv., svo að ekkert stóð eftir, nema „lög þessi öðlast gildi þegar í stað.“ En hann kom svo seint með hana, að leita varð afbrigða til þess að hún mætti koma fyrir. Og loks átti að knýja fram 3. umr. í gær með afbrigðum, en stóð aðeins á því, að ekki var búið að prenta frv. upp í fundarbyrjun og að ekki þótti tiltækilegt að höggva sundur umr. um annað mál í miðju. — Svo langt hefir verið gengið í að knýja fram málið, að fundartími fjvn. Nd. hefir verið tekinn undir umræður, og þar með í raun rjettri lengdur þingtíminn um einn dag. Þó er hjer verið að fara fram á að binda lánstraust Íslands með stærra bankaláni en nokkru sinni hefir verið farið fram á áður.

Hæstv. forsrh. var að kvarta undan því, að fræðsla sú, er hann hefði veitt mjer við 2. umr. þessa máls, hefði ekki borið þann árangur, er hann vonaðist eftir. Þetta má eflaust til sanns vegar færa. Það er nú svo orðið um mig, að jeg hefi lítið gert að því upp á síðkastið að sitja á kenslubekkjum. Jeg hefi látið dómgreind mína segja um, hvort þetta eða hitt sje rjett eða ekki, og jeg ætla henni að ráða eftirleiðis eins og hingað til. Þessi fræðsla hæstv. forsrh. var um það, hvort um fast eða laust lán væri að ræða samkvæmt heimild þeirri, er frv. fer fram á, og nú bætir hann því við, að þetta sje laust lán af því að það sje reikningslán. En þetta er að grípa til óyndisúrræða, að láta nafnið skera úr, hvort lánið sje fast eða laust. Hann veit, að þótt reikningslán sjeu upphaflega veitt til stutts tíma, þá verða þau oft föstustu lánin. Meginviðskifti bankanna eru nú orðin í víxlum, sem svo heitir um, að sjeu til 3 eða 6 mánaða, en þó eru þetta föst lán, sem framlengd eru með litlum eða engum afborgunum árum saman.

Hæstv. forsrh. vill því skjóta sjer undan því að gefa þær upplýsingar, sem um er beðið, á þann hátt að svara út í hött. Hann vildi mótmæla því, að lánið ætti að nota til að greiða gamlar skuldir, en viðurkendi þó í hinu orðinu, að með því yrðu ef til vill greiddar áfallnar skuldir. Jeg verð nú að segja fyrir mig, að jeg skil ekki muninn á þessu, „áfallnar“ skuldir og „gamlar“ skuldir.

Út frá aðstöðu atvinnuveganna, samanburði á afkomu þeirra nú og í fyrra og núverandi horfum, spáði jeg því, að ef þetta lán yrði tekið, þá væru engar líkur til, að hægt væri að greiða það upp í árslok. Hæstv. forsrh. vildi telja óforsvaranlegt að koma með spár í þessu efni. En mínar spár voru á rökum reistar, eins og jeg hefi tekið fram. Þær eru studdar með hinum óvjefengjanlegustu tölum. Ef þetta lán á að greiðast upp í árslok, þá erum við skyldugir að gera okkur ljósa grein fyrir því, hvort við sjáum nokkra möguleika á því eða ekki. Þegar einstaklingur tekur lán, verður hann að gera sínar spár um það, hvort hann muni geta borgað lánið á þeim tíma, sem um er samið. Og alveg nákvæmlega sömu skyldur höfum við, sem trúað er fyrir fjárreiðum ríkisins. Við verðum að reisa á spám, hvort við getum borgað lánið upp við árslok eða ekki. Og nú kem jeg með mína spá, og hún er sú, að ef þetta lánsfje á að fara framhjá Landsbankastjórninni og festast í gömlum skuldum, þá hefi jeg enga minstu trú á því, að það verði borgað upp við árslok. Hæstv. forsrh. verður þá að koma með nýjar spár, og þær reistar á betri rökum en hann hefir gert hingað til, ætli hann að sanna mjer það gagnstæða.

Þá fullyrti hann enn, að þessi ábyrgðarheimild ætti ekkert skylt við gengismálið. Þetta er að nokkru leyti rjett, ef hægt er að sanna, að hjer sje aðeins um laust lán að ræða, en þó er það vitað, að óvíst er, að bankarnir geti haldið áfram gjaldeyrisversluninni án þessarar lántöku.

Þá mótmælir hæstv. forsrh., að það liggi undir mati hæstv. stjórnar, hvort atvinnuvegirnir þoli frekari gengishækkun en orðin er, og vildi fullyrða, að stjórnin hefði haft hemil á því milli þinga, að krónan hækkaði ekki of ört 1925. Jeg neyðist til í þessu sambandi að draga fram fáein atriði, er snerta þetta mál.

Er þá fyrst á að minnast, að hæstv. fjrh. vildi ekki lofa öðrum bankanna haustið 1925 þeim stuðningi, sem hann hefði þurft til þess að halda áfram að kaupa sterlingspundið á 26 krónur. Í annan stað fóru báðir fulltrúar atvinnuveganna í gengisnefnd á fund hæstv. stjórnar og áttu tal við alla ráðherrana um málið. Jeg man ekki mánaðardaginn nú, enda skiftir það minstu máli; hjer í hv. deild á hinn fulltrúinn sæti, sem með mjer fór, og getur borið því vitni, að jeg fari hjer með rjett mál. Erindi fulltrúanna var að krefjast þess af hæstv. stjórn, að hún þá þegar kallaði saman aukaþing, svo að hægt væri að sjá afstöðu þess til gengishækkunarinnar, og færðu fulltrúarnir þá ástæðu fyrir þessari kröfu, að það hefði verið vilji Alþingis undanfarið, að krónan hækkaði ekki. En eins og kunnugt er, varð hæstv. stjórn ekki við þessari kröfu fulltrúa atvinnuveganna í gengisnefnd. Öll mótmæli fulltrúa atvinnuveganna gegn hinni öru hækkun, sem nú hófst, voru að engu höfð, bæði af meiri hluta gengisnefndar og af hæstv. landsstjórn.

Hæstv. landsstjórn ber ábyrgð á því að neita kröfu fulltrúa atvinnuveganna um, að Alþingi væri spurt til ráða 1925. Jeg er sannfærður um, að ef hæstv. landsstjórn hefði ekki neitað kröfu okkar þá, hefði hækkunin aldrei orðið slík, og þá hefðum við losnað við mikil vandræði. Þá þyrftum við ekki, meðal annars, nú að ræða um að heimila hæstv. stjórn að taka margra miljóna króna lán, sem óhjákvæmilegt er, að gangi að meira eða minna leyti til þess að jafna þann halla, sem atvinnuvegirnir biðu með gengishækkuninni 1925.

Í þriðja lagi mætti benda á það, að þegar gengið var til atkvæða í gengisnefnd, þá stóð atkvæði móti atkvæði með hækkun krónunnar frá fulltrúum bankanna. Fulltrúar atvinnuveganna höfðu ekki atkvæðisrjett í nefndinni, og gátu því ekki á þann hátt haft áhrif á málið. Og þá tók fulltrúi hæstv. stjórnar í gengisnefndinni það skýlaust fram, að hann greiddi atkvæði með hækkun krónunnar samkvæmt vilja umbjóðenda sinna. Þetta mun hv. þdm. ekki rengja, enda er hjer annar staddur í hv. deild, samnefndarmaður minn í nefndinni (ÓTh), sem getur vottað að slík var atkvgr. í gengisnefndinni.

Það komu líka fram rökstuddar till. um að stöðva krónuna, þegar pundið stóð í 24 krónum, frá fulltrúa landbúnaðarins í nefndinni, en mætti sömu mótspyrnu hjá hæstv. stjórn eins og hinar aðrar till., er bornar voru fram gegn frekari hækkun.

Ábyrgðin, sem hvílir á hæstv. stjórn um þetta mál, er því alveg skýlaus, og frá mínu sjónarmiði sjeð er það þá og núverandi hæstv. fjrh. (JÞ), sem ábyrgðin hvílir á.

Jeg sem sjerstaklega kunnugur þessu máli verð að lýsa það ósannindi, að aðgerðir hæstv. stjórnar milli þinga hafi verið að hafa hemil á hækkun krónunnar. Jeg verð enn að árjetta það, að ábyrgðin á hinni gífurlegu hækkun krónunnar og hnignandi afkomu atvinnuveganna hvílir algerlega á hæstv. forsrh.

Þá sagði hæstv. ráðherra, að jeg hefði ekkert haft að athuga við, hvernig Landsbankastjórarnir skiftu fjenu milli atvinnuveganna. Jeg gat þess ekki, en hitt sagði jeg, að jeg hefði ekki komið með till. til hæstv. stjórnar um skiftingu fjárins milli atvinnuveganna. En jeg hefi gert annað. Jeg hefi síðan jeg kom á þing borið fram á hverju ári fleiri eða færri róttækar till. um að beina meira fjármagni til landbúnaðarins.

Mín traustsyfirlýsing til Landsbankans er því alls ekki fólgin í því, að stjórn hans hafi sjerstaklega látið sjer ant um landbúnaðinn, er hún skifti lánsfje sínu milli atvinnuveganna. Traustsyfirlýsing mín byggist á þeim kunnleikum, er jeg hefi af Landsbankanum; hann hefir ekki drýgt þær syndir undanfarið, að jeg mundi efast um, að stjórn hans, ef hún fengi ein þetta nýja lánsfje til umráða, misnotaði það á einn eða annan hátt. Jeg ber þvert á móti það traust til hennar, að hún mundi ekki festa það í atvinnuvegunum, væri hún ein í ráðum, en yrði ekki fyrir þvingandi áhrifum frá hæstv. forsrh., formanni bankaráðs Íslandsbanka.

Þá sleit hæstv. forsrh. nokkur orð út úr rjettu sambandi í ræðu minni og sagðist ekki kunna við, að ómótmælt stæði, að lánsfje bankanna væri misnotað í þarfir atvinnuvega kaupstaðanna. Jeg álít, að hægt sje að misnota slíkt og það hafi verið gert. Og jeg skal þá um leið lýsa því yfir, að jeg álít það ekki einungis hægt, heldur margfalt nauðsynlegra, að peningastofnanir landsins beindu stærri fjárhæðum út í atvinnurekstur sveitanna heldur en hingað til hefir átt sjer stað. Og frá þessari skoðun mun jeg ekki hársbreidd víkja. Jeg hefi rætt um þetta við hæstv. forsrh. á fundum víðsvegar úti um land og jeg hefi fært þau rök fyrir rjettmæti þessarar skoðunar minnar, sem hæstv. ráðherra hefir ekki getað hrakið. Þess vegna sje jeg enga ástæðu til að endurtaka það í umr. okkar hjer.

Hann sagði, að vonirnar um viðreisn landbúnaðarins bygðust meðal annars á því, að viðkoma atvinnuvega kaupstaðanna aukist.

Þarna er jeg algerlega á gagnstæðri skoðun við hæstv. forsrh.

Jeg vil ekki ausa meira fje í sjóinn, en jeg vil veita fjárstraumi út til sveitanna, því þar er engin hætta á ferðum.

Hjer er því um himinvítt djúp að ræða milli skoðana minna og hæstv. ráðherra.

Jeg ætlaði ekki frekar að fara út í afstöðu mína eða traust til Íslandsbanka, en kemst þó ekki hjá að bæta fáum orðum við það, sem jeg sagði í fyrri ræðu minni. Jeg hefi sagt, að jeg teldi aðrar skyldur við Landsbankann frá hendi þjóðar og Alþingis en við Íslandsbanka, sem er hlutabanki og að mestu eign erlendra manna.

Þess vegna verð jeg að gera mikinn mun á því, þegar verið er að ræða um nýtt miljónalán, hvort það sje Landsbankinn, sem fari með fjeð ótakmarkað, eða hvort Íslandsbanki eigi að fá eitthvað af því til ráðstöfunar.

Það er um þetta, sem jeg er altaf að spyrja, en hæstv. forsrh. verst allra svara. Jeg hefi margtekið fram, að jeg treysti Íslandsbanka ekki til að fara með fjeð, og hefi í fyrri ræðum mínum tekið fram, á hvaða rökum jeg bygði það, og tel því óþarft að endurtaka þau enn einu sinni.

Að síðustu kom hæstv. forsrh. fram með mikilli blíðu og vinsemd í minn garð og mæltist til þess með nokkrum velvöldum orðum, að jeg tæki nú aftur brtt. mína á þskj. 139. Mjer þykir altaf vænt um hlýtt hugarþel til mín, frá hverjum sem það kemur, og ætla því að endurgjalda það með sömu vinsemd í garð hæstv. ráðherra. Svar mitt við tilmælum hans verður því þetta: Ef hæstv. forsrh. vill nú hverfa frá villu síns vegar í gengismálinu og koma yfir í hóp okkar, sem festa viljum verðgildi krónunnar, þá mun jeg bjóða hann hjartanlega velkominn og kvitta fyrir margar syndir, sem hann hefir drýgt sjer til áfellingar. Þá horfir málið öðruvísi við, eins og jeg hefi áður tekið fram, og þá skal jeg taka til athugunar að taka brtt. mína aftur.

Hann var á móti brtt. vegna formsins og taldi ekki hægt að samþ. hana eins og hún er orðuð. En það er nú svo, að jeg treysti Landsbankanum betur í þessu efni. Og þar sem stjórn Landsbankans hreyfði engum mótmælum gegn formshlið brtt., þá verð jeg að álíta, að hún eigi rjett á sjer. Viðvíkjandi því, sem hann sagði, að „skilorðið“ gerði till. að engu, þá er hjer ekki um annað að ræða en að heimildin beri það með sjer, hvernig lánsfjenu skuli varið. Hitt atriðið, hvernig skýra eigi „eigin þarfir bankans“, er rjett skilið hjá hæstv. ráðh., svo um það erum við sammála. Hæstv. forsrh. verður því að fá yfirlýsingu Landsbankastjórnarinnar um, að fjeð verði notað í eigin þarfir bankans, og þegar þú yfirlýsing er fengin, getur komið til mála að veita ábyrgðarheimildina, en fyr ekki.

Jeg verð því að líta svo á, að þrátt fyrir hlýju hæstv. ráðherra í minn garð, sje þó eitthvað það á bak við vinsemd hans, sem ekki sje jafnhlýtt.

Væri svo í raun og veru, að hæstv. forsrh. teldi efni brtt. á rökum bygt, þá ætti honum að vera innan handar að bæta úr forminu og færa orðalagið í það horf, er hann teldi betur fara. En á meðan hann ekki gerir það og leggur til, að brtt. sje feld, þá mun jeg, sem sagt, ekki finna ástæðu til annars en að halda henni til streitu og bíða átekta um, hvernig hv. þdm. líta á það mál.

Að svo mæltu sje jeg ekki ástæðu til að gera þessi orð mín fleiri út af því, sem farið hefir á milli mín og hæstv. forsrh. út af þessu máli.