21.03.1928
Neðri deild: 53. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2019 í B-deild Alþingistíðinda. (1023)

3. mál, landsreikningar 1926

Haraldur Guðmundsson:

Það er í sjálfu sjer óþarfi fyrir hv. þm. Vestm., og jafnvel hv. 1. þm. Skagf. líka, að vera enn einu sinni að segja söguna um herför „Þórs“ á hendur togurunum austurfrá. Jeg var að þessu sinni ekki að finna að því, þó að Vestmannaeyingum væru greiddar einhverjar bætur fyrir veiðarfæratöp. Það atriði leiddi jeg hjá mjer. En jeg vítti stjórnina fyrir að hafa gert þetta í heimildarleysi. Jeg mundi ekki betur, þegar jeg talaði áðan, en að greiðslan hefði farið fram í apríl 1926. En jeg hugsa, að það sje rjett, sem hv. þm. segir, að hún hafi farið fram í nóvember. En það bætir ekkert fyrir fyrverandi stjórn. Hver sem þörf Vestmannaeyinga hefir verið, er það tvímælalaus skylda stjórnarinnar að leita til Alþingis 1927, til að fá samþykki þess til að greiða fjeð. Þó að fjenu kunni að hafa verið vel varið, hefir engin stjórn leyfi til þess að greiða tugi þúsunda heimildarlaust. Það mætti hv. 1. þm. Skagf., og jafnvel hv. þm. Vestm. líka, vita fullvel.

Jeg vil spyrja hv. þm. Vestm., sem er mjög svo spurull í minn garð, hvaða sannanir hann hefir fram að færa fyrir því, að netin hefðu ekki tapast, þó að Þór hefði ekki farið austur. Það má auðvitað leiða líkur að því, að netin hafi tapast af því að Þór var eigi á verði, en hv. þm. getur aldrei sannað neitt í því máli.

En hvað sem um það er, hvort sem Vestmannaeyingum hafa borið bæturnar með rjettu eða ekki, þá er það víst, að stjórnin hefir greitt skaðabæturnar í algerðu heimildarleysi. Það má í þessu sambandi minna á, að Þór hefir alls ekki hvílt eingöngu á Vestmannaeyjum. Ríkissjóður hefir lagt til hans drjúgan skerf. 1926 var hann styrktur með 40 þús. kr. úr ríkissjóði. Yfirleitt fæ jeg ekki annað sjeð en að ríkissjóður hafi mjög drengilega hlaupið undir bagga með Vestmannaeyingum með að verja veiðarfæri þeirra fyrir yfirgangi togaranna. Jeg verð að endurtaka það, að það kemur í sjálfu sjer málinu lítið við, í hverjum erindum Þór fór austur eða hvaða tjón Vestmannaeyingar kunna að hafa beðið. Aðalatriðið í þessu máli er það, hvort stjórnin hafði heimild til þess að láta fjeð af hendi eða ekki. Að stjórnin hefir ekki einu sinni kært sig um slíka heimild, heldur kosið að dylja gerðir sínar fyrir þinginu, sjest af því, að hún skýrði ekki þinginu 1927 frá þessu.

Hv. þm. Vestm. hefir upplýst, að þær 5 þús. kr., sem greiddar voru 1927, væru fyrir tjón á veiðarfærum á þeim sama tíma, og það er eflaust rjett, og þá sama um þær að segja. Jeg heyrði ekki alla ræðu hæstv. fjmrh., en jeg held ekki, að hann hafi drepið neitt á það, sem jeg inti eftir um eftirgjöf á tekju- og eignarskatti í Gullbringu og Kjósarsýslu. Jeg vildi mega vænta þess, að jeg fengi um það fyllri upplýsingar fyrir 3. umr. Í sambandi við eftirgjöfina vil jeg geta þess, að hv. 2. þm. Reykv. inti fyrverandi forsætisráðh. (JÞ) eftir því 1927, hvernig ástatt væri um eftirstöðvarnar í Gullbringu- og Kjósarsýslu þá, og svaraði ráðh., að mestur hluti þeirra mundi fást. Þessi spásaga þáv. ráðh. hefir sýnilega ekki rætst, því að nú eru strikaðar út 87 þús. kr.

Hv. 1. þm. Skagf. sagði út af ummælum mínum um berklavarnakostnaðinn, að það væri ekki rjett, að reikningshald hans væri ekki í lagi, því að hann væri greiddur út eftir frumreikningunum. Það er sjálfsagt rjett. Jeg var ekki að finna að því, að ekki væru til frumfylgiskjöl, heldur að hinu, að það sjest ekki, fyrir hvað greitt er. Reikningurinn er ósundurliðaður, svo að ekki er hægt að sjá hversu mikið er greitt fyrir læknishjálp, hversu mikið fyrir meðul, hvað margir legudagar eru á ári og svo framvegis. Reikningurinn gefur ekki þær upplýsingar, sem eiga að fást. Það á vitanlega að semja gagngerða sundurliðun berklavarnakostnaðarins. Það er kunnugt, að aukatekjur hjeraðslækna fyrir störf í þágu berklavarna eru allmikill hluti af þeirri ½ miljón, sem greidd er til berklavarna. Jeg get sagt það um tvo hjeraðslækna, að annar hefir haft yfir 6 þús. kr. og hinn yfir 10 þús. kr. fyrir læknishjálp handa berklasjúklingum. Mjer hefir aldrei dottið í hug að segja, að fjeð væri greitt án þess að reikningar væru til. —

Mjer þóttu einkennileg ummæli hv. þm. um orð mín viðvíkjandi viðgerð á húsi Jóns heitins Magnússonar. Hv. þm. sagði, að hann teldi víst, að þetta hefði ekki verið borgað, ef Jón Magnússon hefði lifað. Jeg býst við, að það sje rjett. En mig furðar á því, ef hv. þm. sjer ekki, að með þessum ummælum viðurkennir hann, að hjer hafi verið ofgoldið, því að Jón Magnússon hefði eflaust látið greiða sjer það, sem rjett var. Sökin er því tvöföld, þegar hv. þm. viðurkennir, að greiðslan hafi verið óþörf. Hv. þm. sagði, að hann gæti ekki sjeð, að konungsmóttakan hefði orðið ódýrari á annan hátt. Jeg vil snúa þeim ummælum. við og segja, að jeg sje ekki, að hún hefði getað orðið dýrari á annan hátt. Um helmingurinn af kostnaðinum við hana fer til að dubba upp hús Jóns heit. Magnússonar, 20–30 þús. kr., en sama sumar er gert við ráðherrabústað ríkisins fyrir 35 þús. kr. Hefði ekki mátt flýta þeirri viðgerð ca. 2 mán. og láta konung búa þar? Ennfremur voru greiddar fyrir dúka og þvíumlíkt til móttökunnar á Ísafirði 1700 kr., en þangað kom konungurinn aldrei. Á Akureyri og Seyðisfirði mun kostnaðurinn hafa orðið samtals 10–12 þús. kr. En þeir reikningar hafa ekki verið finnanlegir til þessa. Það er ekki ofmælt, að alveg óforsvaranlega hafi verið bruðlað með fje við konungskomuna.

Það er alveg rjett hjá hv. 1. þm. Skagf., að það var rangsagt hjá mjer, að reikningar landhelgisjóðs hefðu aldrei verið gerðir. Þeir eru til fyrir árin 1924 og 1925 í stjórnartíðindunum. En á þeim tíma voru greiðslur landhelgisjóðs engar. Síðan sú regla var tekin upp, að landhelgigæsla er í einu lagi færð yfir á landhelgisjóð, eiga að koma í reikningum landhelgisjóðs sundurliðaðir allir reikningar landhelgigæslunnar. Þetta er sjóður, sem á á 2. miljón, gerir út tvö skip og greiðir fyrir mannahald, kol og annan rekstrarkostnað mörg hundruð þúsunda. Háttv. þm. vildi halda því fram, að það væri óumflýjanlegt fyrir landhelgisjóð að hafa risnufje til þess t. d. að taka á móti flokksbróður mínum, hermálaráðherranum danska, o. fl. Það má lengi um það deila, hve mikið menn eigi að halda sjer til, en jeg verð að átelja það, að fært sje á landhelgisjóð það, sem ekki viðkemur sjálfri landhelgigæslunni. Ef þetta risnufje er nauðsynlegt — en um það skal jeg ekkert segja —, þá á að sjálfsögðu að færa það undir sjerstakan lið í landsreikningunum, ef ekki þykir hrökkva risnufje forsrh. Jeg hygg, að það sje rjett, að meginástæðan til þess, að reikningar landhelgisjóðs eru ekki hafðir eins opnir fyrir almenningi og reikningar ríkissjóðs, sje sú, að stjórnin hafi ekki kært sig um, að þeir kæmu fyrir almenningssjónir.

Hv. þm. fór nokkrum orðum um aukavinnu starfsmanna ríkisins. Mjer skildist hann telja það alveg eðlilegt, að menn, sem ynnu aðalstörf sín við stofnanir ríkisins, hefðu aukavinnu við þær sömu stofnanir. Jeg verð að segja, að mjer finst mjög óviðfeldið, að til dæmis skrifstofustjórarnir í stjórnarráðinu fái aukaþóknun fyrir eftirlit og reikningshald sjóða, sem undir stjórnarráðið heyra, og allskonar endurskoðanir við stofnanir ríkisins. Einn fulltrúi í stjórnarráðinu hefir haft eins miklar tekjur fyrir setudómarastörf eitt ár og embættistekjur hans voru. Það fer ekki lítill tími í hans aukastörf, en það er ekki dregið af laununum fyrir það. Jeg álít, að ekki sje hægt að fá óheppilegri niðurröðun starfs en þetta. Jeg átaldi ekki aukavinnu kennara. En ef 5 stunda vinna er álitin nægileg fyrir þá, dregur það úr starfskröftum þeirra að þurfa að vinna marga tíma fram yfir það.

Þá sagði hv. þm. nokkuð, sem mig stórfurðaði á. Hann hjelt því fram, að með því að samþykkja fjárlögin hjeðan væri lagt samþykki á það, að kongsmatan væri greidd í dönskum krónum. Hann spurði mig, af hverju jeg hefði ekki flutt brtt. um þetta efni. Þetta er furðuleg spurning. Við viljum, að hans hátign sjeu greiddar 60 þús. íslenskar kr., eins og í fjárlögunum stendur, og sjáum því enga ástæðu til að flytja brtt. við það. Það er hv. 1. þm. Skagf., sem á að flytja brtt. um þetta efni, ef hann ætlast til, að kongsmatan skuli greidd í dönskum krónum. En það er ekki nóg, því að fjárlögin breyta ekki gildandi lögum, en í lögunum frá 1919 er ákveðið, að kongsmatan skuli vera 60 þús. íslenskar krónur. Matan hefir í algerðu heimildarleysi verið greidd í dönskum krónum, þó að segja megi, að Alþingi hafi lagt samþykki sitt á það eftir á, með því að samþykkja landsreikningana, en afsökun Alþingis er sú, að gengismunurinn er ekki tilfærður sjerstaklega, heldur vandlega falinn í einum lið óvissra útgjalda.

Hvað snertir stúdentastyrkinn játaði hann, að um það hefði verið talað við fjvn. þingsins, hvort greiða mætti hann í dönskum krónum. Það sýnir, að hann viðurkennir, að ekki hafi verið ætlast til þess og að ekki sje ætlast til þess, að þessi upphæð fremur en aðrar upphæðir fjárlaganna skuli greidd í dönskum krónum, heldur auðvitað íslenskum. Annars var óþarfi að leita samþykkis fjvn.

Ef hv. þm. (MG) ætlast til þess, að einstakar upphæðir sjeu greiddar í dönskum krónum, en ekki íslenskum, sje jeg ekki, að hann geti komist hjá því að bera fram brtt. í þá átt.