05.03.1928
Neðri deild: 39. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2059 í B-deild Alþingistíðinda. (1059)

24. mál, hegningarlög

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ræða hv. þm. Dal. gaf mjer tilefni til að segja fáein orð alment um þetta frv. og málið í heild, eins og gert er ráð fyrir, að starfað verði að því á næstunni.

Í titli frv. er það tekið fram, að hjer sje aðeins um nokkrar bráðabirgðabreytingar að ræða. Þetta lýtur að því, sem einnig kom fram hjá hv. þm., að það er óhugsanlegt á mjög stuttum tíma að gera allsherjar breytingar og endurskoðun á hegningarlöggjöfinni. Menn hafa fundið, að hegningarlögin eru orðin á eftir tímanum, og um líkt leyti og stjórnarskiftin urðu í haust, var haldinn hjer í bæ almennur fundur lögfræðinga, sem fór fram á endurskoðun. Mjer hefir nú verið fullkunnugt um, hve seint hefir gengið hjá Dönum að koma fram gagngerðri breytingu á hegningarlögunum, og hvernig málið hefir strandað hjá þeim þing eftir þing. Þegar jeg sneri mjer að þessu máli í haust, virtist mjer aðallega geta komið til greina tvær leiðir. Annaðhvort að skipa milliþinganefnd í málið eða að fá tvo menn, sem hefðu sjerþekkingu, til að undirbúa frv., sem svo yrði lagt fyrir þingið. Jeg hefi nú gert bráðabirgðasamning við tvo dugandi lögfræðinga um að vinna á næstu missirum að gagngerðri athugun á hegningarlöggjöfinni, og býst jeg við, að það starf taki ekki minna en tvö ár. Annar þessi maður er dr. Björn Þórðarson, sem einnig hefir undirbúið þetta frv., sem hjer liggur fyrir, og hinn er prófessor Ólafur Lárusson. Þessir menn hafa lofað að taka þetta starf að sjer, ef þingið ekki óskar að hafa aðra tilhögun á þessu, og jeg hygg, að þeir sjeu báðir vel til þess fallnir. Annar þeirra, nefnilega prófessor Ólafur Lárusson, er í miklu áliti fyrir sína fræðilegu þekkingu, en hinn hefir hlotið doktorsnafnbót fyrir bók um hegningarmál og hefir auk þess talsverða reynslu í þessum efnum, bæði sem sýslumaður og starfsmaður við hæstarjett. Jeg hygg, að þó vera megi, að til sjeu aðrir menn jafnfærir, þá sje óhætt að fullyrða, að þeir sjeu eins góðir og hverjir tveir menn aðrir, sem hægt er að fá. Af því að hjá nágrannaþjóðunum hefir verið lögð svo mikil vinna í að leysa þetta mál, held jeg, að við ættum að geta komist af með skemri tíma en ella hefði þurft til þessa. Mjer finst jafnvel hugsanlegt, að hægt væri að ganga frá þessu máli seint á þessu kjörtímabili, ef undirbúningurinn er vel gerður. En þar sem nú hinsvegar þörfin er svo aðkallandi hjer hjá okkur, til dæmis á að breyta hinni algengu og miður vel þokkuðu innilokun á föngum í vinnuhegningu, þá þótti mjer rjett að vita, hvort Alþingi gæti ekki fallist á að gera þær einföldustu breytingar, sem með þarf til að koma því í framkvæmd, ásamt nokkrum fleiri atriðum. Jeg get auðvitað fallist á það með hv. þm. Dal., að okkur ber ekki skylda til að hindra föðurlandssvik í Danmörku fremur en öðrum erlendum ríkjum, en álít þó rjettara að taka ekki þessi ákvæði út úr að svo komnu, og vil jeg heldur mæla á móti því. Það er síður en svo, að jeg fallist ekki á það hjá hv. þm. Dal., að slíkar breytingar leiða beint af breyttu sambandi Íslands og Danmerkur, en jeg sje ekki, að það saki neitt, þó að þetta bíði ásamt fjölmörgu öðru svo sem tvö ár enn.

Til hv. meiri hl. allshn. vil jeg segja það, að þar sem hjer er aðeins um bráðabirgðabreytingu að ræða, sem væntanlega stendur ekki nema 2–3 ár, og þar sem sá maður, sem undirbjó frv., hefir meiri reynslu í þessum efnum og betri aðstöðu til að hugsa málið vel en þm. yfirleitt geta haft, þá held jeg, að hv. meiri hl. hefði ekki átt að láta sjer svo ant um að koma fram þessum mörgu orðabreytingum. Jeg vil heldur mæla með því, að orðalag 7. og 8. gr. sje látið haldast óbreytt. Það þarf að vera talsvert rík ástæða til að fara að breyta orðalagi, ef ekki er um efnisbreytingu að ræða. Aðalókosturinn á orðalagi meiri hl. er sá, að það gerir framkvæmdina erfiðari, ef um það væri að ræða að breyta vatns- og brauðsfangelsi í vinnufangelsi. Um það skal jeg ekki segja að svo stöddu, hvort hægt verður að koma því á. Jeg held, að fyrsta brtt. meiri hl. sje til bóta, og eins sú síðasta, en held, að æskilegast væri, ef þingið sæi sjer fært að halda sjer að öðru leyti við frv.