21.02.1928
Efri deild: 28. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2077 í B-deild Alþingistíðinda. (1086)

30. mál, tilbúinn áburður

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Jeg býst ekki við, að hv. deild bæti sig neitt á því að hafa langar umr. um þetta mál nú. Það hefir þegar legið fyrir fjórum þingum í röð, og hafa altaf orðið um það langar umræður. En nú má líka ætla, að svo sje fyrnt yfir það atriði, sem mestum deilum hefir valdið, að það komi ekki inn í þessar umr. og tefji því ekki fyrir framgangi málsins að þessu sinni.

Það, sem frv. þetta fer fram á, er að heimila ríkisstjórninni, í samráði við stjórn Búnaðarfjelags Íslands, að útvega frá útlöndum milliliðalaust þann tilbúinn áburð, sem landsmenn þurfa. Það munu allir vera sammála um það, að auka þurfi ræktun landsins. En það verður ekki gert, nema með því að nota allmikið af tilbúnum áburði, því að húsdýraáburður er ekki svo mikill til í landinu, að hægt sje að auka ræktunina í stórum stíl með honum.

Nefndin hefir ekki getað orðið sammála um frv. þetta. Minni hl., hv. 6. landsk. (JKr), telur sig ekki geta gengið inn á þá stefnu, sem það byggist á.

Aftur á móti felst meiri hl. á frv. eins og það kemur frá hæstv. stjórn, að undanteknu því, að hann vill takmarka heimild þá, sem felst í 2. gr. þess, að greiða megi úr ríkissjóði farmgjald áburðarins, við árin 1929, 1930 og 1931. Það er vitanlega ekkert því til fyrirstöðu, að heimild þessa megi framlengja að þessum tíma liðnum, en þá verður fengin reynsla til þess að byggja á, hvernig þetta gefst, og þá má taka til yfirvegunar, hvort þessu skuli haldið áfram eða ekki. Kostnaður sá, sem frv. þetta kemur til með að hafa í för með sjer, er lagður á ríkissjóð, til þess að ýta undir bændur með að kaupa tilbúinn áburð. Er það sambærilegt við verðlaun, sem veitt eru t. d. fyrir jarðabætur o. fl.

Fyrir hönd meiri hl. vil jeg taka það fram, að þar sem svo hagar til eins og t. d. í Skaftafells, Mýra- og Borgarfjarðarsýslum, að skip Eimskipafjelagsins geta hvergi komið, þá lítum við svo á, að stjórninni sje heimilt að greiða flutningsgjald fyrir áburðinn á milli hafna til þessara staða, ef ekki er um gegnumgangandi „fragt“ að ræða.

Það er nú að vísu svo, að í Skaftafells- og Rangárvallasýslum kemur altaf skip frá útlöndum á vorin með vörur til sýslubúa, en þar sem það kemur seint að vorinu, er ekki víst, að áburðurinn geti komið að notum, ef hann er sendur með því skipi. Að sjálfsögðu gildir það sama um aðra staði á landinu, sem líkt er ástatt um, að þeim verði veitt ívilnun á flutningsgjaldinu á milli hafna, en ekki vegna landflutninga, eins og hv. minni hl. hefir viljað hallast að. Þá vil jeg taka það fram, að meiri hl. nefndarinnar hefir ekki getað fallist á, að rjett væri að selja kaupmönnum áburðinn eftir að hann kemur frá útlöndum. Það gæti meðal annars orðið til þess að hækka verðið á áburðinum, en að því vill meiri hl. ekki stuðla. Kaupmenn myndu í mörgum tilfellum verða að liggja lengi með áburðinn, og neyddust því til að lána hann út til þess að losna, við hann, en þá vitanlega fyrir miklu hærra verð en hægt verður að fá hann fyrir hjá samvinnufjelögum og öðrum þeim, sem útsöluna hafa á hendi. Af þessum ástæðum höfum við ekki getað fallist á að taka kaupmenn með, heldur aðeins hreppsfjelög, samvinnufjelög og annan fjelagsskap bænda, enda þótt jeg telji sjálfur, að inn í þetta vanti, að selja megi áburðinn verkalýðsfjelögum í kaupstöðum og kauptúnum.