21.02.1928
Efri deild: 28. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2083 í B-deild Alþingistíðinda. (1088)

30. mál, tilbúinn áburður

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg get tekið undir það með hv. frsm. meiri hl., að það þýði ekki mikið að vera með langar umr. um þetta mál. Málið er sannarlega ekki nýtt mál, sem þurfi að skoða niður í kjölinn nú. Hinsvegar hefi jeg orðið var við það, að víða úti um sveitir landsins bíða menn með mikilli eftirvæntingu eftir því, hvort þetta frv. nái fram að ganga. Jeg veit það af brjefaskiftum við menn víðsvegar úti um landið, að það eru fá frv., sem nú liggja fyrir þinginu, sem menn bíða eftir að komist í gegnum það með jafnmikilli eftirvæntingu sem þetta. Það eru miklar vonir lifandi hjá þeim af bændastjett landsins, sem hug hafa á aukinni ræktun, um það, að þetta frv. geti gert þá auknu ræktun mögulega. Og þessum mönnum væru það áreiðanlega mikil vonbrigði, ef þingið vildi ekki leyfa, að sú tilraun um tilhögun, áburðarsölunnar, sem þetta frv. fer fram á, sje gerð.

Út af ræðu hv. frsm. meiri hl. nefndarinnar hefi jeg lítið að segja. Jeg vil þakka hv. nefnd fyrir afgreiðslu málsins og hefi ekkert að athuga við brtt. meiri hl. við 2. gr. frv. Þeir, sem fylgst hafa með í gangi þessa máls, vita, að þetta ákvæði á aðeins að gilda um stundarsakir um ákveðinn tíma.

Og út frá þeirri hugsun, sem liggur á bak við frv. eins og það er nú, skoða jeg þessa tilhögun einungis sem skóla eða auglýsingu, sem gerð er af ríkisins hálfu til þess að kenna mönnum að nota þennan áburð, sem jeg er sannfærður um, að getur orðið sú mikla lyftistöng fyrir landbúnaðinn. En reynslan verður látin skera úr því, hvort þeirri tilhögun verður haldið áfram eða ekki. Viðvíkjandi aths. nefndarinnar um greiðslu á flutningskostnaði vil jeg aðeins taka það fram, að jeg hefi ekkert við það að athuga. Jeg get meira að segja sagt hv. frsm. minni hl. það, að jeg er fús til samvinnu, ef henni verður við komið, um það að ljetta undir með mönnum um flutninga á landi.

Þá verð jeg að gera nokkrar athugasemdir út af ræðu hv. frsm. minni hl. Það er alveg rjett hjá hv. þm., að einkasala er áreiðanlega ekki óhjákvæmileg. Það er hægt að komast af án einkasölu. Það er hægt að fá áburð og koma honum út um landið án einkasölu. En til þess að ná því marki, sem stefnt er að með frv., að hvetja menn til þess að nota tilbúinn áburð og kenna mönnum að nota hann, er hentugast í bili að hafa einkasölu. Það hafa líka undanfarið gerst þau tíðindi erlendis á sviði áburðarverslunarinnar, sem gera einkasölu æskilega til þess að geta mætt þeirri hringmyndun, sem þar hefir átt sjer stað. Því að jeg er sannfærður um það, að það eitt, að geta haft sameiginleg innkaup og sameiginlegan flutning, það eitt getur orðið til þess að lækka til mikilla muna verðið á vörunni. Það útlenda fjelag, sem aðallega er „interesserað“ í áburðarsölu hingað til lands, gefur mikið fyrir það, að íslenska ríkið taki að sjér söluna til þess sjerstaklega að útbreiða áburðinn, með því að kenna mönnum að nota hann. Það er áreiðanlega hægt að fá seljendur áburðarins til þess að lækka verðið, því að það er ólíkt fyrir þá að fá alt á eina hönd og vissa greiðslu frá ísl. ríkinu.

Verslanir leggja altaf á fyrir áhættu. Ríkið vinnur því framleiðendum mikið gagn með því að annast innheimtu á andvirði áburðarins hjá notendum og ábyrgjast greiðslu til framleiðenda. Það er hinsvegar rjett hjá hv. frsm. minni hl., að þetta verður útgjaldabyrði fyrir ríkissjóð. Það er samskonar útgjaldabyrði eins og það, að láta jarðræktarlögin vera í gildi, eða eins og það var útgjaldabyrði fyrir ríkissjóð á sínum tíma að kenna mönnum að nota gaddavírinn. Þess vegna er spurningin nú: Er það tilvinnandi að leggja þessa útgjaldabyrði á ríkissjóð? Jeg er sannfærður um, að gagnið af þessari tilhögun áburðarverslunarinnar er svo mikið, að það mundi nást upp margfalt, sem ríkið legði á sig til þess að koma henni í framkvæmd.

Hv. frsm. minni hl. vildi benda á það, að það væri kringum Reykjavík og bæina, að tilbúinn áburður væri mest notaður, og því mundi þessi ráðstöfun mest koma þeim að gagni, sem þar notuðu hann. Þetta er engan veginn rjett. Þessi ráðstöfun er ekki gerð til þess að hjálpa þeim sjerstaklega, sem búa kringum bæina, heldur hinum, sem fjær búa. Þessir menn hafa nú þegar opin augu fyrir því, hve arðvænlegur tilbúinn áburður er fyrir bóndann, og þeir eiga að kenna bændunum að nota hann. Það eru ekki þeir, sem búa hjer í kringum Reykjavík, sem græða mest á því, að áburðurinn fáist alstaðar með sama verði, heldur bændur úti um land, og mest þeir, sem búa kringum afskektustu hafnirnar. Flutningsgjaldaívilnanir 2. gr. eru mikils virði fyrir þá.

Hv. frsm. benti á það, að hirðing húsdýraáburðarins úti um land er mjög ábótavant. En jeg vil þá á móti benda á það, að ríkið hefir gert tilraunir til þess að bæta úr því. Styrkur til þess að lagfæra þetta er veittur tiltölulega meiri en til nokkurs annars landbúnaðinum viðkomandi. Jeg vil undirstrika alt, sem hv. þm. (JKr) sagði um nauðsyn þess, að húsdýraáburðurinn sje betur notaður. En það er sannfæring mín, að aukin notkun tilbúins áburðar muni verða til þess betur en nokkuð annað að opna augu bændanna fyrir því, hve ákaflega dýrmætur húsdýraáburðurinn er. En bændur þurfa að læra að nota báðar tegundirnar, húsdýraáburðinn til nýræktar og tilbúinn áburð á ræktaða landið.

Hv. frsm. minni hl. fann sjerstaklega að því, að kaupmenn væru útilokaðir frá áburðarversluninni, og hann spurði, hvers vegna þeir mættu ekki versla með áburðinn eins og kaupfjelög. Jeg skal játa það, að ef það ætti að standa á þessu atriði, að frv. gengi fram, þá gerði jeg það ekki að neinu kappsmáli. En þessar ráðstafanir allar eru gerðar fyrir framleiðendur, en ekki kaupmenn. Annars vil jeg benda á það, að menn eru enganveginn bundnir við samvinnufjelögin ein í þessu efni. Það eru búnaðarfjelögin, sem yfirleitt eru fjelagsskapur áhugasamra manna í bændastjett, og mjer finst það liggja mjög beint við, að það yrðu einmitt þau, sem oft fengju áburðarverslunina. — Þó að menn vildu ógjarnan skifta við samvinnufjelögin, þá ætti það ekki að vera þvingun fyrir menn að leita til búnaðarfjelaganna. Hinsvegar játa jeg, að jeg geri mikinn eðlismun á kaupmönnum og samvinnumönnum. Samvinnumenn vilja vinna að hagsmunum framleiðslustjettanna, en kaupmenn reka sína atvinnu til hagsmuna fyrir einstaka menn. Þess vegna álít jeg rjett að skoða samvinnufjelögin rjetta aðilja til þess að gera áburðinn ódýrari, en get alls ekki talið kaupmenn í þeim flokki, sem til þess væri líklegur. En, sem sagt, jeg geri þetta ekki að miklu kappsmáli, en jeg álít rjettast að hafa það svona.

Jeg skal upplýsa það fyrir hv. frsm. minni hl., hver það er, sem á að leggja á þessi alt að 5%, sem heimilað er í 3. gr. að leggja á áburðinn. Í frv. eru ekki ákvæði um annað en ríkisverslunina. Það hefir ekki þótt þurfa að setja nánari ákvæði um álagningu hjá fjelögunum, sem eiga að annast smásöluna. Það eru notendurnir sjálfir, sem eiga þær stofnanir. Þeir fjefletta því sjálfa sig, ef þeir stofna til óheyrilegrar álagningar.

Jeg hefi svo ekki miklu meira að segja um þetta mál að sinni. Jeg vona, að það komist gegnum þingið og að það eigi eftir að koma af stað allverulegum framförum í íslenskum landbúnaði þegar á næstu árum.