02.03.1928
Neðri deild: 37. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í B-deild Alþingistíðinda. (109)

1. mál, fjárlög 1929

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg á hjer eina brtt. við fjárlagafrv. og skal fara nokkrum orðum um hana, þótt um hana hafi að vísu verið rætt á undanförnum þingum og þá sýnt fram á þörfina fyrir þessa símalínu: Ögur um Æðey að Sandeyri. Það hefir gengið svo til undanfarin ár, að togarar hafa ásótt mjög fiskimiðin í Jökulfjörðunum; sömu togararnir hafa komið þangað ár eftir ár. En þar sem síma vantar, þá er ekki hægt að láta vita um ránsferðir þessara skipa. Stundum hafa varðskipin legið á Ísafirði, þegar þessir ræningjar hafa verið að verki í Jökulfjörðum. Væri því auðvelt að aðvara varðskipin, ef sími væri, en nú er meira en dagleið, ef landleið er farin, og sjóleiðin oft ófær bátum til næstu símastöðva. Togararnir eru þarna ávalt í vondum veðrum. Þarna er ágætt haustútræði, og fiskaðist þar t. d. vel síðastl. haust, enda komu þessir skaðræðismenn þá ekki. Þessi haustafli er aðallífsuppihald þessara fátæku hreppsbúa.

Þá eiga og íbúar Snæfjalla- og Grunnavíkurhreppa afarerfitt með að ná í lækni. Væri mikill vinningur að geta símað til læknis á Arngerðareyri eða Hesteyri. Snæfjallahreppur hefir mikil óþægindi af símaleysi. Þar er útræði gott, en verður stundum að leggjast niður vegna vöntunar á beitu. Þeir, sem betur standa að vígi og eru í símasambandi við síldveiðistaðina –vesturfirði Djúpsins —, kaupa upp alla beitu, svo að þessir einangruðu menn verða ávalt útundan. Erfiðleikar íbúa þessara hreppa til að ná í lækni munu dæmafáir. Dæmi eru til þess, að 6 menn á bát voru í 20 klukkutíma að ná lækninum. Þetta er eins og allir sjá afarerfitt ástand.

Nú er svo komið, að ekki er eftir að leggja nema 3 línur af þeim, sem ákveðnar voru með símalögunum frá 1913, og er þessi lína ein þeirra. En nýjar línur, sem ekki voru í þeim lögum, hafa síðar verið teknar inn og varið til þeirra hundruðum þúsunda króna. Það er því ekki undarlegt, þótt þeir vestur þar sjeu orðnir óþolinmóðir að bíða eftir þessari línu. Landssímastjóri lofaði líka ákveðið, að þegar Barðastrandarsíminn væri búinn og línan frá Vík til Hornafjarðar vel á veg komin, þá kæmi þessi lína næst. Núverandi landssímastjóri hefir og látið uppi sama álit, að þessi sími væri einn af þremur, sem næst stæði. Hinir Vík til Hornafjarðar og loftskeytastöðvar milli Grímseyjar, Flateyjar og Siglufjarðar. Jeg get máske skilið, að stjórnin þykist hafa sínar ástæður fyrir því að taka ekki upp till. þessara starfsmanna sinna, en jeg vona, að hæstv. Alþingi líti frekar á nauðsyn þeirra landsmanna, sem hjer eiga hlut að máli, og láti ákvarðaðar línur, sem búið er fyrir löngu að lofa, ná framgangi, þótt svo virðist að öðru leyti, sem lítið hafi verið farið eftir símalögunum frá 1913.

Landssímastjóri gat þess í sumar við hjeraðsbúa vestra, eftir að hafa athugað staðhætti og allar ástæður, að hjer teldi hann einna brýnasta nauðsyn nýrrar símalínu, og kvaðst hann mundu leggja það til, að fjárveiting til hennar yrði tekin upp í fjárlög fyrir 1929. Þetta hefir hann og gert. Hið sama hafði fyrverandi landssímastjóri látið í ljós. Fyrv. atvmrh. hafði og lofað að taka upp í fjárlagafrv. 1929 fje til lagningar þessarar línu.

Línan milli Ísafjarðar og Ögurs er nú svo, að gömlu sæsímarnir eru orðnir mjög ljelegir og samband til dæmis við Borðeyri mjög slæmt. Um kostnaðinn er það að segja; að áætlað er, að línan frá Ísafirði til Ögurs kosti um 33 þús. kr. og þaðan til Sandeyrar um 32 þús., eða báðar línurnar samtals um 65. þús. kr.

Þá vil jeg geta þess, að mjer þykir mjög leitt, að ekki skuli vera áætlað neitt í fjárlagafrv. til nýbyggingar vita. Jeg tel það brýna nauðsyn fyrir okkur að taka upp fjárveitingu til þessa. Útlendingar eru, sem vænta má, næsta óánægðir með það að þurfa að greiða það hæsta vitagjald, sem þekkist í nokkru landi, en fá lítið í aðra hönd. Sú þjóð, sem hjer á mestra hagsmuna að gæta af útlendum þjóðum, mun líka hafa kvartað um þetta og farið fram á, að annaðhvort yrði vitagjaldið lækkað eða bætt yrði úr þeim skorti á vitum, sem hjer er.

Þetta er aðeins ábending til háttv. fjvn., og vænti jeg, að hún sjái ástæðu til að leggja til, að bygður veri minst einn stórviti 1929.

Till. vitamálastjóra ganga í þá átt, eins og kunnugt er, að bygðir verði tveir vitar, annar vestanlands og hinn norðanlands, á næsta ári, og að næst verði viti bygður á Seley vestra. Það er gert ráð fyrir, að bygging þess vita taki ein tvö ár, enda er hjer um stóran landtökuvita að ræða.