25.02.1928
Efri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2114 í B-deild Alþingistíðinda. (1100)

30. mál, tilbúinn áburður

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Meiri hl. landbn. leggur á móti brtt. hv. 3. landsk. af Sömu ástæðu og getið var um við 2. umr. Ef kaupmenn ættu að fá að selja áburðinn, panta eftir eigin vild, liggja með hann o. s. frv., væri alveg breytt um aðferð í málinu. Með frv. er auðsjáanlega ætlast til, að fjelögin, sem annast útbýting áburðarins, geri sjer hugmynd um, hve mikið menn vilja og þurfa af honum, áður en þau senda pantanir sínar. Því á ekki að þurfa að falla á hann kostnaður, svo að nokkru nemi, því að varla fara t. d. hreppa- og búnaðarfjelög að leggja á hann í ágóðaskyni.

Það er vitanlegt, að 5% álagning hjá einkasölunni er hámark. Hún verður minni en það, ef kostnaðurinn verður minni. Því fer fjarri, að það sje rjett hjá honum, að álagningin hafi verið minni hingað til. Jeg ætla, að ágóðaálagið hafi verið svona hátt, auk kostnaðar. Því er nú svo farið með kaupmenn, að þeir reikna sjer ávalt sjerstakt ágóðaálag auk alls kostnaðar. En það gerir einkasalan vitanlega ekki. Hún á ekki að græða á sölunni. En það á að ýta undir bændur að kaupa áburðinn með því að greiða farmgjöldin.

Jeg þori ekki að fullyrða, hvort áburðarverslunin muni nú sem stendur vera eingöngu í höndum eins fjelags, eða hvort aðrir sjeu útilokaðir frá því að fá þátt í henni. En jeg hygg, að norska fjelagið, sem aðallega hefir selt áburð hingað, sje nú gengið í hinn mikla áburðarhring, og hann mun ætla sjer að selja hingað gegnum fjelag í Danmörku. Eins og sagt er í greinargerð frv., eru líkur til, að einkasalan mundi komast að samningum við verksmiðjurnar sjálfar. Ef ríkið ekki tekur að sjer innflutning á tilbúnum áburði, er ekki víst, að nein alvarleg tilraun verði gerð til þess að ná versluninni frá milliliðnum í Danmörku, því að þeir, sem nú selja áburðinn hjer á landi, kæra sig e. t. v. ekkert um það.

Þá var hv. þm. að tala um það, að ódýrara yrði að flytja áburðinn með sjerstökum skipum. Ójá, getur verið, að svo verði síðar. En þó er þess að gæta, að áburðinum þarf að dreifa víða út um land, og því ákaflega vafasamt, að borgi sig að hafa sjerstakt skip til þess á meðan notkunin er lítil. Og færi nú svo, að sjerstakt skip þyrfti, hefir Eimskipafjelagið t. d. Selfoss til taks, svo að ekki þarf að leita til annara fjelaga þess vegna. En jeg hefi enga trú á því, að það mundi vera hagur, eins og nú standa sakir, að leigja t. d. eitthvert hinna ódýru norsku flutningaskipa og láta það sleikja hverja höfn.

Mjer þótti vænt um þá viðurkenningu frá hv. 3. landsk., þegar hann taldi óheppilegt, að eitt fjelag eða verslun fengi einkayfirráð yfir einhverri vörutegund, eða færi, eins og hann orðaði það, út fyrir takmörk heiðarlegrar verslunar. Hann hefir þá eftir þessu ekki mikið álit á hinum svo nefndu „trusts“ í Ameríku, því að enginn vafi er á því, að þeir fara út fyrir takmörk heiðarlegrar verslunar, að hans dómi. En grunur minn er sá, að ekki fari fjarri því, að nú sje að myndast einn slíkur hringur hjer í Reykjavík. Eftir því sem jeg frekast veit, er farið að muna merkilega litlu á verði hjá Sementskaupmönnum hjer í bæ. En mjer er mikil ánægja að því, að mega vænta liðveislu hv. 3. landsk., ef á þyrfti að halda að afstýra því, að vara kæmist í hendur hrings og út fyrir takmörk heiðarlegrar verslunar.