15.03.1928
Neðri deild: 48. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2143 í B-deild Alþingistíðinda. (1125)

30. mál, tilbúinn áburður

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg þakka hv. landbn. fyrir skjóta afgreiðslu þessa máls og ennfremur fyrir það, að hún hefir getað fallist á frv. í öllum aðalatriðum, og er jeg því fús til að taka brtt. hennar til greina.

Nefndin ber fram 3 brtt. á þskj. 447, og eftir atvikum get jeg ekki lagst á móti neinni þeirra af neinum þunga.

Um 1. brtt. nefndarinnar, sem fer fram á að ljetta undir með landflutninga, skal jeg geta þess, að jeg er fylgjandi hverri þeirri ráðstöfun, sem miðar að því að útvega mönnum þessa vöru með sem vægustu verði. Brtt. hv. 1. þm. N.-M. ganga lengra í þessa átt, en draga hinsvegar að sjer hendina um flutningsgjöld milli hafna. Vildi jeg skjóta því til hv. 1. þm. N.-M. og landbn., hvort ekki sje hægt að samræma brtt. hans við frv., þannig að hlunnindin um flutningsgjöld geti haldist bæði á sjó og landi. Á þann hátt næst best að gera öllum sem jafnast undir höfði um verð á áburðinum og að hvetja menn til að notfæra sjer hann sem mest og víðast. Raddir komu fram í Ed. um að ljetta undir með landflutningum, og lýsti jeg þar yfir því, að jeg myndi slíkum ráðstöfunum hlyntur, en tími vanst ekki til að koma fram með brtt.

Þá er 2. brtt. nefndarinnar, sem er um það, að kaupmenn skuli einnig versla með áburðinn. Till. kom fram um þetta sama efni frá hv. 3. landsk. í Ed., og kvaðst jeg ekki leggjast á móti henni af neinum þunga. En eins og jeg tók fram þar, finst mjer, að þegar hið opinbera kemur mönnum til hjálpar, eins og hjer er gert, þá sje það fyrst og fremst gert fyrir framleiðendurna sjálfa, og því sje óeðlilegt að blanda þeim mönnum inn í, sem ekki eru framleiðendur, en græða aðeins á versluninni með vöruna, en ekki á notkun hennar. En úr því að nefndin hefir orðið sammála um þetta, mun jeg ekki gera það að ágreiningsatriði nje beita mjer á móti því.

Um 3. till. er það að segja, að það verður vitanlega aldrei annað en áætlunarupphæð, hvað lagt er á vöruna, en því minna sem það er, því meira kemur á bak ríkissjóðs af rekstrarkostnaðinum, og mun jeg ekki leggjast á móti till., vegna þess tilgangs, sem á bak við liggur.

Þetta mál hefir valdið allmiklum ágreiningi á undanförnum þingum. Þykir mjer alt benda til þess, að nú horfi betur um úrslit þess en nokkru sinni áður. Að vísu veit jeg, að það muni sæta allmikilli mótspyrnu að þessu sinni. En brjef, sem borist hafa utan af landinu, sýna, að menn vænta sjer mikils af framgangi þessa máls, og jeg vona, að úrskurður reynslunnar verði sá, að frv., með þeim breytingum, sem á því kunna að verða gerðar, komi að stórmiklu gagni fyrir alda og óborna.