15.03.1928
Neðri deild: 48. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2146 í B-deild Alþingistíðinda. (1127)

30. mál, tilbúinn áburður

Magnús Jónsson:

Þá er nú þetta mál loksins að komast í höfn eftir langa og erfiða siglingu. Árið 1925 bar hæstv. núv. fors.- og atvmrh. fram frv. um þetta efni. Var þar að vísu ekki farið fram á einkasölu, heldur að ríkið tæki að sjer verslunina með áburð og veitti þeim, er keyptu hann, viss hlunnindi. Var meðal annars mælt fyrir frv. þessu á þá leið, að hjer væri eins mikið nauðsynjamál á ferðinni eins og það, er menn voru styrktir til að koma upp gaddavírsgirðingum. Jeg skal játa, að þetta er stórt mál, og getur orðið framtíðarmál. En ekki má blanda hjer saman tveim óskyldum atriðum: nauðsyn á útlendum áburði og ríkiseinkasölu. En þess virðist allmjög kenna í frv. því, sem hjer liggur fyrir.

Þetta mál hefir verið til umræðu á Alþingi síðan og oft gustað allmjög um það, en nú lítur út fyrir, að það sje að komast í höfn. Tjáir lítt að deila við dómarann, þar sem flokkar þeir, er að frv. standa, eru í meiri hl. í þinginu og landbn. hefir tjáð sig sammála frv. í öllum aðalatriðum. En af því að málið fór umræðulaust í gegnum 1. umr., vona jeg, að hæstv. forseti taki ekki hart á, þó nokkuð verði hjer minst á málið í heild.

Hjer er um tvö óskyld mál að ræða. Fyrra atriðið er hið sama og var mergur málsins í frv. 1925, að greiða fyrir flutningi áburðarins á hafnir landsins, og nú hefir verið bætt við brtt. um að flytja hann einnig ókeypis út um sveitir landsins. Jeg skal ekki hafa á móti þessu. Má vera, að menn hafi svo mikla trú á þýðingu aukinnar notkunar erlends áburðar. En jeg hefi ekki getað sjeð af neinum skjölum, sem hjer eru, hversu mikinn kostnað muni af þessu leiða fyrir ríkissjóð. Er það þó góð regla að láta einhverjar áætlanir fylgja, þegar um er að ræða alvarlega útgjaldaaukningu fyrir ríkissjóð. Jeg fyrir mitt leyti get ekki gert mjer neina hugmynd um, hve mikill sá kostnaður verður. Verslunarskýrslur vorar eru ekki svo nýjar, að af þeim verði sjeð, hve mikill áburðarinnflutningurinn hefir verið síðustu árin, og því síður er hægt að geta sjer til, hve innflutningur muni aukast. Vil jeg mælast til, að nefndin gefi upplýsingar um þessi efni.

Hitt atriðið, einkasalan, er miklu meira atriði. Jeg verð að segja það, að jeg varð fyrir allmiklum vonbrigðum, er jeg las skýrslu sendimanns stj., hv. þm. Mýr. (BÁ). Ekki af því að skýrslan væri illa samin, því að hún var hin skipulegasta í sniðum, heldur af því, að mjer fanst ekki koma þar eins mikið fram af upplýsingum um málið og jeg hafði búist við. Hafði verið skýrt frá því í „Tímanum“, að einhverjir stórviðburðir væru að gerast í þessu máli, og var helst að heyra, að eitthvert ríkisleyndarmál væri á ferðinni. Hafði jeg lesið um það áður, að fyrir dyrum væri stórbylting í áburðarframleiðslu heimsins. Var talað um breytta aðferð í rekstri saltpjetursnámanna í Chile, sem átti að hafa í för með sjer svo stórfeldan sparnað við saltpjetursvinsluna, að öll samkepni væri útilokuð. Um sama leyti las jeg og um samsteypu saltpjetursverksmiðjanna í Þýskalandi og Noregi. Jeg setti þetta í samband hvað við annað og gerði mjer í hugarlund, að verksmiðjurnar væru að búa sig út í bardaga gegn námueigendunum í Chile. Bjóst jeg svo við því, að nýjungar þær, sem verið var að dylgja með, stæðu í einhverju sambandi við öll þessi umbrot. Svo þegar skýrslan kemur, sjest þar ekkert sjerstakt nema það, að verksmiðjurnar í Noregi og Þýskalandi hafa slegið sjer saman í mikinn hring, svo að hjeðan af þýði ekki nein umbrot eða brölt í málinu. Þar sem þessi sendimaður á nú einmitt sæti hjer í hv. deild, þætti mjer og líklega fleirum gott að fá einhverjar frekari upplýsingar um málið, því að hann er þar vitanlega allra manna fróðastur.

Mjer finst einmitt tilgangsleysi þessa frv. skína út úr skýrslu hans. Jeg hefi lesið hana vandlega, en ekki fundið neina ástæðu færða fram um það, hvers vegna ríkið ætti að taka að sjer einkasölu á þessari vöru, nema aðeins almenna ást á einkasölu og þau alkunnu rök, sem færð eru fyrir ágæti slíks fyrirkomulags, t. d. það, að koma eigi í veg fyrir það, að einstök verslunarhús nái þessari vöru á sitt vald. Vitanlega er engin trygging fyrir því, að einkasalan komist að betri kaupum. Nú sem stendur er öll samkepni útilokuð á þessu sviði í útlöndum og ekki í annað hús að venda en til þýska fjelagsins, sem verslar við oss í gegnum „Dansk Gödningskompagni“. Hv. þm. Mýr. segir, að veik von sje um það, að við getum komist í beint samband við þýska fjelagið, en þó sje engin vissa fyrir því, enda er vafasamt, að það yrði okkur heppilegra.

Sumir kunna að segja, að þetta sjeu engar fullgildar mótbárur gegn einkasölunni, því að hún geti þó aldrei orðið til ills. En jeg álít, að ekki eigi að taka upp einkasölu á neinni vöru, nema um beint og ótvírætt hagsmunamál sje að ræða. Ríkissjóður hlýtur ávalt að binda fje sitt í slíkum fyrirtækjum og mikil áhætta hlýtur jafnan að vera verslunarrekstri samfara.

Í skýrslunni er svo sagt, að öll samkepni sje útilokuð. S. Í. S. hafi reynt að komast að samningum við fjelagið um beint samband, en það hafi ekki tekist. Sendimaður stj., hv. þm. Mýr., færir í tal, hvort ríkiseinkasölu muni takast það, en hann fær ekki svar. Það eina, sem var nýtt fyrir mig í skýrslunni, voru upplýsingarnar um hina nýju áburðarblöndu, sem hann telur auðveldara að flytja til landsins, ef einkasala verði upp tekin. Jeg get nú ekki skilið, hvers vegna hún ætti ekki að geta fengist eins án einkasölu.

Jeg vil nú drepa stuttlega á helstu rök skýrslunnar fyrir einkasölunni.

Í fyrsta lagi er sagt, að erlendur áburður sje nauðsynlegur. Þetta er líklega heilagur sannleikur, en það er engin sönnun fyrir einkasölu. Þá er sagt, að áburðarverslun okkar sje svo lítil, að ef hún sje á mörgum höndum, spilli það samningsaðstöðunni. En gallinn er sá, að hún er svo lítil hvort sem er — 1% af áburðarverslun Dansk Gödningskompagni, eftir því sem í skýrslunni greinir —, að sáralítið munar um hana, þótt hún sje á einni hendi. Þessi ástæða sannar einmitt hið gagnstæða við það, sem haldið er fram í skýrslunni. Vegna þess, hve verslun okkar er lítil, vill þýska fjelagið sennilega ekki líta við beinu sambandi við okkur, en skifta, fremur áfram við Dansk Gödningskompagni.

Ef beint samband næst við Stickstoff Syndikat, þá er það aðeins af velvild, en engum sjerstökum vildarkjörum verður hægt að búast við, enda skilst mjer á skýrslunni, að verslað verði framvegis við Dansk Gödningskompagni.

Þriðja ástæðan er talin sú í skýrslunni, að eina hugsanlega aðferðin til að fá áburðarblöndu „Nitrophoska“ hingað til landsins beint frá framleiðendunum sje sú, að einkasala verði tekin upp. Jeg get nú ekki sjeð, hvernig á því getur staðið, úr því að við verslum við Dansk Gödningskompagni hvort sem er. Ef vafi leikur á því, hvort betra sje að komast í beint samband heldur en skifta við milliliði, þá sje jeg ekki, hvað unnið er við að fá vöruna beint frá aðalframleiðanda.

Loks er sú ástæðan, að áburðarþörf landsmanna sje svo tiltölulega lítil, að óhentugt sje að dreifa versluninni á margar hendur, heldur sameina hana, svo að hægt sje að lesta sjerstök skip með áburðinn hingað til lands. Mjer þykir sennilegt, að það væri hægt að flytja áburðinn í heilum förmum án þess einkasalan ætti þar hlut að máli. Samband íslenskra Samvinnufjelaga mundi t. d. að sjálfsögðu geta flutt áburðinn á þennan hátt eins ódýrt og ríkiseinkasala.

Jeg hefi þá litið á þessar 5 höfuðástæður fyrir ríkiseinkasölu á tilbúnum áburði, sem skýrslan tekur fram. Eins og jeg þegar hefi sýnt fram á, eru þær sannast að segja ekki veigamiklar. Engin þeirra snertir eiginlega það mál, sem um er að ræða, sjerstaklega. Þar er ýmiss fróðleikur um áburðarverslunina yfirleitt, en rökin fyrir einkasölunni eru engin önnur en einkaskoðun höfundarins.

Jeg býst reyndar við, að utan við þessar ástæður, sem færðar eru fram í skýrslunni, sje enn ein ástæða, sem vakað hafi fyrir skýrslugefanda, og jeg veit, að það er aðalástæða í hugum margra manna, en hún er sú, að þeir, sem flytja inn áburðinn eins og nú er, setji ekki á hann hið rjetta verð; einkasalan á að vera til þess með öðrum orðum, að örugt sje, að menn fái vöruna með hinu rjetta verði, því að ríkið fari ekki að reka verslun með tilbúinn áburð til þess að græða á því. En þetta er ekkert nema hin almenna einkasöluástæða, sem eins ætti að gilda um allar aðrar vörutegundir. Tilbúinn áburður er að því leyti ekkert sjerstæður og verslun með hann hlítir sömu reglum og önnur verslun. Á bak við þessa ástæðu stendur sú skoðun, að hin frjálsa samkepni sje ekki örugg til þess að skapa hið rjetta verð. Þeir, sem henni fylgja, ganga þar með inn á, að einkasala skapi hið rjetta verð.

Við höfum eina aðferð, sem er þrautprófuð í gegnum nokkrar aldir og hefir ætíð reynst eina örugga leiðin til að tryggja notendum vörurnar með rjettu verði, og það er frjáls samkepni. En hinir, sem ríkiseinkasölunni halda fram, segja: ríkið hefir engan hag af því að vera að græða á þessari vöru; því hljótum við að fá hana þar með hinu eina rjetta verði. Jeg ætla ekki að fara út í það óendanlega mál að gera upp á milli þessa tvens. En það er þó einfalt mál, að þessi röksemd, hvort sem hún er raunrjett eða ekki, nær alveg eins til annara nauðsynjavara, og verður því ekki notuð þessu máli til stuðnings, nema gengið sje inn á þá almennu einkasöluhugmynd. En svo jeg víki aftur að verðinu, þá ætti meðal annars S. Í. S., sem fylgjendur þessa máls bera fylsta traust til, að jeg hygg allflestir, að geta trygt hið rjetta verð, ef menn örvænta svo mjög um það. Það leiðir af sjálfu sjer, að aðrir verslunarrekendur gætu ekki sprengt upp verðið, ef S. Í. S. seldi hann við sannvirði. Til þess að standast samkepnina yrðu þeir að gera slíkt hið sama. En ef önnur firmu en Sambandið eða jafnvel Sambandið sjálft nær þessari áburðarverslun alveg í einkasölu, þá er komin fram ný ástæða til ríkiseinkasölu, sem getur hrint manni, sem jafnvel annars er eindreginn fríverslunarmaður, út á þá braut viðvíkjandi einstökum vörutegundum — sbr. steinolíueinkasöluna um árið. — Ef þetta eina firma, hvort sem það nú er S. Í. S. eða eitthvert annað, misbeitir valdi sínu og aðstöðu, sem skapast við það, að verslun færist yfir á eina hönd, þá er ríkiseinkasala ef til vill einasta ráðið til þess að brjóta það á bak aftur.

En svo er ein ástæða beinlínis gegn einkasölunni, og hún er sú, að hún mun takmarka notkun tilbúins áburðar. En jeg álít, að ekkert megi gera í þá átt, heldur eigi að koma mönnum í skilning um nytsemi hans og gera sem kleifast að nálgast hann. Jeg býst við, að Búnaðarfjelag Íslands verði að vinna að því að fræða menn um nytsemi og notkun áburðarins, og eins að rjett sje að ljetta undir með bændum um flutninga á honum. Einkasalan er síður en svo löguð til þess að stuðla að þessu. Eitt meðal annars, sem hlýtur að hamla áburðarkaupum margra bænda, er það, að það er skýlaust heimtað, að áburðurinn skuli borgaður við móttöku. Jeg er ekki að lasta það út af fyrir sig. En það er einmitt galli á ríkiseinkasölunni, að það er nauðsynlegt að setja henni þessar römmu skorður. Því að það er ekki til þess að ljetta undir með mönnum að afla sjer áburðarins. Þá er enn svo ákveðið í frv., í 3. gr., að aðeins hrepps- og bæjarfjelög, búnaðarfjelög og samvinnufjelög bænda megi versla með áburðinn. Öðrum verslunarrekendum verður hann ekki útvegaður. Úr þessu er bætt með brtt. hv. landbn., sem fer fram á að lofa kaupmönnum að fljóta með. Jeg læt í ljós það álit mitt, að hvað sem öðru líður, þá sje nauðsynlegt með öllu að samþykkja þessa brtt. Það er ekki af umhyggju fyrir kaupmönnum, enda býst jeg ekki við, að þeir missi svo stóran spón úr aski sínum við þetta, heldur er það vegna þess, að þeim, sem versla eingöngu við einn kaupmann og hafa öll sín viðskifti við hann, kemur það mjög bagalega að geta ekki líka fengið þessa vöru hjá honum. Jeg sje heldur ekki, hvað ætti að vera hættulegt við það. Kaupmenn hafa engin tök á að selja áburðinn við öðru verði en hann fæst fyrir hjá kaupfjelögunum. Ef þeir seldu hann hærra verði, mundu bændur ekki versla við þá og snúa sjer að kaupfjelögunum.

Jeg sje ekki ástæðu til að koma með brtt. við þetta einkasölufrv. Við atkvgr. mun jeg greiða atkvæði á móti því, eða sitja hjá að minsta kosti. Jeg hefði að vísu getað reynt að bera fram víðtækar brtt., t. d. um að nema í burtu einkasöluákvæðið. En jeg hefi sjeð, að það er ekki til neins, þegar hv. landbn. leggur einhuga til að samþykkja frv. með lítilsháttar breytingum. Þá má telja nokkurnveginn víst um framgang þess. Jeg hefi því ekki viljað þreyta hv. deild á karpi um þýðingarlausar tillögur.