08.03.1928
Neðri deild: 42. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2357 í B-deild Alþingistíðinda. (1273)

141. mál, bankavaxtabréf

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Jeg gekk ekki að því gruflandi, að andmæli yrðu hafin hjer í þessari háttv. deild gegn þessu máli. Mjer var þegar kunnugt, hvernig straumarnir liggja. En úr því að hv. þm. eru svo sjerlega óánægðir, geri jeg ráð fyrir, að þeir telji ekki eftir að koma með brtt. við frv., úr því að þeir telja svo brýna nauðsyn til þess að halda áfram á þessari lántökubraut.

Jeg vil geta þess í þessu sambandi, að það, að ekki er tekin lánsheimild fyrir ríkisstjórnina til veðdeildarbrjefakaupa upp í frv., stafar af því, að þessi útlán þykja hafa gengið nokkuð ört, þar sem nú er búið að nota 10 milj. kr. á 1½ ári. Með sama áframhaldi var mjer það ljóst, að safnast mundu á skömmum tíma skuldir, sem öllum mundu ofbjóða, þótt segja megi, að verðmæti komi í staðinn.

En auðvitað er það svo, að þessi lán hafa ekki öll gengið til húsabygginga, heldur hefir æðimiklum hluta þeirra verið varið til þess að greiða gamlar skuldir. Það er aðeins tilfærsla milli manna, en ekki aukning verðmæta. Aðalástæðan til þess, að jeg tel rjett að láta nú staðar numið þar, sem komið er, er sú, að jeg álít það heilbrigðara fyrirkomulag, sem fengist með því að snúa sjer að því að framkvæma lögin um veðbankann. Sú stofnun er fyrir löngu samþykt hjer á þingi, en framkvæmdir hafa dregist. Jeg vona, að þetta tiltæki mitt — jeg ætla ekki að bendla hina ráðherrana neitt við það að svo komnu — verði til þess, að nú verði fyrir alvöru horfið að því ráði að setja veðbankann á stofn, svo að hann geti tekið til starfa innan skamms. Jeg held, að veðlánaþörf landsmanna hljóti að verða það hollara. Á síðustu tímum hefir verið gert allmikið til þess að auka sölu veðbrjefanna innanlands. Hefir sú starfsemi borið allgóðan árangur. Bankastjórnin gerir sjer góðar vonir um, að þessi sala geti haldið áfram og veðdeildin geti starfað þannig áFrsm. Þar af leiðandi verður alls ekki um alvarlega kyrstöðu að ræða.

En í þessu sambandi vil jeg geta þess, að mjer finst ástæða fyrir þá hv. þm., sem álíta, að með því að halda áfram á sama hátt og undanfarið mundi húsaleiga fljótlega lækka til muna, að athuga, hver reynslan er í þessu efni. Satt að segja verður ekki sjeð, að það hafi haft nokkur áhrif í þá átt, þrátt fyrir þessar 10 miljónir; a. m. k. er það svo hjer í Reykjavík, að þess hefir lítt orðið vart.

Jeg geri ráð fyrir, að þessir hv. þm. líti svo á, að því meira sem bygt sje í Reykjavík, því betra. En jeg get ekki neitað því, að mjer er það talsvert áhyggjuefni, þegar litið er á alt það verðmæti, sem safnast saman á þessari eyðimörku; verðmæti í húsum til íbúðar og verslunarrekstrar, og það oft óholls og óþarfs verslunarrekstrar. Þegar þessa er gætt, finst mjer ástæða til þess að skoða huga sinn vandlega og gera upp með sjálfum sjer, hvort rjett sje að halda áfram á þessari braut. Þegar svo hjer við bætist, hve óhóflega er farið með fjeð, svo að meðalfjölskyldumaður þykist þurfa að byggja fyrir 50 þús. kr., og efnamaðurinn lætur sjer ekki nægja minna en 100 þús. kr., þegar kannske ein einkaeign eða húseign einstaks manns er svo íburðarmikil, að hún er meira virði en öll húsakynni til samans í heilum hreppi, þá get jeg ekki annað sjeð en eitthvert öfugstreymi eigi sjer stað í þessum sökum. Jeg get ekki sannfærst um, að þing og stjórn eigi að stuðla að því, að menn haldi áfram í þá átt.

Jeg skal ekki fjölyrða mikið meira um þetta. Jeg þykist hafa gert grein fyrir því, hvers vegna veðlánsheimild var ekki tekin upp í frv. En það má vel vera, að þeir hv. þm., sem álíta, að jeg hafi brugðist skyldu minni í því efni, telji sjer skylt að bæta úr þeim göllum, sem að þeirra dómi eru á frv., og kemur þá til kasta þingsins að taka ákvörðun um, hvert stefnt skuli, hvort það álítur brýna þörf á, að landið taki á sig í bráð öllu meiri skuldbindingar en orðið er vegna þeirra útlendu lána, sem tekin hafa verið í þessu skyni.