03.03.1928
Neðri deild: 38. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (135)

1. mál, fjárlög 1929

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg á hjerna till. á þskj. 353, 10. till. Hún er viðvíkjandi tveimur stúdentum, sem áður hafa haft styrk til háskólanáms erlendis.

Eins og jeg hefi sagt tvisvar áður í þessari hv. deild, þá má ganga út frá því sem sjálfsögðu, að þeir stúdentar, sem fá styrk á þessum lið, eigi að halda honum í fjögur ár. Og það má skoða það sem algerð svik, ef sá styrkur, sem einu sinni er kominn inn, er feldur niður innan fjögurra ára. Af þessari ástæðu ber jeg fram tvo menn, sem áður hafa hlotið þennan styrk; en vegna samkomulags við fjvn. og frekara umtals við nokkra þm., mun jeg að þessu sinni taka till. aftur, en bera hana á ný fram við 3. umr. málsins.

Þá á jeg ásamt þremur öðrum hv. þm. 19. brtt. á sama þskj. Hún er um það að styrkja Pál Ísólfsson orgelleikara til þess að veita kirkjuorgelleikurum utan Reykjavíkur ókeypis kenslu í orgelleik, hljómfræði og söngstjórn í kirkjum og barnaskólum.

Það er öllum kunnugt, að mjög er ábótavant í þessum efnum og skortir mjög tilsögn. Og það verður vart meira nauðsynjaverk unnið í þeim greinum en að öllum orgelleikurum og barnakennurum, sem hingað koma árlega til bæjarins til söngnáms, verði gefinn kostur á að sækja ókeypis kenslustundir til hins ágætasta listamanns. Það er áreiðanlegt, að hjer er mikið starf að vinna, og ef á að leggja fulla alúð við það, þá er það svo mikið, að þessi ágæti listamaður getur ekki annast það án þess að fá sjerstakan styrk frá hinu opinbera. Ennfremur munu flestir orgelleikarar og barnakennarar utan af landi vera svo illa efnum búnir, að ekki er hægt að búast við, að þeir sæki tíma hjá góðum orgelleikurum, nema þeim sje gefinn kostur á þeirri kenslu fyrir lítið verð — eða ókeypis, eins og hjer er farið fram á. Auk þess, sem hjer er unnið mikið nauðsynjaverk gagnvart nemendunum, þá hygg jeg, að Alþingi megi vera ánægt yfir að fá hjer tækifæri til þess að styrkja ágætan listamann, þannig að honum verði lífið bærilegt í þessum bæ.

Þá er jeg og aðalflm. till. um það, að dr. Björgu Þorláksdóttur verði veittur styrkur til þess að vinna að framhaldi sálfræðirannsókna sinna, 2 þús. kr. í tvö ár, fyrri veiting nú á næsta ári. Hún telur, að það muni taka um tvö ár að ljúka við hið mikla ritverk, sem hún byrjaði á, er hún varð doktor, og að það sje tvöfalt meira verk nú eftir en það, sem hún lauk í upphafi. Það munu allir dást að dugnaði þessarar íslensku sveitastúlku, sem kemur fyrst til Kaupmannahafnar og lýkur stúdentsprófi, dvelur þar alllangan tíma, en verður að lokum doktor við einn frægasta og elsta háskóla álfunnar, háskólann í Sorbonne. Þó að ekki væri fyrir annað en þennan dugnað, sem hefir leitt af sjer doktorsnafnbót við Sorbonne-háskóla, þá ætti þessi kona skilið að fá styrk til þess að ljúka því verki, sem byrjaði svo glæsilega. Jeg býst við, að dugnaður þessarar konu yfirleitt sje svo viðurkendur, að hv. þdm. muni verða till. hlyntir. Það er ekki einungis doktorsritgerðin eða það áframhaldandi starf, sem hún ætlar nú að vinna, sem ætti að styðja að þessari fjárveitingu, heldur engu síður hitt, að hún hefir um 20 ára skeið unnið engu síður en maður hennar að hinni miklu íslensk-dönsku orðabók, sem öllum landsmönnum er nú kunn. Þetta mikla verk, sem unnið var fyrir litla sem enga borgun, það ætti að gefa henni fullan rjett til þessa tveggja ára styrks, sem hjer er fram borinn.

Þá á jeg till. á þskj. 374, um rafveitulán til Flateyrarhrepps. En þá till. mun jeg af sjerstökum ástæðum taka aftur við þessa umræðu og bera fram aftur við 3. umræðu.

Áður en jeg sest niður, vil jeg minnast nokkrum orðum á till. fjvn. um að fella niður kenslubókastyrk, sem stjórnin tók upp í sitt frv. Hún tók í frv. tvær fjárveitingar til barnafræðslunnar, sem nú hafa legið niðri um nokkurt skeið; annað var utanfararstyrkur til barnakennara, 3 þús. kr., sem sennilega mun verða veittur þremur mönnum árlega, 1 þús. hverjum, með vissum skilyrðum. Auk þess tók hæstv. stjórn þennan kenslubókastyrk upp aftur, sem einnig hafði legið niðri um skeið. Það er mikil þörf á þessum kenslubókastyrk, og jeg vildi óska þess, að hv. deild legði ekki sitt lið þeirri till. að fella hann niður. Eins og kunnugt er, þá er ástandið ekki gott um kenslubókakost í barnaskólunum. Eitt af þeim frv., sem nú hafa hlotið samþykki þingsins, er frv. um fræðslumálanefndir. En þær eiga að hafa það fyrir sitt annað höfuðstarf að styðja að því, að bókakostur í barnaskólum verði betri en nú er. Þær eiga að hafa á hendi löggilding kenslubóka; en löggilding kenslubóka fylgir og hitt, að nefndin geri það, sem í hennar valdi stendur, til þess að fá góðar kenslubækur, þar sem þær vantar, en það er mjög víða í okkar barnafræðslu. En til þess að útvega nýjar, góðar bækur hefir fræðslumálanefndin ekki annað vald en þetta, ef hún fengi umráð yfir nokkrum kenslubókastyrk. Jeg vil þess vegna segja það hjer síðastra orða, að jeg óska þess eindregið, að þessi till. nefndarinnar verði feld.