03.03.1928
Neðri deild: 38. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

1. mál, fjárlög 1929

Pjetur Ottesen:

Jeg vil svara hæstv. dómsmrh. nokkrum orðum út af ræðu hans í dag, þar sem hann mintist á húsmæðrafræðsluna við Laugaskólann. Kom hann þó lítið inn á aðalrök mín á móti málinu eins og það liggur fyrir, nefnilega þau, að nauðsyn sje á að komast niður á heildarskipulag í þessum efnum. Virtist hann skilja mig svo, að jeg væri á móti því að hækka hlutfallið úr 2/5 upp í ½. Það er ekki rjett. En um leið og þetta er gert. verður þingið að athuga, hve mikið fjármagn er unt að láta af hendi í þessu skyni, því að ekki dugir eingöngu að líta á það, að málefnið er gott, heldur einnig fjárhag ríkissjóðs. Jeg get fallist á, að heppilegt sje, að komið sje upp slíkum húsmæðraskólum við alþýðuskólana. En komið hafa fram fleiri till. um húsmæðraskóla, t. d. í Eyjafirði og víðar. Það, sem gera þarf, er að koma heildarskipulagi þessara skóla á fastan grundvöll. Árangurinn af starfi skólanna fer eftir því, hve vel er hægt að tryggja fjárhagslega afkomu þeirra, og það verður auðvitað því erfiðara, sem þeir eru fleiri.

Jeg er nokkuð kunnugur því frá Hvítárbakkaskólanum, hve erfitt það hefir reynst.

Þá er það steinsteypukenslan. Eftir því, sem hæstv. ráðherra lýsti hugsun sinni í því máli, fjellu skoðanir hans mjög saman við skoðanir mínar og hv. 2. þm. Skagf. Hann talaði í þessu sambandi um gagnfræðaskólana, bændaskólana og alþýðuskólana. En samt sem áður lýsti hann sig andvígan till., og furðaði mig stórum á því.

Jeg dreg það ekki í efa, að hæstv. dómsmrh. hafi lýst Birni Jakobssyni og kennarahæfileikum hans rjett. Það kom fram, að hann ætlaði að nota þessa fjárveitingu, sem hjer um ræðir, til að stofna íþróttaskóla á Laugum, eins og tilætlunin var 1926. Mjer dettur ekki í hug að efast um, að gott myndi leiða af starfi hans þar. En það gagn yrði fyrst og fremst fyrir nemendur skólans, eins og skiljanlegt er. Hæstv. ráðh. sagði, að veljast myndu úrvalsmenn af öllu landinu á íþróttaskólann. En ólíklegt þykir mjer, að menn sæki skóla á svo afskektum stað vegna íþróttanámsins eingöngu.

Um skíðaferðir er það að segja, að þær eru alltíðar í snjóahjeruðum og menn hafa þar leikni á skíðum til „praktiskra“ nota. Hinu skal jeg ekki bera á móti, að þeir gætu öðlast meiri leikni við góða kenslu.

Hitt leiðir af sjálfu sjer, að ef ríkissjóður tekur að sjer að kosta íþróttakensluna á Laugum, eða hvar sem væri í einstökum unglingaskóla, þá verður það til þess, að fram koma kröfur um samskonar stuðning frá öðrum skólum. Hæstv. ráðherra sagði það óheillahugsunarhátt hjá okkur að vilja fella niður þessa fjárveitingu. Jeg hefi þegar gert grein fyrir því, að það, sem fyrir okkur vakir, er ekki annað en fjárhagsleg öryggisráðstöfun. Þá sagði hæstv. ráðherra, að því stærra sem hugsað væri, því meiri yrði ávinningurinn. Talaði hann um, að stórhugur Thor Jensens og sona hans ætti erindi upp í sveitirnar. Stórhugur er vitanlega altaf góður, og jeg er ekki viss um, að það sje hann, sem bændur vantar yfirleitt. En þeir verða yfirleitt að slá af stórhug sínum til að samræma hann fjárhagslegri afkomu sinni, og þeim einum kemur stórhugurinn að notum, sem kunna þá list. Þar er rótin að öryggi landbúnaðarins.

Hv. 2. þm. Árn. (MT) hjelt langa ræðu um eftirgjöf á fjárveitingu til Flóavegarins og kom með ýms gögn máli sínu til sönnunar. En með því að hv. þm. hefir að mestu haldið sig utan gátta síðan, mun jeg geyma aths. við ræðu hans til 3. umr.