13.03.1928
Efri deild: 46. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í C-deild Alþingistíðinda. (1470)

105. mál, nýbýli

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Þegar jeg bar þetta frv. fram á þessu þingi, gekk jeg svo sem ekki gruflandi að því, að þeim andmælum mundi verða hreyft, sem nú þegar er raun á orðin, sem sje, að þessu máli hefði verið vísað til milliþinganefndar, en að hún hefði ekki enn skilað neinu áliti, og því ekki gerlegt að afgreiða þetta. En þó jeg byggist nú við þessum móttökum, þá þótti mjer samt rjett að bera það fram, og það var aðallega af þeim ástæðum, að menn, sem standa mjög framarlega í búnaðarmálum og af mjög mörgum taldir aðalfrömuðir hans, hvöttu mig eindregið til þess. Jeg þarf ekki að draga neinar dulur á, hverjir það voru, og get þar meðal annara nefnt Sigurð Sigurðsson búnaðarmálastj., sem einn af þeim, er fastast lagði að mjer með þetta. Auk þess er það oft svo, eftir nýjar kosningar, að ýms mál, er áður hafa átt erfitt uppdráttar, fá betri viðtökur en áður, vegna þess, að þá eru komnir nýir menn til sögunnar.

Eins og öllum er kunnugt, er sú stefna mjög ríkjandi nú, að beina fólksstraumnum sem mest upp í sveitirnar aftur, eða að minsta kosti að fá fólkið til þess að vera þar kyrt, sem ennþá er ekki farið. Og í samræmi við þessa stefnu er þetta frv. flutt, því það á að stuðla að því, að fólki, sem vill flytja upp í sveit, verði gert það kleift með því að það geti átt kost á landi til ræktunar og þeim húsakynnum, sem geti talist viðunanleg, samanborið við þær íbúðir, er þetta fólk getur haft í kaupstöðum. Og mjer þykir vænt um að geta lagt fram, þessu frv. mínu til stuðnings, álit manns eins og Sigurðar búnaðarmálastj. En þar tekur hann það fram, að hann áliti grundvallarstefnu þessa frv. rjetta. Hann álítur, að hverfabyggingin í sveitum sje framtíðarskipulagið, og það, sem best muni stuðla að aukinni ræktun í sveitum landsins. Á þann hátt verði ræktunin auðveldari og betri aðstaða með byggingar. Auk þessa verður alt auðveldara, hvað skólafyrirkomulag snertir, því að öll aðstaða verður ólíkt þægilegri í þjettbygðum hverfum, heldur en þar sem strjálbýlt er.

Auk Sigurðar hafa ýmsir mætir menn tjáð sig hlynta þessari uppástungu minni, og má þar t. d. tilnefna bankastjóra Landsbankans. Hafa þeir sumir hverjir talið þetta heppilegustu uppástunguna, sem fram hefir komið um þessi efni. Að vísu er búnaðarmálastj. ekki samþykkur mjer um öll atriði frv., svo sem að staðbinda nýbýlin í frv. o. fl., og get jeg að ýmsu leyti fallist á það. En mjer þótti rjett að sjá, hvernig frv. reiddi af við 2. umr., því jeg bjóst við, að því mundi ef til vill vísað aftur til milliþinganefndar í landbúnaðarmálum, vegna þess að hún hefði það til meðferðar, og því kem jeg ekki með brtt. að þessu sinni. En þess vil jeg þó geta, að þau ákvæði frv., að binda nýbýlin við ákveðna staði, eru ekki sett út í bláinn; t. d. í Ölfusinu eru stórar graslendur, sem auðvelt er að rækta, og þar eru ýmis ágæt skilyrði fyrir því, að koma upp nýbýlahverfi. Sama er að segja um lendur í Rangárvallasýslu, við Holtaveginn, að þar eru víða góð bæjarstæði. Að jeg legg ekki til, að þessi býli verði reist í sambandi við Flóaáveituna, stafar af því, að jeg lít svo á, að land það, er fjelli til ríkisins af áveitusvæðinu, ætti að láta þurrabúðarmenn á Stokkseyri og Eyrarbakka fá til afnota. Þeir eiga húsin niður frá og geta búið í þeim áfram, þótt þeir fái land til ræktunar. En í Flóanum eru engin verulega góð bæjarstæði, eins og á þeim svæðum, sem frv. tekur til, í Ölfusi og Holtum. Þessum mönnum, sem eru að gefast upp á sjósókninni í kauptúnunum austan fjalls, væri mjög mikill fengur í að fá lönd í Flóaáveitunni til afnota, án þess að þurfa að byggja ný býli. Hagur þeirra hefir þrengst mjög undanfarið. Verslunin er lögð burtu að mestu og flutt bæði til Reykjavíkur og að Ölfusárbrú. Útgerðin hefir brugðist, svo að þar er nú orðið miklu minna að gera fyrir þurrabúðafólk en undanfarna áratugi. Með þetta fyrir augum tilnefndi jeg ekki Flóann til þess að reisa þessi býli. Jeg hafði aðra skipun á afnotum ríkislendna þar í huga. En þetta er ekkert aðalatriði, og gæti jeg vel sætt mig við, að ekki væri staðbundið, hvar býlin skyldi reisa.

Jeg þykist ekki þurfa að eyða fleiri orðum að þessu máli. Jeg býst við, að örlög frv. sje þegar ákveðin. En jeg vildi mega vænta þess, ef frv. verður vísað frá, að þá sjái hæstv. stjórn um, að landbúnaðarnefndin, sem starfar milli þinga, taki þetta mál upp til athugunar og geri sínar till. út af því áður en langt líður.