13.03.1928
Efri deild: 46. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í C-deild Alþingistíðinda. (1472)

105. mál, nýbýli

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Það, sem hæstv. dómsmrh. sagði, byggist á erfiðleikum þeim, sem verið hafa hingað til á því, að halda uppi íslenskum landbúnaði. Yfirleitt hefir hann ekki borgað sig; því er ekki hægt að kosta miklu til hans. Þetta var inntakið í ræðu hv. ráðh. Í frv. mínu er sleginn nokkur varnagli við þessu. Jeg vona, að hæstv. ráðh. og aðrir athugi, að fjeð er lagt í býli, sem eiga að liggja við aðalsamgönguæð landsins. Þeir, sem búa við svo góðar samgöngur, geta borið uppi dýrari byggingar og aðrar framkvæmdir en þeir, sem ekki hafa tök á því að koma afurðum bús síns í verð. Þess vegna held jeg, að hæstv. ráðh. hafi vilst, er hann var að tala um of mikla rausn. Býlin eiga að byggjast við besta veg landsins, sem liggur til besta markaðs landsins, en hann er í Reykjavík, og búendur geta með auðveldum hætti sent vörur sínar þangað og fengið betra verð fyrir en bændur víðast hvar eiga við að búa. Það er því upplagt mál, að þeir eiga auðveldara með að greiða háa vexti af fje, sem lagt er í byggingu og ræktun, heldur en búandi á býli, er bygt væri uppi í afdal, sem er fjarri góðum samgöngum og ómögulegt að koma búsafurðum á markað.

Þetta frv. er bygt á alt öðrum grundvelli heldur en frv. það um byggingar- og landnámssjóð, er hæstv. ráðh. vitnaði í, og er um það bil að verða að lögum, eða er þegar orðið. Sá er munur á stefnu þessa frv. og þess frv. hæstv. dómsmrh., er hann hefir borið fram bæði nú og undanfarið, að annað hugsar til að halda fólki í sveitunum, en hitt gengur lengra, því að það ætlast til, að reynt sje að flytja fólkið úr kaupstöðunum upp í sveitirnar aftur. Þess vegna sje jeg ekkert athugavert við að samþykkja þessi tvö frv. samtímis. Þann tilgang, sem mitt frv. felur í sjer, sem sje þann, að veita fólksstraumnum úr bæjum út í sveitirnar, verður ekki auðveldara að framkvæma seinna. Sú kynslóð, sem nú lifir í bæjunum, er uppalin í sveitum að talsvert miklu leyti. Það er því auðveldara nú að fá fólkið til þess að flytja aftur upp í sveitirnar, meðan enn eimir eftir af kunnáttu til sveitavinnu, heldur en eftir svo sem 10–20 ár, er sú kynslóð, er þá byggir kaupstaðina, er með öllu orðin afvön og ókunn sveitalífi og bústörfum. Það verður að vinda bráðan bug að, ef okkur er alvara, að vilja beina fólksstraumnum aftur til sveitanna.

Jeg verð að þakka hæstv. dómsmrh. fyrir góðar undirtektir um að beina þessu máli til milliþinganefndar í landbúnaðarmálum, ef þetta frv. næði nú ekki fram að ganga. Þykir mjer það betra, að mega eiga von á, að sit nefnd taki það til meðferðar heldur en ekki, þótt jeg hinsvegar telji, að það sje nú þegar svo vel undirbúið, að vel megi frá því ganga og samþykkja á þessu þingi.