03.03.1928
Neðri deild: 38. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (148)

1. mál, fjárlög 1929

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Jeg þarf lítillega að svara þrem hv. þm.

Hv. 2. þm. Reykv. mintist á sundkensluna í Reykjavík. Þar hefi jeg ekki getað orðið sannfærður um, að upphæð sú, er Alþingi veitir til hennar, sje hlutfallslega of lág á móti því, sem bærinn veitir. Jeg verð því að halda fast við það, að bærinn borgi launauppbót þá, sem þeir bræður fara fram á.

Þá var það hv. l. þm. Reykv., sem kom með aths. um sundlaugarnar. Vildi hann gera það að skilyrði fyrir styrk, að sundlaugarnar væru yfirbygðar. Nefndin hefir komið með brtt. við þann lið um, að á eftir „sundlaugar“ komi: og sundskýli. Fann nefndin ekki ástæðu til að taka þetta nánar fram, en átti við, að gera mætti skýli yfir laugarnar. (MJ: Ekki hús við laugarnar?). Nei, en nefndin fann ekki ástæðu til að greina á milli Reykjavíkur og sveitanna og lækka styrkhlutfallið, þótt þær gætu ekki komið sjer upp jafnfullkomnum laugum og Reykjavík. Flestir sveitamenn verða að láta sjer nægja að gera lægri kröfur til eins og annars heldur en Reykvíkingar, og svo verður um þetta, og er ekki rjett að láta þá gjalda þess, heldur styrkja þá hlutfallslega jafnt.

Þá er það hv. þm. N.-Ísf. Hann fann að því, að nefndin skyldi taka aftur til 3. umr. till. um brimbrjót í Bolungarvík. En nefndin bíður einungis eftir frekari upplýsingum. Vil jeg því ekki ræða það mál frekar nú. Hann hafði við orð að taka till. upp, nema nefndin óskaði, að hann gerði það ekki. Um það hefir nefndin engar óskir, en það hlýtur hann að skilja, að hann gerir málinu ekkert gagn með því að fara að taka hana upp við þessa umr. í trássi við nefndina.