23.01.1928
Neðri deild: 4. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í C-deild Alþingistíðinda. (1540)

18. mál, dýralæknar

Pjetur Ottesen:

Það er öllum kunnugt, að meðal þjóðarinnar hafa verið og eru enn uppi allháværar raddir um að reynt sje, eftir því sem framast er unt, að draga úr kostnaði við starfsmannahald ríkisins. Og það er síst ófyrirsynju, að slíkum kröfum er haldið á loft. Því að sú hefir jafnan orðið reyndin á, að sje ekki vel haldið á rekstri ríkisbúsins, eða láti illa í ári, kemur það niður á verklegu framkvæmdunum. Þær verða að sitja á hakanum. Þá er ekki hægt að sinna nema af skornum skamti þessari höfuðnauðsyn landsmanna, þótt gjaldabyrði almennings sje hinsvegar svo há, að teflt sje á fremsta hlunn.

Undanfarin þing hafa mjög daufheyrst við þessum kröfum. Þó kom fram allmerkilegt atriði af þingsins hálfu 1925. Þá var samþykt þál. þess efnis, að ef embætti losnaði, sem tiltækilegt þætti að sameina öðrum starfa eða leggja niður, skyldi það ekki veitt, án þess að leita þingviljans. En það hefir komið á daginn, að í þessu var ekki falin sú trygging, sem gera hefði mátt ráð fyrir.

Á síðasta þingi stóð svo á, að dáið hafði maður í embætti; og annar, sem að vísu var ekki embættismaður, en þó starfsmaður ríkisins. Og þáverandi stjórn beið með skipa í þessar stöður, samkvæmt áðursögðu. Því verður ekki mótmælt, að vel var hægt að sameina umrædd embætti öðrum embættum. En hvernig fór? Á þingi náði þetta ekki fram að ganga, heldur sætti mjög ákveðnum andmæltun. Auk þess sem þetta mætti mótspyrnu, má geta þess, að endurreist var á síðasta þingi alóþarft embætti, svo þarflaust, að jafnvel talsmenn þess gáfust upp í leit eftir rökum fyrir sínum málstað.

Því hefir verið haldið fram sem ástæðu fyrir því, hve miklu fje þyrfti að verja til opinberrar starfrækslu, að strjálbýlið og samgangnaleysið gerði það að verkum, að vjer Íslendingar þyrftum tiltölulega miklu fleiri embættismenn en aðrar þjóðir. Það er sjálfsagt eitthvað til í þessu. En þó er það svo, að þegar mest var losið í okkar þjóðlífi og embætti og sýslanir spruttu upp eins og gorkúlur á haug, þá kom sú aukning mest og aðallega niður á kaupstöðunum. Ekki er þó strjálbýlinu fyrir að fara þar. Starfsmannagrúinn er þar mestur, þótt Reykjavík beri þar höfuð og herðar yfir. Því lít jeg svo á, að fyrst og fremst eigi, þegar til fækkunar kemur, að líta eftir, hvort ekki sje hægt að draga eitthvað úr embættafjöldanum í kaupstöðunum. Ekki þar með sagt, að þar við ætti að sitja. Vitanlega er sjálfsagður hlutur að svipast líka út um sveitir landsins og aðgæta, hvað má draga þar úr. Það hafa heyrst raddir um, að fækka mætti sýslumönnum allmikið að skaðlausu, og um brauðasamsteypur er það að segja, að enn mætti að sjálfsögðu færa þar nokkuð saman. Starfsmannagrúinn í kaupstöðunum jókst einmitt mest á þeim árum, er litið var öðruvísi á þessa hluti en menn verða nú að gera, og því er eðlilegt, að grípa þar fyrst niður.

Hvað þetta frv. snertir, þá er það vitanlegt, að sú fækkun, sem þar er farið fram á, gengur út yfir bændur, strjálbygðina, sem samkvæmt rökum þeirra, er rjettlæta vilja embættis- og starfsmannafjöldann, má síst við því, að frá henni sje tekið það, sem hún hefir. Þar sem hæstv. fors.- og atvmrh. talaði um það, að ekki yrði æskileg not af starfsemi dýralækna, þá kemur það til af því, hve erfitt er að ná til þeirra. Stefnan hefir undanfarið verið sú yfirleitt, að fjölga bæri dýralæknum frekar en fækka. 1915 var þeim fjölgað um 2. Á þingi 1919 báru þingmenn Árnesinga fram till. um að fjölga þeim upp í 7. samkvæmt samþyktum þingmálafunda í Árnessýslu. Þetta var samþ. hjer í Nd. með 1 atkv. mun, að mig minnir, en dagaði uppi í Ed. Af þessu má sjá, að litið hefir verið svo á af talsvert mörgum, að dýralæknar væri landbúnaðinum nauðsynlegir menn.

En jeg vil fyrir hönd okkar bænda sýna mjög mikla sjálfsafneitun í þessu efni. Jeg get lýst yfir því, að jeg mun fylgja þessu frv. En það vil jeg taka fram, að mjer virðist hjer byrjað á öfugum enda. Hæstv. stjórn hefði fyrst átt að bera niður í kaupstöðunum; svo átti og jafnhliða að fara út um sveitirnar. Þó álít jeg, að heppilegra hefði verið að byrja þar á öðrum fyr en dýralæknum.

Þótt jeg nú fylgi þessu frv., svo sem jeg hefi þegar tekið fram, þá er mjer það fyrir þá sök miklu ógeðfeldara, að hæstv. stjórn hefir ekki samtímis int af hendi þá sjálfsögðu skyldu, að bera fram tillögur um fækkun á starfsmönnum í kaupstöðum, og það er svo fjarri því, að hún hefir jafnvel, að því er jeg heyri sagt — jeg skal ekki fullyrða neitt að sinni; tækifæri mun gefast til þess síðar — aukið allmikið starfsmannaliðið, bæði í Rvík og eins í öðrum kaupstöðum. Þetta er svo vaxið, að jeg get alls ekki látið hjá líða að benda á hið algerða ósamræmi í framkomu hæstv. stjórnar. Og það hlýtur að koma allóþægilega við tilfinningar okkar bændafulltrúanna að hugsa til þess, að verið sje að jeta upp það fje, er þannig á að sparast við niðurlagningu á embættum, sem að gagni mættu koma fyrir landbúnaðinn, og ekki aðeins það, heldur og jafnvel miklu meira, til þess að fjölga starfsmönnum í kaupstöðum.

Annars ætla jeg ekki að fara mikið út í ræðu hæstv. fors.- og atvmrh. Hann talaði um, að dýralæknar kæmi að litlu liði. Aðalgagnið af þeim væri það, að hægt væri að ná í þá í síma og fá hjá þeim ráðleggingar. Þeir fengist ekki við að rannsaka orsakir og eðli búfjársjúkdóma. Þetta er alls ekki rjett, og það kom mjer mjög á óvart, að hæstv. ráðh., formaður Búnaðarfjelags Íslands, skyldi halda þessu fram. Mætti honum þó ekki síður en öðrum vera kunnugt t. d., að dýralæknirinn eystra, Jón Pálsson, hefir rannsakað eðli og háttsemi ormaveiki í sauðfje og gefið út á kostnað Búnaðarfjelags Íslands ráðleggingar við þessari veiki. Eru þessar rannsóknir hans og leiðbeiningar birtar sem sjerprentun úr Búnaðarritinu. — Starfið er og miklu víðtækara en hæstv. ráðh. vill láta í veðri vaka. Það er meira en að svara fyrirspurnum í síma. Jeg veit t. d. ekki betur en að dýralæknirinn á Akureyri sje nú á ferðalagi um Húnavatnssýslu, vegna ormaveikinnar, er nú geisar þar. Húnvetningar hafa ekki látið sjer nægja að tala við hann símleiðis. Það er því ekki hægt að tala um algert gagnsleysi þessara embættismanna, og því verður ekki neitað, að meira gagn mundu þeir gera okkur bændum, ef þeir væru fleiri, svo að við þyrftum ekki, sakir fjarlægðar, að fara á mis við aðstoð þeirra, þegar mikið liggur við.

En hjer kemur annað til greina. Það má líta á þetta frv. sem tilraun og byrjun til þess að draga úr starfsmannakostnaði ríkisins. Og á þeim grundvelli vil jeg fylgja því.

Jeg gat ekki látið hjá líða að minnast á þessi atriði, og því betur þætti mjer, ef það gæti orðið til þess, að hæstv. fors.- og atvmrh., höfuð stjórnarinnar, tæki nú rögg á sig og ljeti nú ekki sitja við það eitt að bera fram tillögur um fækkun dýralækna, heldur bæri hann einnig niður í kaupstöðum líka; væri nógur tími til þess enn að bera fram slíkar tillögur á þessu þingi, ef áhugi væri fyrir því.