23.01.1928
Neðri deild: 4. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í C-deild Alþingistíðinda. (1542)

18. mál, dýralæknar

Sigurður Eggerz:

Aðeins örfá orð. Jeg lít svo á, að þau hjeruð, sem eftir frv. þessu eiga að verða fyrir því, að missa dýralækna sína, verði fyrir miklu tapi. Og mjer finst það liggja í hlutarins eðli, að svo framarlega sem meira á að gera fyrir landbúnaðinn hjer eftir en hingað til hefir verið gert, þá sje þetta, að kippa helming dýralæknanna burtu, alveg spor í öfuga átt, sem hreint og beint ekki megi eiga sjer stað. Því að það er öldungis víst, að landbúnaðurinn hefir verið vanræktur til þessa, og að halda lengur áfram á þeirri braut, má ekki eiga sjer stað. En það er víst, að úr þörfum hans verður ekki bætt með eintómum hrópyrðum, án þess að hafast neitt að, honum til hagsbóta, eins og því miður virðist hafa verið aðalstarf sumra þeirra manna, sem telja sig bera hag hans manna fyrir brjósti.

Hvað snertir þá tillögu stjórnarinnar, sem kemur fram í aths. við frv. þetta, að framkvæmdar verði vísindalegar rannsóknir og tilraunir, um ráð gegn þeim búfjársjúkdómum, sem mestu tjóni hafa valdið hjer á landi, er ekkert nema gott að segja. Jeg tel brýna nauðsyn á, að hún komi til framkvæmda, því að vart mun meiri þörf á öðru, að því er þessi mál snertir, en að rannsaka þessa skæðu sjúkdóma. En það tel jeg, að framkvæma megi, án þess að dýralæknunum sje burtu kipt.

Þá var eitt orð í ræðu hv. þm. Borgf., sem gefur mjer tilefni til að beina örfáum þakkarorðum til hæstv. stjórnar. Hv. þm. var að tala um embætti, sem núverandi stjórn vildi halda uppi; þrátt fyrir andstöðu gegn því. Mun hann hjer hafa átt við sendiherraembættið í Kaupmannahöfn. Jeg vil einmitt leyfa mjer að þakka hæstv. stjórn fyrir, að hún skuli hafa tekið upp í fjárlagafrumvarpið fjárveitingu til þess, því að það er embætti, sem er nauðsynlegt, og almenningur mun því ekki sjá eftir því fje, sem til þess gengur.