23.01.1928
Neðri deild: 4. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í C-deild Alþingistíðinda. (1543)

18. mál, dýralæknar

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg get lýst ánægju minni yfir niðurlagsorðunum í ræðu hv. þm. Borgf. Hann virtist hafa sömu skoðun og jeg, að rjett sje að leggja embætti þessi niður í bili, þar sem þau virðast ekki koma að þeim notum fyrir þjóðfjelagið, sem til var ætlast, þegar þau voru stofnuð.

Þá get jeg tekið undir það með þessum hv. þm., að ástæða sje til að fækka embættismönnum víðar, t. d. í kaupstöðum. En þar sem fæstir af þeim embættismönnum heyra undir mig, þá skal jeg ekki fjölyrða um það frekar nú, en mun að sjálfsögðu nú sem fyr fylgja slíkum rjettmætum tillögum, hvaðan sem þær koma. Annars má ekki ætlast til þess, að stjórnin gæti fyrir þetta þing tekið alt það til athugunar í embættabákni landsins, sem nauðsyn ber til að athugað sje, þar sem svo stuttur tími er frá því, að hún tók við. En það mun verða athugað síðar.

Hv. þm. hafði það ekki rjett eftir mjer, að ekkert hefði verið gert vegna húsdýrasjúkdómanna. Jeg taldi þvert á móti, að töluvert hefði verið gert, t. d. viðvíkjandi bráðapestinni, og það væri góðra gjalda vert, sem Jón Pálsson hefði gert vegna lungnaormasýkinnar, enda þótt það virtist að mestu leyti vera kák eitt, þar sem athuganir hans eru ekki bygðar á vísindaleg- um grundvelli.

Hv. 2. þm. Rang. lagðist á móti frv. þessu, og kom það mjer ekki á óvart, því að hann hafði sagt mjer það fyrirfram, að hann væri frv. andvígur. Hann taldi, að dýralæknarnir bæði gætu og ættu að annast kenslu við búnaðarskólana. En reynslan er búin að margsanna, að það verður ekki gert, nema þá með miklum aukakostnaði. Þá benti þessi háttv. þm. á reynslu annara þjóða. En þar er því að svara, að hjer er slíkt ekki sambærilegt, og reynsla annara þjóða er ekki sú, að dýralæknar annist búpeningssýningar. Og hvað þetta mál snertir, þá er reynslan ekki sú, að þessar dýralæknastöður hafi ekki komið að tilætluðum notum fyrir þau hjeruð, sem áttu að njóta þeirra.

Hv. þm. Dal. taldi það hart fyrir Austfirðinga og Vestfirðinga, ef dýralæknum þessum væri kipt í burtu. En slík ummæli sem þessi eru mælt af ókunnugleika á staðháttum. Því að hvaða gagn hafa t. d. menn á Vestfjörðum frekar af dýralækni í Stykkishólmi en í Reykjavík. Og hvaða gagn hafa menn norður í Vopnafirði af dýralækni á Reyðarfirði? Jeg veit, að það er lítið. Hitt get jeg aftur tekið undir með þessum háttv. þm., að landbúnaðurinn hafi verið vanræktur og látinn sitja á hakanum að undanförnu, og að ekki nægi honum til viðreisnar aðeins orðin tóm. En hvað snertir framkomu mína og þessa hv. þm. á undanförnum árum gagnvart landbúnaðinum, þá þori jeg óhræddur að koma þar í samanburð. Annars finst mjer koma úr hörðustu átt, að þessi hv. þm. skuli vera að stæra sig af umhyggju fyrir landbúnaðinum, þar sem það er eitt af hans helstu afrekum, síðan hann gerði sjálfan sig að bankastjóra, að bola einu stærsta bændafjelaginu, sem starfar hjer um slóðir, frá viðskiftum við banka þann, sem hann veitir forstöðu. Á jeg þar við Mjólkurfjelag Reykjavíkur.

Þá var háttv. þm. Dal. að þakka stjórninni fyrir, að hún skyldi halda uppi sendiherraembætttinu í Kaupmannahöfn. Út af þeim ummælum hv. þm. vil jeg taka það fram, að eins og kunnugt er, komu í fyrra fram tillögur um, að veita ekki fje til þessa embættis, en þær voru úrskurðaðar frá, af því að þær voru taldar koma í bága við gildandi lög, sem embætti þetta hvíldi á. Fyrir þessum úrskurði hæstv. forseta beygir stjórnin sig nú, og tekur upp á fjárlagafrv. fje til embættisins. Á hún því engar þakkir skilið fyrir það.