23.01.1928
Neðri deild: 4. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í C-deild Alþingistíðinda. (1546)

18. mál, dýralæknar

Gunnar Sigurðsson:

Mjer fanst hæstv. atvmrh. gera lítið úr því, að bæta mætti við dýralæknana störfum. Það má vel vera, að það yrði erfitt fyrir dýralækninn á Akureyri að kenna vestur á Hólum, en víða hagar svo til, að hægt er fyrir dýralækna að taka að sjer kenslu. Og einmitt vegna strjálbygðarinnar virðist full þörf á að draga saman þau störf, er saman geta átt, en skifta þeim ekki á milli fleiri manna. Þarna vill nú svo vel til, að um skyld störf er að ræða. Dýralæknarnir eiga að vera það lærðir menn, að óhætt sje að fela þeim að standa fyrir kynbótasýningum. Þeir eiga beinlínis að hafa öðrum fremur sjerþekkingu í slíkum efnum. Það er líka erfitt og dýrt, að senda menn hjeðan, t. d. austur á land, til þess eins að mæta þar á sýningum. Hitt virðist rjettara, að fela það starf dýralækninum, sem búsettur er í þeim fjórðungi. Við það sparaðist ferðakostnaður hjeðan, sem hlýtur að nema allmikilli upphæð.