10.03.1928
Neðri deild: 44. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

1. mál, fjárlög 1929

Einar Jónsson:

Jeg er meðflm. að tveim brtt. við þennan kafla fjárlagafrv. Mun jeg fara um þær báðar nokkrum orðum, þótt einn meðflm. minna hafi þegar talað fyrir annari. Jeg varð ekki var við, að hann mintist á hina, styrkinn til þjóðvegarins yfir Hvolsvöll, sem er á þskj. 450,I. Jeg bið hv. þd. vel að muna, að hjer er um þjóðveg að ræða, en ekki sýsluveg eða aukaveg. Brtt. er fram borin eftir meðmælum vegamálastjóra, sem vildi hafa þessa upphæð í fjárlögum, þótt hæstv. stj. hafi ekki sjeð sjer fært eða þóknast að taka hana upp í frv. Jeg hugsa, að deildin minnist þess, að um þennan veg var nýlega beint spurningu til hæstv. atvmrh. (TrÞ), og svaraði hann þá því, að hann væri því fylgjandi, að vegurinn væri lagður. Að vísu ætti jeg nú að geta sætt mig við loforð vegamálastjóra og hæstv. ráðh., en finst þó betra, að þetta sjáist svart á hvítu í fjárlögum. Það er eðlilegt, að hv. þdm. geti ekki dæmt um nauðsyn þessa vegar af eigin raun, því margir þeirra hafa aldrei farið þarna um. En þar sem bæði vegamálastjóri og hæstv. atvmrh. álíta, að um brýna þörf sje að ræða, vænti jeg, að hv. deild ljái brtt. lið sitt. — Jeg skal játa, að mikill tekjuhalli í fjárlögum er mjer altaf ógeðfeldur. En þó sárnar mjer minna að sjá hann, ef fjeð gengur til verklegra framkvæmda heldur en ef það fer til þeirra hluta, er jeg álít miður nauðsynlega. Jeg sje ekki ástæðu til að fara um brtt. mörgum orðum, en bið menn að íhuga, hversu afskaplega mikil umferð er á þessum stað. Þótt þeir hafi ekki farið þar sjálfir, munu þeir þó hafa heyrt um það og hafa áreiðanlega skilning á því. Síðan ferðalög fóru að tíðkast í Fljótshlíð og Þórsmörk, er bifreiðaumferðin svo mikil, að hún gerir veginn alveg ófæran í bleytu. Upphleyptur vegur er þarna eiginlega ekki, heldur nokkurskonar moldarbraut. Annars verður, auk langferðamanna, öll austursýslan og Skaftfellingar að fara þarna yfir. — Hjer er farið af stað með þá upphæð, sem vegamálastjóri áleit óumflýjanlega og hina minstu, sem komið gæti til mála, að nægði, sem sje 10 þús. kr.

Þá er brtt. á þskj. 435, sem við þm. Rang. flytjum ásamt tveim hv. þdm. öðrum, um styrk til Fjallabaksvegar. Mjer var bent á það, að ýmsir mundu hafa misskilið þessa brtt. vegna nafnsins á veginum. En hann heitir Fjallabaksvegur alt frá Holtaveginum, upp Holt og Landhrepp, austur afrjetti til Skaftafellssýslu. — Hjer er að nokkru leyti farið fram á endurveitingu, því að árið 1926 hafði landsstjórnin athugað veginn og heitið 12 þús. kr. styrk til að gera við hann. En af sjerstökum mistökum var þetta fje aldrei tekið. Jeg skal ekki segja, að krafan um þessa greiðslu sje að öllu leyti sjálfsögð, en sanngjörn hlýtur hún að teljast, þar sem bæði landsstjórn og vegamálastjóri höfðu fallist á hana 1926. Þessar 12 þús. kr., sem farið er fram á, munu að vísu vera alt of lág upphæð til að gera veginn færan, en sýslan mun leggja fram nokkur tillög á móti, enda þótt hún hafi bæði marga og langa sýsluvegi aðra um að hugsa. Að vísu er til í Rangárvallasýslu Sýsluvegasjóður, og gerir hann nokkru hægara að hlynna að vegunum. En allir sjá, að útgjöld einstaklinganna í sýslunni verða hin sömu, hvort sem þau fara gegnum Sýsluvegasjóð eða ekki. — Sá hluti af Fjallabaksvegi, sem Sýsluvegur nefnist, er nálægt 36 km. Hefir hann stundum verið svo á sig kominn að undanförnu, að Landmenn hafa ekki getað farið hann. Hafa þeir orðið að taka á sig þann krók að fara austur yfir Ytri-Rangá á brúnni og upp Rangárvelli, en þar er þurrara og greiðara að fara eftir sandinum í vætutíð. Hafa þeir svo orðið að fara yfir Rangá aftur ofar óbrúaða, til þess að komast yfir á Land. En það má heita ógerningur að ríða Rangá í vatnagangi, og vöð á henni eru svo slæm, að illfært er eða ófært með vöruflutninga yfir hana. Þess vegna er Landhreppi afarmikil nauðsyn á að fá veginn lagfærðan.

Af því að jeg veit, að svo margir hv. þdm. vilja fegnir gera sem mest fyrir verklegar framkvæmdir, ekki síst fyrir vegina, mun jeg nú láta staðar numið og treysti því, að þeir greiði þessu atkvæði.