31.01.1928
Neðri deild: 10. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í C-deild Alþingistíðinda. (1581)

54. mál, trygging á fatnaði og munum skipverja

Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Frv. þetta er enginn nýr gestur hjer á Alþingi, því að það hefir verið borið fram á tveim undanfarandi þingum. Og enda þótt hv. þm. kunni að finnast, að það sje ekki mikið nýtt í því, þá felst þó í því sú rjettarbót handa mönnunum, sem það er fyrir, að nauðsynlegt er, að það verði að lögum.

Það hefir allmikið farið í vöxt á síðustu fimm árum, að fiskiskip hafa orðið fyrir þeim slysum að stranda, og á stuttu tímabili hafa hvorki meira nje minna en þrír togarar algerlega strandað, og tveir eða þrír þeirra á þeim stöðum, að mjög hefir verið tvísýnt um, að lífi skipverja yrði bjargað, en í fleiri tilfellum hefir afleiðingin orðið sú, að alt, sem þeir hafa haft með sjer, hefir farist, eða að meira eða minna leyti skemst. Strand getur komið fyrir hvaða skip sem er, við okkar stormasömu strendur, og þess vegna er líka ætlast til, að ákvæði frv. nái til allra þeirra skipa, sem nauðsynlegt þykir. En að talið er nauðsynlegt að tryggja þessa muni, er af því, að hjer er oft um mjög fátæka menn að ræða, sem hafa lagt mikið í kostnað, til þess að klæða sig til vinnu sinnar, og sá klæðnaður er alldýr, svo sem hlífðarföt og vinnuföt, og svo hafa þeir löngum með sjer betri fatnað, til þess að geta klæðst í, þegar þá ber að landi á fjarlægum stöðum. Og ekki mun fjarri að áætla, að verðmæti þessara muna sje alt að 800 krónum. En á minni skipum er gert ráð fyrir, að mennirnir hafi minna með sjer, og er vátryggingarupphæðin þar þess vegna höfð nokkuru minni.

Menn munu nú segja sem svo, að það eigi að vera kleift fyrir sjómennina sjálfa að vátryggja muni sína. En þar til er því að svara, að það er altaf sama sagan, að menn eru ekki nógu árvakir um sinn hag, og það er hætt við, að menn verði það aldrei, nema því aðeins, að slíkt sje fyrirskipað í lögum. Það eru svo mörg dæmi þess, að það verður að skylda fólk til þess að tryggja sig fyrir óhöppum. Jeg skal benda á, að á styrjaldarárunum komst sú regla á hjá nágrannaþjóðunum, að útgerðarmenn trygðu muni skipverja sinna, og ef mennirnir svo mistu það, sem þeir höfðu með sjer, þá fengu þeir alla upphæðina greidda. Hjer hjá okkur hefir þetta komist lítilsháttar í kring, þar sem Eimskipafjelag Íslands er, því að það hefir tekið upp þessa reglu. Við álítum, að þessi regla þurfi að gilda á öllum skipum, hvort sem það eru togarar, mótorskip eða línubátar, því að alstaðar getur það komið fyrir, að slík áföll eigi sjer stað.

Jeg verð að geta þess, að þegar slík strönd hafa átt sjer stað, þá hafa skipverjar í raun og veru hvergi getað fengið greitt það tap, sem þeir hafa beðið, og það er óhætt að segja það, eins og minst er á í grg. frv., að undantekningarlaust alt er vátrygt á skipinu, nema fatnaður skipverja, menn, skip, farmur, alt er vátrygt, nema þetta eina, og það kemur niður einmitt þar, sem síst skyldi, þar eð í flestum tilfellum er um algerlega eignalausa menn að ræða.

Í frv. er gert ráð fyrir því, að iðgjaldsgreiðsla sje gerð á hendur útgerðarmanni, að þeir standi straum af þeim kostnaði. Jeg vil nú taka það sem dæmi, að jafnstórt fjelag og fjelag botnvörpuskipaeigenda hjer trygði þetta á einum stað, og mundi þá verða hægt að komast að mjög góðum kjörum, og svo væri hægt að tryggja þetta aftur hjá einhverju endurtryggingarfjelagi. Svo er líka önnur leið til, sú, að hvert útgerðarfjelag fyrir sig hefði þann kostnað, að greiða þær upphæðir úr fjelagssjóði, sem ætti að greiða, þegar skipsstrand kemur fyrir, og svoleiðis mun það einmitt vera hjá Eimskipafjelagi Íslands. Það mun ekki hafa trygt hjá öðrum, heldur staðið sjálft allan straum af þessum kostnaði; en í fleiri tilfellum má nú vænta þess, að þetta komi sjaldan fyrir, og mundi því ekki hafa mikil áhrif á iðgjaldagreiðslu.

Að síðustu vil jeg geta þess, að það er ekkert ákvæði til í íslenskum lögum um það, ef farmaður verður fyrir því að missa fatnað sinn, og standi allslaus eftir, að hann skuli klæddur aftur. Erlendis er það ákvæði tekið inn í lög, að ríkið skuli sjá honum fyrir nauðsynlegum klæðnaði, til þess að hann geti komist heim til sín. Jeg veit dæmi þess, að það hefir komið fyrir hjer suður á Selvogsgrunni, að mönnum hefir verið bjargað svo að segja nöktum. Fóru þeir til stjórnarinnar og spurðu, hvort þeir gæti ekki fengið eitthvað upp í fatakostnað, en ráðherra sá, sem þá var, sagði þeim, að það væri engin heimild í lögum, sem gæfi leyfi til að láta þá fá neitt fje til fata.

Jeg skal svo ekki þreyta hv. deild á lengri ræðu að sinni. Jeg leyfi mjer að leggja til, að þessu frv., verði vísað til 2. umr. og til sjútvn.