09.02.1928
Neðri deild: 18. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í C-deild Alþingistíðinda. (1642)

78. mál, bændaskóli

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Mig langar einungis til að gera grein fyrir því atriði, sem frv. hefir um ríkisrekstur skólans. Jeg ætla ekki að slá neinu fram um það, hvort betra sje að reka búið fyrir reikning hins opinbera, eða láta einstaka menn reka það, en aðeins benda á, að það eru nú þegar orðnar mjög skiftar skoðanir um það. Það má ekki skoða skólabúið sem atvinnustofnun, heldur sem skóla, á sinn hátt eins og hið bóklega. Það er að vísu altaf æskilegt, að skólabúið, eins og önnur bú, beri sig. En eftir því sem verklega kenslan er aukin þar, því nær færist það því, að vera einskonar verklegur skóli, og þess vegna er það, að menn álíta rjettast, að ríkið taki það að sjer og reki eins og hverja aðra skóla, þar sem þörf nemenda er höfð fyrir augum, en ekki einstaklings.

Jeg vil taka undir með hv. 2. þm. Skagf., að jeg álít það sje alls ekki neinum vandkvæðum bundið að koma þessu verklega námi fyrir á skólanum, þó að rekinn sje af einstökum mönnum. Og þessi frv.gr. segir ekki fyrir um það, að annar eða báðir skólarnir verði reknir af því opinbera. En til þess að úr þessu verði skorið, hvort heppilegra sje að reka skólabúið fyrir reikning hins opinbera eða einstaklinga, álít jeg rjett að reyna nú ríkisrekstur á öðru búinu, þegar þannig stendur á, að annar skólinn losnar úr ábúð í vor. Þá ætti að fást reynsla um það, hvort hentara væri. (PO: Er það meiningin?) Já, það er meiningin. Og þó að jeg hafi mína ákveðnu skoðun um það, hvort sje betra, að reka fyrirtæki á ríkiskostnað eða einstakra manna, þá er jeg þó ekki sá „princip“-þræll, að vilja ekki gera tilraun. Reynslan er þó altaf ólygnust.