22.02.1928
Neðri deild: 29. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í C-deild Alþingistíðinda. (1701)

108. mál, einkasala á tóbaki

Magnús Jónsson:

Jeg skal ekki lengja umr., vegna þess að hv. 2. þm. G.-K. tók einmitt það í ræðu hv. flm. til athugunar, sem er mest villandi, og tók þar með ómakið að miklu leyti af mjer. Ef eitt ár er tekið út úr, er hið eina rjetta að taka besta ár einkasölunnar og besta ár hinnar frjálsu verslunar til samanburðar. En það hittist nú svo á hjer, að meðaltalsreglan er alveg rjett, þegar litið er á þessi fjögur ár, sem einkasalan stóð. Fyrsta árið, 1922, er óvenjulega rýrt ár, hið næsta talsvert betra og hin tvö, 1924 og 1925, óvenjulega góð ár.

Jeg reikna dálítið öðruvísi en hv. 2. þm. G.-K., jeg tek meðaltal tveggja síðustu ára einkasölunnar, því að hin fyrri tvö var gengisviðaukinn ekki kominn til greina, en samt verður útkoman sú, að frjálsa verslunin hefir gefið um 200 þús. kr. meira í ríkissjóð árlega en einkasalan.

Það er því ljóst, hvernig sem þessu er velt, að spár þeirra, sem fylgdu afnámi einkasölunnar, hafa fyllilega ræst og meira en það, að því er fjárhagshliðina snertir.

Hv. flm. vildi ekki tala um gengisgróðann, af því að hann hefði farið til þess að greiða með útsvar, sem landsverslun varð að greiða samkvæmt dómi. Um þetta var nokkuð deilt á þingi 1925, og held jeg, að ekki sje hægt að komast hjá því, að útsvör verða altaf að fylgja. — Jeg hefi ekki við hendina gögn til að bera saman, hvað einkasalan hefir greitt í útsvar á þeim árum, sem hún starfaði, og hvað fæst með samkeppnisverslun. Jeg hygg, að erfitt sje að finna, hvaða tekjur fljóta af samkeppnisverslun, en hitt ætla jeg, að af sömu umsetningu hljóti að fljóta sömu tekjur til hins opinbera. Úsvör eru líka tekjur, þótt þau gangi ekki í ríkissjóð.

Hv. flm. rjeð ekki vel við það atriði, hvers vegna innflutningurinn varð minni á einkasölutímanum, og skildist mjer helst, að hann vildi bera hæstv. fyrv. stjórn einhverjum sökum þar að lútandi. Jeg veit ekki, hvort hann vill halda því fram, að hún hafi ýtt undir smyglun. Mjer þykir ótrúlegt, að hann meini það, en það mátti næstum ráða það af orðum hans.

Hv. flm. ætlaði að bæta fyrir sjer með því að bera fram rök almenns eðlis, eins og hann sagði, að stórfyrirtæki beri sig betur en fyrirtæki í smærri stíl. Þetta er rjett, ef stóru fyrirtækjunum er meistaralega stjórnað, en það hefir verið svo hingað til, að minni fyrirtækin hafa staðið nokkuð við hlið hinna stærri, sökum þess, að vandinn við stóru fyrirtækin er svo miklu meiri.

Hv. flm. sagði einnig, að það væri miklu betra fyrir ríkissjóð að hirða allar tekjur af verslunarágóðanum, heldur en tollinn einan. Þetta er alveg satt. En þá sannast um leið önnur staðreynd, og hún er sú, að gallar ríkisrekstrarins hafa etið alt þetta upp og meira til. Ríkissjóður hefir á einkasölutímanum hirt bæði ágóða og toll, en hvorttveggja til samans hefir ekki gefið ríkinu eins mikið og tollurinn einn gefur í frjálsri samkeppni. — Þetta svona tölur í landsreikningunum, og þær tala svo ljóslega, að allar „teoriur“ nægja ekki til þess að bæta þær upp. — Fram hjá þessari staðreynd er ekki hægt að komast.