10.03.1928
Neðri deild: 44. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (176)

1. mál, fjárlög 1929

Sigurður Eggerz:

Jeg get vel skilið, að sú nefnd, sem átti að gera till. um styrk til flóabátanna, hafi átt örðugt með að gera svo öllum líkaði, og skal jeg því alls ekki deila um það við hana. En jeg vil leyfa mjer að snúa mjer til hæstv. stj. og leggja mikla áherslu á það, hvaða þýðingu það hefir fyrir Dalamenn, að Borgfirðingar fái nægilegan styrk til báts síns. Undir honum eru nefnilega samgöngurnar vestur í Dali komnar. Samgöngur á landi vestur í Dalasýslu eru svo slæmar, að nauðsynlegt er að styrkja bátaferðir ríflega vestur þangað. Jeg hygg, að rjettast sje að láta bátsstyrkinn halda sjer, því að þó að nú hafi verið samið um 7–9 ferðir, ber þess að gæta, að þörf er á fleiri ferðum.

Jeg vil eindregið styðja tilmæli hv. þm. Borgf. um, að stj. taki til greina óskir hans um, að nægilegt fje verði veitt til þessara ferða. Að öðru leyti skal jeg ekki fjölyrða um þetta mál. Jeg vil aðeins, vegna þekkingar minnar á högum Vestur-Skaftafellssýslu, taka undir með hv. þm. þeirrar sýslu um það, að nauðsynlegt sje, að „Skaftfellingur“ fái ríflegan styrk. Jeg var í 6 ár sýslumaður í Vestur-Skaftafellssýslu og kyntist örðugleikunum þar á sviði samgöngumálanna. Þá var byrjað að tala um byggingu þessa báts, og hann hefir sannarlega gert mikið gagn.