26.01.1928
Efri deild: 7. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í C-deild Alþingistíðinda. (1810)

46. mál, einkasala á síld

Flm. (Jón Baldvinsson):

Jeg man ekki í svipinn ákvæði heimildarlaganna frá 1926, en undarlegt þykir mjer, ef hæstv. fyrv. stjórn hefir getað heitið fyrirfram einhverjum einstökum mönnum því, að þeir skylda fá einkasöluleyfið, ef þeir kæmu á samtökum um fjelagsstofnun sín á milli. (JÞ: Það er beint ákvæði um það í lögunum, hvernig fjelagið skuli stofnað.) — Jeg held, að einhver tiltekin tala útvegsmanna þurfi að koma þar til greina, en að ekki sje hægt að lofa neinum einstökum útgerðarmönnum því, að þeir skuli fá einkasöluna.

Mjer kemur það undarlega fyrir, að hv. 3. landsk. segir, að ekki sje nauðsyn á nýju skipulagi. Ja, jeg veit ekki, hvað ætti þá að verða, ef ekki á að koma nýtt skipulag til sögunnar, því að ef alt situr í sama fari og nú er, þá er ekkert upp úr því að hafa annað en vandræði og reiðileysi. Mjer skilst hann nú sjálfur stinga upp á skipulagi, eftir þeim ágæta fyrirlestri að dæma, sem hann flutti í gær um síldarverksmiðju, nýju fyrirkomulagi, sem óneitanlega væri spor í þessa átt.

Það er alls ekki rjett hjá hv. 3. landsk., að ekki sje auðveldara að koma síld á erlendan markað, ef einkasala kæmi. Nú ætluðu menn síðastliðið sumar að fá meiri síld á markaðinn í Rússlandi. En það var ekki hægt, af því að Íslendingar áttu ekki síldina, höfðu ekki ráð á henni. Ef við hefðum haft ráð yfir síldinni með einkasölu, hefðum við blátt áfram getað tekið svo og svo mikið og sent á nýjan markað, af því að verðið var ekki lakara en við seljum fyrir til Noregs og Svíþjóðar. En sænskir og norskir síldarkaupmenn hafa náð yfirráðum yfir þessari vöru og notað þau yfirráð til þess að eyðileggja söluna, nefnilega með lækkuðu verði.

Mjer skilst því, að hvernig sem þessu máli er velt fyrir sjer, þá sje það eitt víst, að það þarf nýtt skipulag. Síldarútvegsmenn hafa síðasta áratuginn verið að leitast við að koma á nýju skipulagi, en það hefir ekki tekist fyrir sundurlyndi sjálfra þeirra. Og þegar þeim hefir mistekist svona hrapalega, þá álít jeg, af því að svo mikið er í húfi, að ríkisvaldið eigi að koma til sögunnar. Það á líka auðveldasta aðstöðu, bæði inn á við og út á við. Það þrýstir þessum fjelagsskítum til þess að vera með í samtökunum og er jafnframt vörn út á við gagnvart erlendum ríkjum, sem annars kynni að þykja sjer misboðið, ef fjelagi einstakra manna væri veitt svo víðtæk rjettindi yfir einni grein okkar verslunar.