20.02.1928
Efri deild: 27. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í C-deild Alþingistíðinda. (1896)

110. mál, útflutningsgjald af síldarlýsi

Flm. (Erlingur Friðjónsson):

Hæstv. fjmrh. hafði þau ummæli um þá aðferð, að taka þessa einu tegund lýsis út úr, að hjer eimdi eftir af gömlum ósið, sem sje að íþyngja síldarútvegsmönnum með álögum umfram aðra. Jeg get viðurkent, að það sje enn svo, að hærra gjald sje lagt á síld en aðrar afurðir. En ef ósamræmi er í því, að leggja hærra gjald á síldarlýsi en lýsi af þorski, hákarli o. s. frv., þá er ennþá meira ósamræmi í því, að leggja miklu hærra útflutningsgjald á saltaða og kryddaða síld en á mjöl og lýsi, sem úr síld er unnið, eins og verður, ef útflutningsgjaldinu verður ekki breytt frá því, sem nú er.

Það var þetta ósamræmi milli útflutningsgjalds af síldinni sjálfri og þeim efnum, sem úr henni eru unnin, svo sem síldarmjöli og lýsi, sem jeg vil laga með frv. á þskj. 205 og 206. Hitt taldi jeg ekki mitt hlutverk, að bæta úr því ósamræmi, sem kann að finnast í útflutningsgjaldi af íslenskum afurðum yfirleitt.

Það sýnist fullkomin sanngirni í því, að hækka þetta gjald að nokkru, þegar litið er á það, að þessi vara hefir undanfarin ár sloppið mjög „billega“, sem kallað er, við útflutningsgjaldið. Fyrir mitt leyti er jeg alveg sannfærður um, að nauðsyn er á því, að yfirvega yfirleitt, hvernig útflutningsgjöldum og öðrum ríkissjóðstekjum er jafnað niður á framleiðslu þjóðarinnar. Að því leyti er jeg alveg sammála hæstv. fjmrh. um að sjálfsagt sje að athuga frv. í nefnd, og þá skyld atriði um leið.

Jeg skal geta þess, að jeg hefi ekki borið undir hæstv. fjmrh. þessi frv. mín, nema 1. gr. frv. á þskj. 206, og lagði hann þar til ýmsar góðar bendingar. Jeg hefi við athugun á útflutningsgjaldi á síld komist að þeirri niðurstöðu, að rjett væri að breyta þessu á þá leið, sem jeg hefi lagt til, ekki síst með hliðsjón af því, að síldarbræðslan er að mestu leyti í höndum útlendinga, og virðist ekki ósanngjarnt, að útlendingarnir greiði sinn hluta af útflutningsgjaldinu, eins og það þótti rjett á sínum tíma að leggja hærri gjöld á síldarútveginn en aðrar framleiðslugreinar, af því að útlendingar ættu mestan þátt í honum.

Jeg tel, að meðan svo er, að útlendingar hafa yfirráðin yfir síldarbræðslunni og veiðinni í hana líka að mestu leyti, þá sje mestur hagur í því fyrir okkur, að færa útflutningsgjaldið sem mest yfir á þá síld, sem brædd er.