06.03.1928
Efri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í C-deild Alþingistíðinda. (1917)

111. mál, útflutningsgjald af síld o.fl.

Frsm. minni hl. (Björn Kristjánsson):

Jeg hefi litlu að svara hv. þm. Ak., enda hefir hann fáu andmælt af því, sem jeg sagði. Hann benti á, að síldarverksmiðjurnar mundu græða stórfje á framleiðslu sinni, og sennilegt, að þær ættu hægt með að borga síldina betur en þær hefðu gert. En þetta hefir ekki nein áhrif á það, sem jeg sagði, enda geri jeg ekki ráð fyrir að verksmiðjurnar sleppi neinu af sínum gróða, en láti það ganga út yfir framleiðendurna í lægra verði, sem þeir gefa fyrir síldina. Ef taka á upp í þessu efni reglu hv. þm. Ak. um, hvað mikið eigi að gjalda, miðað við, hvað mikið fáist af lýsi úr vissum þunga síldar, þá verður að taka fleira til athugunar, t. d. hvað mikið fáist af lýsi úr þorski og ýsu, og samræma útflutningsgjaldið eftir því.

Þá sagði hann, að síldarbræðslan væri í höndum útlendinga aðallega, og er þetta rjett athugað. En þetta hefir ekki önnur áhrif en að þeir halda sínum gróða, og gefa bara lægra verð fyrir síldina. Þá vildi hann láta 2. gr. frv. standa, og með það fyrir augum, að mjer skildist, að útvega nýja markaði fyrir saltaða síld. Mjer finst, að væri nær að gera tilraunir um nýja markaði, bæði í Rússlandi og víðar. Og væru þær tilraunir á rökum bygðar, en ekki gerðar út í loftið, þætti mjer sennilegt, að ríkið hlypi undir bagga með ívilnun á útflutningsgjaldinu eða öðrum hlunnindum. Þá gat hann og þess, að nóg bærist að síldarverksmiðjunum af efni til þess að vinna úr, og má það til sanns vegar færa, að svo hafi verið síðastliðið sumar, af því að þá var um sjerstakt aflaár að ræða. En þó er engin trygging fyrir því, að þeir fái altaf nóg, segja þeir, sem kunnugir eru þessum atvinnurekstri. En úr þessu verður að bæta, svo að verksmiðjurnar þurfi ekki að standa aðgerðarlausar, þó miður aflist eitt sumar en annað.