12.03.1928
Neðri deild: 45. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í B-deild Alþingistíðinda. (194)

1. mál, fjárlög 1929

Magnús Guðmundsson:

Á frv. því, er hjer liggur fyrir til umræðu, hefir hæstv. stj. gert þá breytingu, að hún hefir strikað út styrk til íslenskrar orðabókar, en í stað þess sett mann þann, er um það verk átti að annast í 18. gr. fjárlaganna með 1000 kr. eftirlaun. Þessi maður var á sínum tíma tekinn úr embætti til þess að vinna að þessu verki. Hann er bláfátækur og er hingað kominn til þess að vinna að þessu svo lengi sem heilsa og kraftar leyfa. Jeg var því mótfallinn í byrjun, að á verki þessu væri byrjað með svo litlum kröftum, en úr því þessi maður hefir verið tekinn úr embætti vegna þess, finst mjer ekki rjettlátt að fara nú að svifta hann styrknum. Þar að auki á hann lagalega kröfu til, mikils hluta þessara eftirlauna, að minsta kosti 500–600 kr. Jeg hefi að vísu ekki áthugað, hve lengi hann hefir þjónað í sínu embætti, en býst þó við að þetta muni láta nærri, samanborið við aðra presta. Jeg hefi því komið fram með þá brtt. að færa þennan styrk í sama horf og hann áður var, vegna þess að mjer finst það ósanngjarnt af því, sem á undan er gengið, að svifta hann því fje, er hann þarf til þess að lifa af, enda er mjer ekki kunnugt um, að starfskraftar hans hafi þrotið svo, að hann geti ekki sint þessu starfi sem áður. Jeg sje, að útbýtt er brtt. frá hv. 2. þm. Reykv. (HjV) að setja mann þennan á 3500 kr. eftirlaun, sem mundu að viðbættri dýrtíðaruppbót nema 5000 kr. Verði till. þessi samþ., þykja mjer verk þessa manns vera álitin lítils virði, ef þau vega ekki upp á móti þeim mismun, sem er á brtt. minni og háttv. 2. þm. Reykv., því að verði brtt. hv. 2. þm. Reykv. samþ., er maður þessi ekki skyldugur til að vinna að þessu starfi, þótt hann kunni að halda því áfram sökum þess, hve þetta starf er honum hjartfélgið. Hinsvegar ef fjárveitingin er á sínum gamla stað, er hann skyldugur til þess að vinna að þessa máli.

Þá kem jeg að þeirri brtt., sem hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) mintist á, um aukastyrk til Reykjalaugar á Reykjabraut og Steinstaðalaugar.

Svo stendur á um þessar sundlaugar, að þær voru fullgerðar á síðasta ári og njóta því ekki góðs af þeirri hækkun á framlagi til sundlaugabygginga, sem samþ. hefir verið á þessu þingi. Það er því till. okkar hv. þm. V.-Húnv., að þessar laugar verði einskonar milliliðir, þótt það fje, sem farið er fram á, að ríkið veiti, sje ekki nálægt því helmingur kostnaðar, því að önnur laugin mun hafa kostað um 17 þús. kr. og hin 8–9 þús. kr.

Jeg bar þessa till. fram við 2. umr., en tók hana þá aftur, og get jeg vísað til þess, er jeg þá sagði till. til frekari stuðnings. Út af ummælum háttv. þm. N.-Ísf. vil jeg taka það fram, að jeg get ekki sjeð, að sú laug, er hann nefndi, geti fengið styrk af því fje, sem veitt hefir verið til sundlaugabygginga 1929. Jeg hefi aldrei vitað til þess, að fjvn. hafi ráðstafað þessu fje, enda ekki hægt að vita, hvaða laugar verði bygðar á þessu og þessu ári. Annars mun frsm. að sjálfsögðu upplýsa þetta.

Þá er eitt atriði, sem jeg vildi minnast á, og það eru allar þessar eftirgjafir á lánveitingum úr viðlagasjóði, sem munu nema um 200 þús. kr. Má eflaust gera ráð fyrir, að eitthvað af þeim verði samþ., þótt það verði ekki allar, en þá virðist mjer vanta gjaldlið í fjárlögin til þess að greiða þessi lán, ef ekki á að láta þau ganga á viðlagasjóð. Mun og hafa verið venja að hafa gjaldlið í fjárlögunum fyrir þessi gjöld, og eru því vantalin þau gjöld, er svara lánum þessum, ef ekki á að ganga á viðlagasjóðinn, svo hann verði uppjetinn eftir nokkur ár.

Vildi jeg biðja hæstv. stjórn eða hv. frsm. að upplýsa þetta atriði.