23.03.1928
Efri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í C-deild Alþingistíðinda. (1941)

130. mál, Þingvallaprestakall

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Ræða þessa hv. þm., er lauk nú máli sínu, var meira borin fram af tilfinningum heldur en rökrjettri hugsun. (IHB: Nei, langt frá því!) Fyrst talaði hv. þm. um þann ójöfnuð, sem þessu prestakalli væri sýndur. En þetta er nú sá ójöfnuður, sem ýmsum prestaköllum hefir verið sýndur, síðan lögin frá 1907 voru samþykt. En þau hafa verið að koma til framkvæmda smátt og smátt síðan. (IHB: Þetta er ekki sambærilegt!) Jú, það er alveg sambærilegt, en það væri of langt mál, að fara að rekja það nánar. (IHB: Það er ekki sambærilegt, því það eru ekki til nema einir Þingvellir!) Þetta er alveg sambærilegt við aðrar samsteypur prestakalla, og slíkt er ávalt tilfinningamál þeirra, sem við það eiga að búa. (IHB: Tilfinningamál! Slúður!) — Jú, það eru altaf einhverjir óánægðir með þetta. (IHB: Jeg undirstrika það og tek það fram aftur, að það eru ekki til nema einir Þingvellir á Íslandi!) Það er nú vafasamt! (IHB: Ekki Þingvellir við Öxará!) Mönnum hefir nú víðar hjer á landi verið sárt um prestssetur sín, sem hafa verið lögð niður. Hjer er umt fáment prestakall að ræða, og er því af þeirri ástæðu fyllilega sambærilegt við þau önnur prestaköll, sem lögð hafa verið niður.

Þá var það ein höfuðvitleysan í ræðu hv. þm., að þarna ætti að leggja niður kirkju og prest. Hvorugt á að leggja niður, eða sópa burtu, eins og hv. þm. komst að orði. Sjálfur biskupssonurinn á að verða prestur Þingvallasafnaðarins, og kirkjan á að standan áfram. Þetta mun hv. 2. landsk. líka sjá og sannfærast um við rólega athugun málsins. (IHB: Þetta er hártogun!) Nei, þetta er engin hártogun. Jeg býst ekki við, að hv. þm. (IHB) telji ver sjeð fyrir sálusorgun þessa safnaðar, þó biskupssonurinn sje látinn sjá fyrir henni. (IHB: Skiftir ekki máli, hverra manna sá prestur er, sem þjóna ætti söfnuðinum, ef samsteypan kemst á!) Við verðum að líta á þetta mál með kaldri skynsemi og út frá því sjónarmiði, á hvern hátt best megi takast að friða Þingvelli og gera þá að þeim helgistað, sem þeir eiga að vera fyrir þjóðina. Þetta, að flytja prestinn af Þingvöllum, er þó ekki stærri spor, heldur en þegar Alþingi var flutt þaðan. Hv. þm. (IHB) mun vera það kunnugt, að þá litu margir á það mál frá sjónarmiði tilfinninganna. En aðrir, og þar á meðal Jón Sigurðsson, litu á það mál frá alveg praktísku sjónarmiði. Þeir sáu það, að Reykjavík var að mörgu leyti hentugri staður. Þar var alt, sem til þarf, við hendina. Þetta rjeð þeim úrslitum. En nú er ekki svo, að um það sje að ræða, að leggja niður prest og kirkju. Það á hvorugt að gera. (IHB: En þetta er alóþarft spor.) Öll ræða hv. þm. var á engum rökum reist og haldin út í loftið.

Jeg hefi þá eiginlega svarað hv. 2. landsk. Hv. þm. var að tala um þetta sem eitthvert alveg sjerstakt menningarmál. Það er það sjálfsagt í margra augum, að því leyti, sem ætlast er til, að presturinn sjái fyrir kristilegu uppeldi safnaðarins. En fyrir því verður sjeð jafnt eftir sem áður. Þá var hv. þm. að tala um, hver óhæfa þetta væri gagnvart þeim útlendingum, sem hingað mundu koma 1930. Jeg býst nú varla við því, að þeir færu yfirleitt að halda spurnum uppi um það mál. Og þótt einhver þeirra gerði það, þá sje jeg ekki, hvaða mismun það gerði í þeirra augum, hvort heldur presturinn, sem þjónar þessum söfnuði, á heima á Þingvöllum eða Mosfelli.

Þá var eitt atriði, sem hv. 3. landsk. kom fram með við 2. umr. og hv. 2. landsk. endurtók nú, en það er sú ástæða, að prestur væri nauðsynlegur þar á staðnum, vegna friðunar á skóginum. Það er nú svo með þessi höfuðrök hv. þm., að svo er hvert mál sem það er virt. Sá brestur, sem nú er, friðaði skóginn á þann hátt, að leyfa hverjum sem vildi að hafa með sjer hrís þaðan, ef það aðeins borgaði nokkra aura fyrir hverja hríslu. En þegar umsjónarmaðurinn dvaldi þar, þá var öllum bannað að hafa með hrís frá Þingvöllum eða rífa það upp. Vernd prestsins var því í því fólgin, að heimila öllum hrísrif, sem bannað var áður. Aðeins varð að borga honum nokkra aura, sem engan munaði um, sem annars hafði ráð á því að vera þar á skemtiferðalagi. — Þá talaði sami hv. þm. (IHB) um það, að þótt Þingvellir væru friðaðir fyrir skepnum, þá mundi þó fólk streyma þangað og staðurinn verða ófriðaður fyrir einhverju því, sem ekki væri betra nje fallegra. Þar sem jeg veit nú ekki, hvað hv. þm. á við með þessu, þá mun jeg ekki svara því. En ætlunin er sú, að fólk geti dvalið þar sjer til skemtunar og að þar sje ekkert gert, er spilli staðnum nje friðun skógarins. En það er ekki hægt, ef bítið er á Þingvöllum og fjenaður prestsins eyðir skóginum. En vetrarbeit sauðfjár í skóginum er hans mesta eyðilegging. En þótt presturinn sje fluttur burtu, þá munu þó þær tilfinningar, er grípa menn þar, eins fá notið sín. Þar verður eins og áður „búinn til úr bálastorku bergkastali frjálsri þjóð“. Náttúrueinkenni staðarins munu halda áfram að laða hugi manna til sín. Og þegar búið er að flytja burtu ýmislegt það, sem nú skemmir staðinn, og auka fegurð hans með þeim árangri, er friðunin veitir, mun blómi Þingvalla og sómi þjóðarinnar aukast.

Jeg býst ekki við, að hv. 2. landsk. nje aðrir hv. þm. komi með nein þau rök í þessu máli, sem svara þurfi. Býst jeg því við, að þurfa eigi frekar að ræða þetta mál. Jeg hefi þegar sýnt fram á, að höfuðrökin, þau, að sópa eigi með þessu presti og kirkju burt af Þingvöllum, eru alveg röng. Þar óð hv. 2. landsk. (IHB) algerlega í villu og svima.