30.03.1928
Neðri deild: 61. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í C-deild Alþingistíðinda. (1958)

130. mál, Þingvallaprestakall

Jóhann Jósefsson:

Heldur en að láta þetta frv. fara til nefndar umræðulaust, eins og helst eru líkur til, þykir mjer hlýða að segja nokkur orð.

Þetta frv. var fyrst á ferðinni í fyrra, í sambandi við ráðstöfun annars prestakalls, Mosfellsprestakalls. Kom þetta fyrir allsherjarnefnd í Ed., en í henni átti jeg sæti þá. Skrifaði jeg undir nál. nefndarinnar með fyrirvara, því mjer fanst það strax heldur óviðfeldin hugsun, að lagt yrði niður prestsetrið á þessum fornfræga sögustað. En bak við þessa hugsun frv. virðast vera sterk öfl, því það er nú komið í gegnum Ed., og þar hefir verið lagt til, að Þingvallaprestakall yrði lagt niður, sóknunum tveimur ráðstafað sitt í hvora átt, þ. e. „ríkinu deilt og gefið Persum“. Vitanlega er þetta ekki almennur vilji þeirra söfnuða, sem hlut eiga að máli, því að hjer liggja þegar fyrir þinginu 3 skjöl, er öll mæla á móti niðurlagningunni. 33 kjósendur í safnaðarmálum í Úlfljótsvatnssókn beiðast þess, að Þingvallaprestakall haldist framvegis. Sóknarnefnd sömu sóknar mótmælir niðurlagningu Þingvallaprestakalls, og 45 kjósendur í Þingvallasókn beiðast þess, að Þingvallaprestur haldi brauði sínu óskertu.

Mótmæli þessara aðila eru öll á svipuðum rökum bygð. Finst þeim, að staðurinn muni rýrast við þetta og Þingvellir missa nokkuð af sínum forna veg. Ennfremur telja þeir, að presturinn sje ranglæti beittur. Jeg sje nú, að prestinum eru að vísu ætluð biðlaun samkv. frv., en óneitanlega er vegur þess prests gerður minni, ef prestakallið verður lagt niður. Og þegar þess er gætt, að setja á prestinn á biðlaun, þá verður bersýnilega enginn sparnaður að því.

Annars þykist jeg vita, að þetta frv. muni vera fram komið vegna þess, að Þingvallanefndinni þykir presturinn ósamningalipur og stirður í vöfum, og ætli nú að láta koma krók á móti bragði. En það finst mjer heldur harkaleg og einkennileg aðferð, og trúi því tæplega, að lög standi svo til í landi hjer, að Þingvallanefndin geti ekki komið vilja sínum fram á einhvern annan hátt en að leggja Þingvallaprestakall niður, sjerstaklega þegar tekið er tillit til hátíðahaldanna væntanlegu. Jeg hefi ekki ástæðu til að draga taum nokkurs sjerstaks aðila í þessu máli, en mjer finst það heldur raunaleg ráðstöfun, þegar þjóðin er að búa sig undir 1000 ára afmæli Alþingis, að kippa prestinum þá burtu og leggja Þingvallaprestakall niður. Þingvellir eru sá staður, sem erlendir og innlendir gestir mætast á, til þess að halda hina merku hátíð, og þá á að vera búið að leggja prestakallið þar niður. Þessi tilhugsun finst mjer harla óviðfeldin. Þingvellir eru sá staður, sem kristni var lögtekin á, og þar tók landslýður allur við hinum nýja sið. Eftir að vofað höfðu yfir þjóðinni í fleiri sólarhringa bardagar og blóðsúthellingar út af siðaskiftunum, þá var því lýst yfir, að Lögbergi, að kristni skyldi ríkja í landinu. Á þessum stað ætti því, vegna þeirra minninga, sem við hann eru tengdar, að vera vegleg kirkja og fast prestakall. Jeg hefi ekki heyrt nein nýrri eða betri rök færð fyrir þessu máli nú en í fyrra. Og ekki hefi eg heyrt nein rök, er rjettlæti þessa ráðstöfun frá menningarlegu sjónarmiði.

Hæstv. núverandi forsrh. sagði í fyrra, er þetta frv. kom frá Ed. hingað til Nd., og það rjettilega, að með þessu væri verið að svifta Þingvelli einu minningunni um gamla tímann, sem þar væri sjáanleg. Jeg hygg, að landsmönnum sje það yfirleitt óljúft, að þetta komist í framkvæmd, og jeg fæ ekki skilið, að hæstv. stjórn og Þingvallanefnd geti ekki bjargast af, án þess að grípa til þessa, sem bæði af sögulegum og þjóðlegum ástæðum hlýtur að teljast óyndisúrræði.