13.03.1928
Neðri deild: 46. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í B-deild Alþingistíðinda. (201)

1. mál, fjárlög 1929

Magnús Torfason:

Jeg á eina till. af þessum um 110 brtt., sem fram hafa komið í þetta sinn.

Það er 87. brtt. á þskj. 435, þess efnis, að stj. heimilist, að undangenginni rannsókn af hálfu Búnaðarfjelags Íslands um það, hvort Miklavatnsmýraráveitan hafi orðið að notum fyrir allar þær jarðir, sem skyldaðar eru til að greiða áveitukostnaðinn, að færa niður viðlagasjóðslán það, sem veitt hefir verið til að koma á áveitunni, að rjettri tiltölu á þeim jörðum, sem ekki hafa haft hennar not.

Þetta lán var upphaflega 20 þús. kr., en nú eru eftir af því rúmar 14 þús. kr.

Við mælingar og athuganir á áveitunni, sem fram fóru á árinu 1924 og gerðar voru út af því, að áveitan hafði ekki reynst líkt því eins vel og við var búist í fyrstu, kom það fram, að ýmsir ágallar höfðu verið á stofnun áveitunnar, og er það ekki tiltökumál, þegar þess er gætt, að þessi áveita er sú langfyrsta áveita í stórum stíl, sem gerð er hjer á landi. Því að þessi áveita er svo stór, þótt hún jafnist ekki á við Skeiða- eða Flóaáveituna, að hún mundi vera kölluð stórfyrirtæki í öðrum löndum.

Það hefir oft viljað brenna við hjer á landi, að fyrirtæki fá ekki eins góðan og rækilegan undirbúning og þyrfti, sjerstaklega þau, sem eru brautryðjandi á sínu sviði, og svo var það um þessa áveitu.

Það kom í ljós við þessar mælingar, sem jeg hefi þegar getið, að hallinn á áveitusvæðinu er mun minni en búist var við. Þess hafði ekki verið gætt, þegar áveitan var bygð, að sandur mikill berst í áveitustokkana og verður hallinn við það enn minni. Líka virðist hafa orðið skekkja í hallamælingunum vestast á áveitusvæðinu. Landið er þar á parti mun hærra, og það hefir farið svo, að ekkert vatn hefir náðst á það.

Eins og kunnugt er, hefir áveitan yfirleitt gengið illa, og hafa margar lagfæringar verið gerðar á henni frá því fyrsta. En þeir góðu og mætu menn, sem þarna eiga hlut að máli, hafa nú samt, þrátt fyrir alla þessa annmarka á áveitunni, borgað áveituskattinn eins og fyrir þá hefir verið lagt, enda hefi jeg gengið ríkt eftir, að hann væri greiddur. Og það, að þeir hafa gert það möglunarlítið, kemur af því, að þeir vonuðu fastlega, að það mundi takast um síðir að gera áveituna svo úr garði, að hún kæmi að gagni. En eins og jeg hefi skýrt frá, kom það í ljós við mælingar í hitteðfyrra, að mikill hluti af áveitusvæðinu getur engin not haft af áveitunni. Af skýrslu, sem gerð var um þessar athuganir, sem þá fóru fram, sjest, að það er hjer um bil 1/3 af öllu áveitusvæðinu, sem vatn nær ekki til að gagni. Áveitusvæðið alt var upphaflega áætlað um 2000 ha., en af þessari skýrslu sjest, að það eru rúmlega 1300 ha., sem vatn nær til frá áveitunni. Nú eru menn þarna bundnir fjelagsskap og samþyktum um áveituna og greiðslur til hennar, en þegar þessi vandkvæði komu í ljós á áveitunni, varð það að vandræðum fyrir áveitufjelagið. Þeir, sem ekkert vatn hafa fengið, segjast vera lausir allra mála og geta, eins og skiljanlegt er, ekki greitt neitt fyrir það, sem þeir hafa ekki fengið. En hinir, sem fá vatn, vilja að vonum ekki borga fyrir hina, sem ekkert hafa fengið, því að það er ekki hægt að ætlast til þess af þeim, að þeir fari að borga fyrir syndir annara, en það eru syndir áveituvísindanna, sem þarna er um að ræða. Því er það, að jeg hefi mælst til þess, að ríkið taki þátt í þessari greiðslu, eftir að Búnaðarfjelagið hefir skorið úr um það, hvaða land hefir fengið vatn frá áveitunni og hvað ekki. Og reglan á að vera: Ekkert vatn — engin borgun. Því það nær ekki átt að stofna til slíkra fyrirtækja sem þessara einungis til þess að þyngja hag bænda og fyrirtækin verði þeim til niðurdreps, sjerstaklega þegar þess er gætt, að hjer stendur svo á, að af áveitusvæðinu, sem sjerstaklega verður útundan, er 1/3 allra jarðanna kirkjujarðir og fátt um sjálfseignarbændur.

Til forna var þarna ágætt útræði og höfðu bændur af því miklar tekjur, en eftir að botnvörpungar komu til sögunnar, hefir það lagst niður, svo að menn hafa ekki tekjur af því lengur. Sneru bændur sjer þá að landbúnaði og hafa síðan stundað hann af hinum mesta dugnaði og atorku. Hefir sumum þeirra að vísu tekist að efnast svo á honum, að þeir eru nú a. m. k. miklu betur stæðir en áður, en þó eru margir, sem enn eru mjög fátækir menn. Jeg vænti því, að hv. þdm. líti svo á, að það sje ekki nema rjettmætt, að þeir fái þetta lán fært niður eftir því, hve landið hefir haft mikil eða lítil not af áveitunni.

Það þarf ekki að fara út fyrir fjárlög til þess að finna dæmi þessa. Jeg leyfi mjer aðeins að minna á brimbrjótinn í Bolungarvík. Til hans hefir nú undanfarið verið veitt eitthvað á hverju ári, ýmist bætt við eða þá gefið eftir. Og af hverju? Auðvitað af því, að þingið hefir litið svo á, að þar sem verkið hafi farið svo illa úr hendi hjá þeim, sem áttu að vera milligöngumenn milli landssjóðs og þeirra, sem fyrirtækið áttu að nota, þá bæri ríkinu skylda til að bæta fyrir mistök þeirra, svo að saklausir hreppsbúar sypu ekki seyðið af fákænsku verkfræðinganna og hefðu stórtjón af fyrirtækinu, í stað þess að hafa þess not. Jeg vona, að það verði að minsta kosti enginn bóndi hjer á þingi á móti þessari till.

Þá neyðist jeg til þess að víkja fáeinum orðum að hv. þm. Borgf. (PO) út af brtt., sem hann ber fram út af uppgjöf á Flóavegarláninu.

Jeg verð að segja það, að í þessu máli á jeg afarerfitt með að skilja hugsanaferil hv. þm. (PO), sem jeg þó altaf hefi talið einn af skynsamari mönnum á þessu þingi. Og jeg skil ekki, að þetta geti komið af öðru en því, að frá því að þessi hv. þm. sá þessa till. fyrst, hefir hann gert sjer mjög títt um hana og virðist helst ekki hafa sjeð annað. Í stuttu máli: hann hefir starað á hana eins og naut á nývirki. En það er víst, að annaðhvort hefir hann starblínt nokkuð fast á till., eða hann hefir ekki af öðrum ástæðum getað lesið, eða kannske ekki kært sig um að lesa skýrslu vegamálastjóra rjett. Hv. þm. sagði, að þessi brtt. væri sambærileg við þær brtt., sem snertu eftirgjöf á lánum til Mýra- og Borgarfjarðarsýslu. En það mál snýr alt öðruvísi við, sem jeg skal nú sýna með tölum.

Í skýrslu þessari sjest, að Árnessýsla hefir á árunum 1910–1922, 13 árum, varið til vega alls 164115 kr., en á árunum 1906–1921, 18 árum, hefir Gullbringu- og Kjósarsýsla varið ti1 sama 70400 kr., Rangárvallasýsla 30300 kr., Borgarfjarðarsýsla 23400 kr. og Mýrasýsla 22100 kr. Með öðrum orðum: allar þessar 4 sýslur saman verja ekki líkt því eins miklu fje í þessu skyni og Árnessýsla ein. Þetta ætti þegar að nægja til þess að sýna, að Árnessýsla er ekki sambærileg við aðrar sýslur í þessu efni.

Vegamálastjóri gerir þá líka annan samanburð, sem mundi eiga að draga eitthvað úr, en verður, þegar hann er skoðaður nánar, til þess að auka sanngirniskröfu þessarar till. stjórnarinnar.

Hann reiknar það út, hvað það fje, sem sýslan ver til vega, er mörg % af öllum gjöldum sýslunnar, sýsluvegagjöldum og sýslusjóðsgjöldum til samans. Hann fær út, að Gullbringu- og Kjósarsýsla ver 62%, Rangárvallasýsla 44%, Borgarfjarðarsýsla 48% og Mýrasýsla 56%, en Árnessýsla 65%. Hún verður þar hærri en allar hinar, en þó munar ekki miklu á henni og Gullbringusýslu, sem hefir 62%. En þess ber að gæta, að þessi samanburður er ekki á rjettum rökum bygður, og það er ekki á rökum bygt, að þessi prósenttala ætti að hafa áhrif á eftirgjöfina.

Það getur komið til mála, að það ætti enga þýðingu að hafa hvað eftirgjöfina snertir, hve mikil eru önnur útgjöld sýslunnar en sýsluvegagjaldið, en því hærri sem þau eru, því meiri sem þyngsli sýslunnar eru, því lægra verður auðvitað það brot eða %, sem sýsluvegagjaldið er af öllum útgjöldunum. Og það, að Árnessýsla hefir ekki ennþá hærri prósenttölu, er einmitt vegna þess að hún svarar miklu hærra sýslusjóðsgjaldi en hinar sýslurnar, sem bornar eru saman. Árnessýsla hefir á þessu tímabili greitt í sýslusjóðsgjöld um 270 þús. kr., Gullbringusýsla 115 þús. kr., Rangárvallasýsla 70 þús. kr. og Borgarfjarðarsýsla raðan af minna. Enn kemur það fram, að Árnessýsla er langhæst. Allar þessar sýslur hafa ekki varið jafnmiklu til sýslusjóðsgjalda og hún ein.

Hún hefir kúgað sig um framlög til vega, en á þó engan bílfæran sýsluveg sæmilegan enn þann dag í dag, og er það vegna þess, að alt það fje, sem fram hefir verið lagt til vega, hefir farið til viðhalds þeirra landsvega, sem þar eru. Ennfremur er þess að gæta, að þessi skuld er hreint valdboð, og stendur því öðruvísi á með hana en aðrar skuldir.

Jeg er ekki í neinum vafa um það, að það, að sýslunni var gert þetta að skyldu, varð til þess, að þessu gjaldi til viðhalds þjóðbrautum var ljett af 3 árum seinna. Hún ein af öllum sýslum landsins var kúguð til viðhalds veganna, og það einmitt á þeim tíma, þegar dýrtíðin var mest. Það er því óhrakið, og að jeg hygg óhrekjanlegt, að Árnessýsla er að þessu leyti ekki sambærileg við neina sýslu nema Rangárvallasýslu að nokkru, enda hefi jeg þegar sagt það áður, að Rangárvallasýsla á mikla sanngirniskröfu um eftirgjöf á miklum hluta sinnar vegaskuldar. (PO: Hv. þm. (MT) greiddi þó atkv. á móti henni). Hún var of há, en síðan hefir tillagan verið færð niður, og því greiði jeg atkvæði með henni.

Þegar þetta alt er athugað, verður ekki hægt að leggja mikla áherslu á það, sem vegamálastjóri segir um þetta mál. Það er líka alveg óhætt að treysta því, að fjmrh. landsins hefði ekki tekið upp þennan lið, ef krafan væri ekki sanngjörn. Það er víst, að honum er ekki um eftirgjafir og mundi ekki hafa tekið hana upp nema hún ætti fyllsta rjett á sjer. En það er rjett eins og hv. þm. Borgf. vilji gera vegamálastjóra að einhverskonar yfirfjármálaráðherra hjer í landi. En því fer mjög fjarri, að honum komi nokkuð við, hve miklu fje þingið ver til vega o. þvíl. Hann á aðeins að sjá um, að því fje, sem veitt er, sje vel varið til framkvæmda. En hann er vissulega engin fjárveitingaforsjón. Því er heldur ekki að leyna, að tillögur hans í þessu máli eru talsvert fáránlegar. Hann hefir hætt sjer út á þann hála ís, sem hann hefði ekki átt að fara út á. Hann hefir sem sje lagt það til, að farið verði að setja reglur um Flóaáveituna hjer í þessum fjárlögum. Þetta nær vitanlega engri átt. Hann, átelur samþykt þá, sem sýslufundurinn gerði um veg yfir Flóann. En það kemur ekki öðrum við en sýslunefndinni og þeim, sem að Flóaáveitunni standa. Og þetta var samþ. með hverju einasta atkv. í sýslunefndinni, þar á meðal sýslunefndarmannsins úr Flóanum. Það eina, sem menn e. t. v. geta fundið að þessari tillögu, er, að það er gert að skilyrði, að vegurinn sje „púkkaður“. En það ætti nú ekki að vera dauðasynd hjá okkur, sem vitum, hvað það er að fá vonda vegi og eiga að halda þeim við, þó að okkur detti í hug að fara fram á að fá „púkkaða“ vegi. Þessu skilyrði verður heldur ekki haldið til streitu, ekki af því, að ósanngjarnt sje að „púkka“ veginn, heldur af hví, að vegamálastjóri telur það ekki gerlegt fyr en eftir mörg ár, vegna þess, að vegurinn þarf að síga áður; eins og gerist um mýrarvegi. En þetta ætti að sýna hv. þd., hve mikla erfiðleika Árnesingar eiga við að stríða í vegagerð. Ofaníburðinn vantar algerlega, og hefir jafnvel verið talað um að breyta stefnu vegarins vegna þess. En háttv. deild ætti að sjá, að ekki þarf að sletta sjer fram í skifti sýslunefndar Árnessýslu og Flóaáveitunefndarinnar, þegar af því, að þeim hefir ávalt komið vel saman. Vegamálastjóra mun þykja upphæðin lítil. Og það er satt, að hún er það. En við treystum okkur ekki til að leggja fram meira að svo stöddu. En jeg get lýst því yfir, að Árnesingar munu á næstunni gera sjer sýsluvegasamþykt. Með öðru móti fáum við ekki borið þær álögur, sem Flóavegirnir leggja á okkur.