27.03.1928
Sameinað þing: 6. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í D-deild Alþingistíðinda. (2020)

119. mál, landsspítali

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg býst við því, að engum þurfi að koma það á óvart, þótt jeg kveðji mjer hjer hljóðs í þessu máli. Við hv. þm. Snæf. (HSteins) og hv. 6. landsk. (JKr) bárum í fyrra fram í Ed. þáltill. svipaðs efnis, og erum við vitanlega mjög þakklát hv. flm. fyrir það, að þeir hafa nú tekið upp þetta mál að nýju.

Þessi þáltill. var borin fram þ. 20. febr. síðastl., en ekki tekin á dagskrá fyr en 19. mars, og nú fyrst, þ. 27. mars að kvöldi, er hún tekin til umræðu.

Jeg er sammála hv. flm. (HjV) um alt það, sem hann sagði till. til stuðnings. Á hverju þingi undanfarið hefi jeg tekið þetta fram, og kanske betur en hægt er að gera í svo stuttri ræðu. En jeg held, að hv. flm. (HjV) hafi gert það svo nægilega vel, að jeg geti látið það nægja að þessu sinni. En mjer þykir hlýða að lesa upp kafla úr brjefi frá nefnd þeirri, sem á að sjá um þetta mál og jeg hefi þann heiður að eiga sæti í. Jeg býst við, að hæstv. stj. hafi verið sent þetta brjef af formanni hennar, próf. Guðm. Hannessyni. Þar er gerð grein fyrir, hvernig nefndin álítur hagkvæmast að koma upp þessari byggingu fyrir 1930, þegar hún samkvæmt samningi við stjórn landsspítalasjóðsins á að vera fullgerð.

Jeg ætla þá að leyfa mjer að lesa upp nokkrar tölur, sem jeg tel nauðsynlegt að komi fram.

Þann 21. nóv. 1927 var fjárhagur landsspítalans þannig:

Búið að borga til byggingarinnar.. .. .. kr. 500,000,00

Óunnið .. .. .. .. .. — 700,000,00

Samtals kr. 1200,000,00

Áætlun frá 27/4 1926 var — 1360,000,00

Eftir því sem jeg kemst næst, þá liggur þessi mismunur aðallega í lækkuðu kaupi og lækkun á verði byggingarefna. Öll útboð til verksins hafa orðið lægri en áætlað var, og má telja það kost. Þegar áætlunin var gerð 1926, var gert ráð fyrir, að alt verkið mundi kosta um 1360 þús. kr., og þá var gert ráð fyrir, að þessi kostnaður fjelli á ár hvert:

1928 .................... kr. 344,000,00

1929 ……….. — 234,000,00

1930 (Þar af innan

stokksmunir kr.

170,000,00) …… — 292,000,00

Samtals kr. 870,000,00

Þann 16. mars 1928 var stjórninni skrifað þetta yfirlit:

Greitt úr landaspítalasjóð1

Greitt úr ríkissjóði

1925

kr. 50,000,00

— „—

1926

— 139,000,00

155,000,00

1927

— 86,000,00

75,000,00

Samtals kr. 275,000,00

230,000,00

Alls kr. 505,000,00

1928 eru til umráða

— 25.000,00

120,000,00

. — — 145,000,00

Samtals kr. 300,000,00

350,000,00 — — 650,000,00

Ef aðalbyggingunni á að verða lokið 1930, þótt starfsmannahúsi sje slept, eru þarfir yfirstandandi árs þessar:

Sljettun innveggja . . . .

kr. 185,800,00

Hurðir .. .. .. .. ..

— 24,000,00

Hitaveita (pípur og ofnar) .. . . . . . . . .

— 50,000,00

Veggflísar .. .. .. ..

— 20,000,00

Samtals kr. 279,800,00

Handbært fje .. .. .. -

– 145,000,00

Mismunur kr. 134,800,00

Sú upphæð er það fje, sem þarf að fá að láni á þessu ári.

Jeg hefi þá lesið upp útdrátt úr þessu brjefi nefndarinnar, og jeg vona, að hv. þm. hafi skilið þýðingu þessara talna.

En úr því að jeg er staðin upp á annað borð, þá er óhjákvæmilegt að minnast á aðalatriði þessa máls, og það er samningurinn, sem gerður var af hæstv. ríkisstjórn f. h. Alþingis við stjórn landsspítalasjóðsins, og er dags. 24. apríl 1925. Þar eru m. a. sett tvö skilyrði fyrir fjárframlagi landsspítalasjóðsins. Það fyrra er, að ríkissjóður leggi fram að minsta kosti kr. 200,000,00 á ári, og það seinna að spítalinn verði fullbúinn 1930. Jeg vil undirstrika þessi tvö atriði, því að ef þeim er báðum fullnægt, þá er alt í góðu lagi. En eins og sjá má af fjárlagafrv. stjórnarinnar, sem fyrir þessu þingi liggur, þá á nú þegar að fara að rifta þessum samningi, því að þar er einungis gert ráð fyrir 100 þús. kr. framlagi í stað 200 þús.

Þetta hefir að vísu fengið einhverja leiðrjettingu í hv. Nd., en á því er þó ekki full bót ráðin enn sem komið er. Hv. flm. (HjV) tók það rjettilega fram, að þótt veittar væru kr. 200,000,00 á ári, þá gæti spítalinn samt ekki verið fullgerður á tilsettum tíma, og þar með yrði annað höfuðskilyrði samningsins rofið. En ef þessi skilyrði verða rofin af ríkissjóði, þá getur hinn málsaðilinn fengið hann dæmdan, að viðlögðum dagsektum, til þess að leggja fram hina umsömdu upphæð, eða að öðrum kosti að endurgreiða það fje, sem Landsspítasjóður Íslands hefir lagt til byggingarinnar, ásamt vöxtum. Jeg geri ekki ráð fyrir, að til þessa komi, en jeg vil taka það fram hjer, að skyldi svo fara, að samningsrof yrðu, þá mundum vjer konur, sem að þessu stöndum, sennilega leita úrskurðar dómstólanna um þessi mál. Að minsta kosti vil jeg nota þetta tækifæri til þess að lýsa yfir því, að jeg geymi mjer fullan rjett til þess. Vona jeg þó, að enginn þurfi að skilja þetta sem neina hótun. (LH: Það er ómögulegt að skilja þetta öðruvísi en sem hótun). Ef annar aðilinn brýtur samning, þá eru það samningsrof, og má engan undra, þótt jeg geymi mjer rjett til þess að fá samningnum fullnægt.

Verði þessi þáltill. samþ., þá er alt gott og blessað, svo framarlega sem hæstv. stj. sjer sjer fært að leggja fram það fje, sem þarf.

Jeg skal taka undir það með hv. flm. (HjV), að þetta mál hefir átt því láni að fagna að vera ekki flokksmál, og get jeg nefnt marga menn í andstæðingaflokkum mínum, t. d. bæði hæstv. fjmrh. (MK) og hæstv. dómsmrh. (JJ), sem ætíð, þegar málið hefir komið fyrir hv. Ed., hefir sýnt því mikinn skilning og velvild. Jeg vona því, að það sje rjett hjá okkur hv. flm. (HjV), að þetta mál eigi ætíð að standa fyrir utan öll stjórnmál, og því muni enginn kritur verða um það.

Það heyrist oft, að ýms stórmál, sem varða velferð lands og lýðs, eru af flutningsmönnum og öðrum, sem sjerstaklega er ant um þau, kölluð „mál málanna“, og er þá nokkuð eðlilegra en að jeg kalli þetta mál, sem oss konum hefir verið og er hjartfólgnast allra mála — kalli það mál málanna? Mjer er spurn: Treystir nokkur hv. þm., sem hjer er viðstaddur, sjer til að reikna það út, hvað mannslífin kosta, hverjar afleiðingar það hefir að taka mann, sem er banvænn, af spítala, til þess að koma þangað manni, sem er enn þá banvænni?

Jeg vil þess vegna leyfa mjer að skora á alla hv. þm., sem hjer eru staddir, að þeir styðji að því, að þetta mál, sem jeg kalla „mál málanna“, fái rjetta úrlausn nú, svo að það geti staðið sem merki um skilning þeirra á rjetti einstaklinganna, því að þetta er mál, sem allir eiga að njóta góðs af. Jeg skal svo ekki orðlenga þetta, enda býst jeg ekki við, að langar ræður breyti afstöðu manna hjer.