29.03.1928
Neðri deild: 60. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í D-deild Alþingistíðinda. (2038)

94. mál, frystihús og bygging nýs kæliskips

Hannes Jónsson *):

Þessi þáltill., sem hjer um ræðir, er í tveim liðum. Býst jeg við, að jeg þurfi ekki að vera margorður um fyrri lið hennar. Hæstv. fors.- og atvmrh. (TrÞ) hefir þegar skýrt frá, að gerðar hafi verið ráðstafanir til að útvega lán til frystihúsa, í þeim mæli, sem þáltill. fer fram á. Komin er fram brtt. við fjárlögin í Ed. um, að upphæð þessi verði hækkun upp í 250 þús. kr.

Um seinni liðinn vil jeg taka það fram, að jeg tel ekki mikla þörf á nýju kæliskipi, eins og sakir standa. Fyrst og fremst má geta þess, að útflutt kjöt nemur eigi meiru en ca. 200 þús. skrokkum á ári hverju. Einn fjórði hluti þessa kjöts er kjöt af ám og rýrum dilkum og ekki hæft til frystingar. Þetta er bygt á 3–4 ára reynslu hjeraða, þar sem fje er þó í vænna lagi. Vil jeg því ganga út frá því, að 150 þús. skrokkar kæmu til greina. En þótt reist væri frystihús alstaðar þar, sem heppilegt þætti, myndi aldrei verða meira flutt út af frystu kjöti en 110–120 þús. þús. skrokkar. 30–40 þús. skrokkar gengju altaf frá. Nú höfum við Brúarfoss, sem getur tekið 30–40 þús. skrokka í hverri ferð og gæti því flutt næstum alt kjötið í þrem ferðum.

Síðastliðið ár voru fluttir út 25,242. skrokkar, 16,362 í fyrri ferðinni og 8880 í hinni seinni. (ÓTh: Var það alt fryst?). Já, það var alt fryst. Verður því ekki annað sagt en að útflutningur þessi sje kominn á nokkurn rekspöl. Og jeg get sannfært hv. flm. báða um það, að fjelagsskapur sá, er stendur á bak við þennan útflutning, mun halda honum í horfi, svo sem skynsamlegast þykir.

Meðan frosna kjötið er að vinna sjer markað, verður að fara varlega og gæta þess, að eigi sje flutt út annað en fyrsta flokks kjöt. Ella gæti komist óorð á kjötið í Englandi þegar í upphafi, en slíkt verður að forðast. Þessi byrjun, sem þegar hefir verið gerð, hlýtur að draga úr saltkjötsmagni á erlendum markaði og um leið hækka verð þeirrar vöru.

Í erindi því, sem Eimskipafjelagið sendi Alþingi um ívilnun á skatti var það talin ein aðalástæðan, að Brúarfoss bæri sig ekki vegna þess, að hann hefði of lítið að flytja. Þótt hann tæki kjötið í tveim ferðum, eins og undanfarið, mætti altaf þrefalda þann útflutning á frosnu kjöti, er var á síðastliðnu ári. Jeg vil ennfremur benda á það, að ef við ætlum okkur að hafa framtíðarmarkað í útlöndum, er óhjákvæmilegt, að við getum geymt kjötið hjer og sent það til Englands seinni part vetrar, eftir þörfum, en demba því ekki öllu á haustmarkaðinn, þegar nýtt kjöt er fyrir í Englandi. Að vísu er rjett að flytja ríflega út í byrjun haustkauptíðar, en verð á því kjöti, er kemur nokkru seinna, með næstu ferð, verður ávalt lægra. Jeg vil því slá því föstu, að ef frystihúsum verður fjölgað hjer, eins og vænta má, þá sje sú aðferð upp tekin að geyma kjötið fram á vetur. Þetta er eigi erfitt hjer á landi, og hverfandi kostnaður við geymslu í frystihúsi, miðað við annan kostnað. Hitt er víst, að ef bygt yrði nýtt kæliskip á stærð við Brúarfoss, hefði það för með sjer 100 þús. kr. útgjöld fyrir ríkissjóð og auk þess árlegan rekstrarhalla fyrir Eimskipafjelagið.

Um nauðsyn á byggingu þessa skips fyrir sjávarútveginn skal jeg ekki dæma. Því að þar brestur mig kunnugleik. En fulltrúar hans hafa áður lýst yfir því, að þeir teldu þetta ekki leiða til beinna hagsbóta fyrir sjávarútveginn, en gæti hinsvegar leitt til þess að halda Norðmönnum í skefjum.

Út af ummælum hv. 2. flm. (ÓTh) skal jeg taka það fram, að brátt fyrir gamla trú á frystu kjöti tel jeg engan veginn hyggilegt að frysta alt kjöt okkar. Þegar verulegur hluti kjötsins er frystur, hækkar verðið á saltkjöti. Tilboð í saltkjöt komu óvenjulega seint fram á síðasta ári, vegna þess, að þeir vildu sjá, hve mikið Íslendingar flyttu út af frosnu kjöti. Þegar mikið er flutt út af því, verða. Norðmenn hræddir um að fá ekki nægju sína af saltkjöti, og hefir það auðvitað verðhækkun í för með sjer, og þeirri verðhækkun væri auðvitað ekki hyggilegt að hafna. Því að meðan frosna kjötið er að vinna sjer álit í Englandi, eru vandkvæði á að fá sama verð fyrir frosið kjöt og saltkjöt.

Jeg hygg það affarasælast að þreifa sig áfram og láta reynsluna ráða, en taka ekki stór stökk í einu. En þegar komin eru upp frystihús, sem geta tekið mestan hluta kjötsins til geymslu, og það er aðgætt, að Brúarfoss getur tekið alt kjötið í fjórum ferðum, þá er engin hætta á ferðum, þótt í odda skerist milli Íslendinga og Norðmanna út af fiskveiðalöggjöfinni.

Jeg þykist þá hafa fært rök að því, að eigi sje ástæða til að ráðast í þann kostnað, sem leiðir af byggingu og rekstri nýs kæliskips. Mjer finst þessi till. koma nokkuð í bága við framkomu hv. flm. í strandferðaskipsmálinu. Hjer er ekki nauðsyn fyrir hendi, en árlegur rekstrarhalli yrði þó engu minni en á væntanlegu strandferðaskipi. Ef þetta skip væri á stærð við Brúarfoss, gætu bæði skipin tekið alt kjötið í tveim ferðum, og hvaða vit væri í slíkri tilhögun? Mjer heyrðist hv. 2. flm. (ÓTh) segja að frystihús væru til fyrir 90 þús. skrokka. (ÓTh: Og umsóknir liggja fyrir um lán til að byggja meira). Ef svo er, verða bráðlega næg frystihús fyrir alt kjöt, sem ætlað er til útflutnings. Ef tvö kæliskip væru í förum, þyrfti ekki að byggja fleiri frystihús. En jeg tel heppilegra að öllu leyti að hafa ekki nema eitt skip, bæta við frystihúsum og flytja kjötið á markaðinn með hæfilegu millibili. Vil jeg því mælast til, að hv. flm. taki till. sína aftur, því að hún er þýðingarlaus og að sumu leyti skaðleg.

(* Ræðuhandr. óyfirlesið.)