29.03.1928
Neðri deild: 60. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í D-deild Alþingistíðinda. (2043)

94. mál, frystihús og bygging nýs kæliskips

Flm. (Magnús Guðmundsson):

Hv. þm. V.-Húnv. (HJ) sagði, að saltkjöt væri stundum jafndýrt í Noregi og nýtt kjöt. Það mun vera rjett, að þess finnast dæmi, en það er hrein undantekning, og við getum ekki sniðið okkar framferði eftir þeim undantekningum. Og þetta mál er einmitt komið af stað fyrir það, hversu mikill munur hefir verið oft og tíðum á nýju kjöti og saltkjöti, meðal annars í Noregi, en sjerstaklega söltuðu í Noregi og nýju í Englandi. Hitt játa jeg, að slík undantekning um verðlag, sem hv. þm. gat um, hefir komið fyrir, og mun hafa verið haustið 1925.

Hv. þm. sagði, að saltkjötið ætti að fara til Noregs. Já, það á að fara til Noregs, ef Norðmenn gefa vel fyrir það. Við þurfum og eigum að geta flutt kjötið þangað, sem hæst verð fæst. Það er ekki verið að tala um, að engin tunna megi fara til Noregs, en það er auðsætt, að þangað ættum við að flytja minna en hingað til. Jeg hefi ekki trú á, að enski markaðurinn verði offullur af okkar kjöti, jeg held, að þess gæti svo ákaflega lítið. Og þegar við getum ekki slátrað nema á haustin, er ekki nema tvent til, annaðhvort nægileg geymsla í frystihúsum eða hitt, að útvega sjer kæliskip. Ef Eimskipafjelagið tapar, þá kemur það að vísu sennilega að nokkru niður á ríkissjóði, en jeg verð að líta svo á, að Eimskipafjelagið sjái um sig og reyni að hafa vaðið fyrir neðan sig.

Hv. þm. V.-Húnv. (HJ) spurði mig, hvort mjer væri ekki kunnugt um skoðun Eimskipafjelagsins. Jeg hefi einu sinni í samtali við framkvæmdarstjóra Eimskipafjelagsins minst á þetta, og þó að það fengi lítinn byr hjá honum, kalla jeg það ekki skoðun Eimskipafjelagsins. Af því að jeg var viðriðinn samninga út af „Brúarfossi“, er mjer kunnugt um það, að framkvæmdarstjóri var ekki fús til þeirra samninga. Við stjórn fjelagsins hefi jeg ekkert um þetta rætt.

Hv. þm. sagði, að Eimskipafjelagið hefði ekki nægilegt flutningsmagn í sín skip. Það þykir mjer undarlegt, þar sem fjelagið hefir á síðastliðnu ári keypt skip af landsstjórninni. Og þar sem þetta fjelag er að ná meiri og meiri tökum á flutningum hingað til lands, meðal annars með ferðum til Hamborgar, þá get jeg ímyndað mjer, að ekki líði á löngu þangað til þarf að bæta við nýju skipi. Því að þessar ferðir til Hamborgar hafa valdið miklum flutningum frá Þýskalandi. Áður hefir verið siður að flytja vörurnar fyrst frá Hamborg til Kaupmannahafnar, en er nú að leggjast niður.

Mjer er alómögulegt að sjá, að fólk úti um land sje dregið á tálar með þessari till. Hjer er um ekkert annað að ræða en að leita samninga við Eimskipafjelagið, og komi það upp, að það sje ófúst með öllu, nær það ekki lengra. En mjer er kunnugt, að Eimskipafjelagið tók slíkri málaleitun, að því er snerti „Brúarfoss“, mjög fjarri í byrjun.

Mjer virðist hv. þm. ganga lengra í sinni síðari ræðu en þeirri fyrri, og virtist mjer hann mæla á móti till. Vildi jeg mælast til, að hann gerði það ekki; því að hann verður vissulega að vorkenna þeim hjeruðum, sem ekki eiga annars úrkostar en salta kjötið; það er munur fyrir þá, sem geta notið Reykjavíkurmarkaðs, eða fyrir hans hjerað, sem er þegar búið að fá frystihús. Það er ágætt að fá fræðslu hjá honum, sem hefir manna mest kynni af slíkum frystihúsum, en hann má aðeins ekki nota sína þekkingu til þess að spilla fyrir öðrum hjeruðum, enda vona jeg, að það hafi ekki verið hans tilgangur. Jeg veit það, að bæði í Austur-Húnavatnssýslu og Skagafirði er hinn mesti áhugi vaknaður fyrir þessum málum, og jeg er sannfærður um, að sá áhugi verður ekki stöðvaður. Og jeg verð að telja það illa farið, ef ekki er hægt að koma því í kring, að þessi hjeruð geti komið sem allra fyrst upp frystihúsum, jafnvel fyrir næsta haust. Þetta eru hjeruð, sem geta ekki notað neinn annan markað fyrir sína aðalframleiðsluvöru heldur en norska saltkjötsmarkaðinn.