11.04.1928
Sameinað þing: 7. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í D-deild Alþingistíðinda. (2096)

161. mál, gildi íslenskra peninga

Flm. (Halldór Stefánsson):

Jeg skal vera mjög stuttorður um þessa till. og býst ekki við að æfa tilefni til langra umræðna.

Það mun þykja seint fram komið hvað við festingarmenn leggjum til að gert verði í þessu máli. Það hefir of verið um það spurt, hvað við festingarmenn og stj. ætlum að gera. Því er svarað með þessari till. Þeir hafa verið óþolinmóðir, hækkunarmennirnir, að fá að vita þetta, en hafa ekki gætt þess, hvað aðstæðurnar eru breyttar frá því, sem áður var. Áður sat stj. við völd, sem hafði lýst yfir því, að hún væri fylgjandi hækkun, þegar ástæður leyfðu, og því var eðlilegt að við festingarmenn værum órólegir og gerðum alt, sem hægt var, til þess að hamla hækkun, en fá ákveðna festinguna, þar sem við litum svo á, að þetta væri stórkostlegt hagsmunamál fyrir þjóðina. Nú situr festingarstjórn við völd, sem hefir málið og öll málsatriði í hendi sinni, svo að ekki er ástæða til að taka málið öðruvísi en rólega. Eigi að síður er sjálfsagt að fara að vinna að því að leysa þetta mál endanlega, og að því lýtur þessi till.

Jeg mun takmarka mál mitt við till., en ekki fara út í almennar hugleiðingar um hækkun og festingu, enda hefir það oft legið fyrir þinginu og er orðið þrautrætt á því, og meira að segja úti um alt land. Jeg hygg, að meiri hluti þjóðarinnar hafi fallist á festingarstefnuna. Það eru ekki einungis Framsóknarmenn, sem hafa einróma hneigst til þessarar skoðunar, heldur einnig margir aðrir, bæði úr Íhalds- og Jafnaðarmannaflokkunum, að minsta kosti þar sem jeg þekki til. Almenningur er búinn að átta sig á því, að hækkun krónunnar upp í gullgildi er okkur ofurefli. Hann hefir fundið það og finnur enn á, afleiðingum þeim, sem af hækkuninni stafaði undanfarin ár, því að verðlagið var ekki og er ekki í samræmi við verðgildi peninganna. Þetta á sjerstaklega við um innlendar vörur, hví að erlendar vörur laga sig tiltölulega fljótt eftir breytingum á gildi peninganna.

Till. okkar segir frá því á einfaldan hátt hvernig við ætlumst til að málið verði rannsakað til undirbúnings. Við ætlumst til að stj. styðjist fyrst og fremst við gengisnefndina í rannsókn málsins og þeim undirbúningi, sem gera þarf. Það eru aðallega tvær leiðir, sem hægt er að fara í þessu festingarmáli. Önnur er sú að stýfa myntina við núverandi gildi. Er það tiltölulega einfalt. Hin leiðin er sú, að stýfa kröfurnar við það gildi, sem þær nú hafa, og sömuleiðis núverandi seðla, en taka svo upp nýja seðla gullgilda. Jeg leyfi mjer að benda á þessar leiðir, án þess að jeg telji það nokkurt aðalatriði. hvor þeirra er farin, því að útkoman er sú sama af þeim báðum. Um síðari leiðina vil ieg þó segja það, að mjer þykir viðfeldnara og viðkunnanlegra að hafa peningagildið eins og það hefir verið og er í hugum manna, auk þess sem það hefir þá þýðingu, að við getum haldið myntsambandinu norræna. Því að þeirra peningar eru komnir, að kalla má, í fult gildi, og má ætla, að þeir setji þá í gullgildi.

Jeg býst ekki við, að till. þurfi að mæta verulegri eða harðri andstöðu frá hækkunarmönnunum. Hjer er ekki farið fram á að slá neinu föstu, heldur aðeins að fá þetta undirbúið, svo að síðar verði hægt að taka ákvörðun um það, hvort festa skuli eða ekki.