14.03.1928
Neðri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í B-deild Alþingistíðinda. (210)

1. mál, fjárlög 1929

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það er að vísu tilgangslítið í svo löngum umræðum, sem hjer eru orðnar, og sem háttv. þm. eru orðnir þreyttir að sitja undir, að fara að tala með eða móti brtt. alment, enda ætla jeg mjer ekki að gera það, en jeg vil aðeins minnast örfáum orðum á þær brtt., er jeg á hjer. Jafnframt vil jeg minna hv. þm. á það, að þær brtt., sem fram hafa komið við fjárlagafrv., eru bæði margar og stórar, og jeg vonast til, að þeir geri sjer glögga grein fyrir því, til hvaða vandræða það muni leiða, ef þær verða allar eða flestar samþyktar.

Mínar brtt. eru þrjár á þskj. 435, LVII, og má segja það sama um þær allar, að þær eru sjálfsagðar. Þær hljóða um fjárveitingu til búfjártryggingarsjóðs Íslands, til byggingar- og landnámssjóðs og til útgjalda vegna ráðstafana um tilbúinn áburð. Þessi löggjöf hefir nú þegar verið samþykt í Ed. og landbn. Nd. leggur til, að þessi frv. verði samþ., svo telja má víst, að þau nái fram að ganga. Verði nú þessi löggjöf samþ., þá hlýtur það að leiða til aukinna útgjalda, sem rjett er, að tekin sjeu upp í fjárlögin, og er það þá ekki annað en að svíkja sjálfan sig, ef ekki er strax ætlað fje til þeirra hluta. Um 2 fyrri liðina er það að segja, að þær upphæðir eru báðar ákveðnar í þeim lögum, sem þar að lúta, en 3. liður er aðeins bygður á áætlun, og hygg jeg, að tæplega verði hægt að áætla það nákvæmlega. Vona jeg, að allir telji sjálfsagt, að þessar upphæðir sjeu settar í fjárlögin.

Þá á jeg 4 brtt. á þskj. 460. En hvað þá fyrstu snertir, þá var búið að ræða fyrri kafla fjárlagafrv., þegar henni var útbýtt, og því tel jeg rjett að taka hana aftur. Hinar 3 eru brtt. við brtt. á þskj. 435. Hvað þá fyrstu af þessum þremur snertir, er það að segja, að fjvn. hefir í lið þeim, er hún ætlar til flugferða, komist svo að orði, að þetta fje skuli ganga til flugnáms. En ef þetta verður ákveðið svo eins og í brtt. fjvn. stendur, þá þykist stjórnin ekki hafa nógu frjálsar hendur, því þá má ekki verja fjenu til annars en flugnáms, og þess vegna hefi jeg borið fram þessa brtt. En svo stendur á, að í sumar koma hingað, að öllum líkindum, menn frá Þýskalandi til að undirbúa hjer flug, og þarf þá stjórnin líklega á einhverju fje að halda í því sambandi. Það er þess vegna, sem jeg hefi farið fram á, að orðalaginu væri breytt, svo að stjórnin hefði frjálsari hendur til að ráðstafa þessu fje.

Þriðja brtt. mín fjallar um styrkinn til Slysavarnafjelags Íslands. Mjer finst rjettara að orða þetta svo, að þessi upphæð verði veitt til slysavarna. Ef orðalagið er eins og í brtt. fjvn., þá er stjórnin skyldug að greiða þessu fjelagi þessa upphæð. En jeg álít heppilegra, að stjórnin hafi þessi mál í sinni hendi, því þó engin ástæða sje til að vantreysta þessu fjelagi, þá er það þó alveg óreynt og óvíst enn sem komið er, hversu athafnamikið það verður.

Síðasta brtt. mín á þskj. 460 er við brtt. nr. XCIII á þskj. 435, frá hv. þm. Ísaf. (HG). Hann hefir nú þegar talað svo vel fyrir till. sinni og skýrt hana svo rækilega, að þess gerist ekki frekar þörf. Og jeg get tekið undir þau orð hæstv. fjmrh., að þetta er mjög merkilegt mál, og frá mínum bæjardyrum sjeð, þá ber ríkinu rík skylda til þess að styðja þetta fyrirtæki. Við Ísafjarðardjúp búa menn, sem eru mjög duglegir til sjósóknar, og þess vegna er þarna ágætur staður til þess að fara á stað með tilraun til fiskiveiða á þeim grundvelli, sem hjer um ræðir. Þetta skipulag hefir nú undanfarandi ár verið notað í ýmsum sveitum landsins og gefist mætavel. Og þó að það hafi að vísu verið á nokkuð öðru sviði, þá tel jeg sjálfsagt að gera tilraun með þetta hvað sjávarútveginn snertir, því jeg tel allar líkur til þess, að það geti líka gefist vel þar. Reynsla undanfarandi ára hefir líka sýnt, að það skipulag, sem nú er á útgerðinni, hefir ekki gefist vel, því það mun óhætt að fullyrða það, að á síðustu 10–15 árum hafi lánsstofnanirnar tapað alt að eða yfir 20 milj. kr., og tiltölulega miklu af því á stórútgerðinni. Það virðist því sjálfsagt að gera tilraun með það að reka útgerðina á öðrum grundvelli. Og þegar ekki er hætt meiri fjárhæð en hjer ræðir um, lít jeg svo á, að það sje skylda stj. að styðja slíka tilraun.

Það hafa komið fram í blöðum þeim, er andstæðingar stj. standa að, ummæli, er hafa miðað í þá átt að gera þetta tortryggilegt, en slíkt er svo alvanalegt úr þeirri átt, að ekki verður tekið tillit til þess. Og hv. þm. Ísaf. vil jeg segja það, að okkur, sem erum samvinnumenn, þykir vænt um þessa till. hans. Og það er vegna þess, að með henni hafa þeir jafnaðarmennirnir, sem þó annars vilja koma á ríkisrekstri, viðurkent, að það skipulag, sem við berjumst fyrir, samvinnustefnan, er gott og til farsældar fyrir þjóðina. Þess vegna tek jeg vel undir þessa till. hv. þm.

Brtt. fer fram á að breyta 2 atriðum í till. hv. þm. Ísaf. Í fyrra lagi, að Ísafjarðarkaupstaður ábyrgist á undan ríkissjóði, eins og venja er til um hliðstæð lán, en ekki að kaupstaðurinn ábyrgist ásamt ríkissjóði. Og í öðru lagi, að stj. geti haft hönd í bagga með því, hverjir verði stjórnendur þessa fjelagsskapar, þannig að hún samþykki forstöðumann fjelagsins og annan endurskoðandann. Mjer finst nefnilega rjett, þegar nýju fjelagi er fengið svo mikið fje til umráða, að stjórnin geti haft eftirlit með því, hvernig því er varið. Jeg skal svo ekki ræða þetta frekar, en get tekið undir það með hæstv. fjmrh., að jeg hygg, að hjer sje um mjög merkilegt mál að ræða, mál, sem getur orðið til mikillar farsældar fyrir sjómannastjett þessa lands.