11.04.1928
Sameinað þing: 7. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í D-deild Alþingistíðinda. (2107)

98. mál, ríkisforlag

Magnús Jónsson:

Jeg álít, að þetta sje tiltölulega meinlaus tillaga. Mjer dettur í hug húsbóndinn, sem sagði: „Má jeg ekki bjóða yður brauðsneið?“, og þegar gesturinn sagði „nei, takk“, sagði húsbóndinn: „Skárra er það, að mega ekki bjóða á sínu eigin heimili“. Eins mætti segja um þessa tillögu. Það væri skárra, ef mentamálaráð mætti ekki rannsaka þetta mál. En jeg get því miður ekki fylgt ráðleggingu hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) um að bíða þangað til þeirri rannsókn er lokið. Jeg verð að játa, að jeg er mótfallinn þessari hugmynd, um ríkisforlag, frá byrjun. Jeg hefi lesið alt, sem um þetta mál hefir verið skrifað, og sjerstaklega hina snildarlega skrifuðu grein Kristjáns Albertssonar í „Vöku“. Jeg efast mjög um, að færðar verði betri eða snjallari ástæður fyrir þessu máli en hann gerði þar. Og þó er svo fjarri því, að þær ástæður sannfærðu mig, að þær opnuðu þvert á móti augu mín fyrir því, hve þetta er ófær leið.

Jeg er hv. flm. sammála um, að það þarf að stuðla að því, að góðar íslenskar bækur og vandaðar þýðingar á erlendum ágætisritum komist inn á sem flest heimili á landinu. Jeg get fullkomlega skrifað undir alt, sem hv. flm. (ÁÁ) sagði um nytsemi góðra bóka. En jeg er hræddur um, að ríkisforlag yrði einmitt til þess að standa í vegi fyrir þeirri nytsemi. Hv. flm. gat um ýmsar ágætar bækur, sem ekki væru fáanlegar. Jeg verð að segja, að mjer er ekki ljóst, hvað hann átti við. Átti hann við það, að bækurnar fengjust ekki gefnar út, eða að þær væru uppseldar og kæmu ekki út aftur? Nú getur verið, að þessar bækur vanti einn stóran kost: að fólkið vilji lesa þær. Ef fólk vill lesa þær, koma þær út. Þeir, sem þekkja bókamarkaðinn, gefa ekki út bækur, sem enginn vill lesa. Bækurnar mega vera eins ágætar og þær vilja, ef fólk fæst ekki til þess að lesa þær, eru þær langbest geymdar í fáeinum eintökum hjá fræðagrúskurum og á söfnum, eða í handriti. Þær bækur menta aldrei þjóðina. Það er ekki nóg, að þær sjeu góðar innanspjalda, ef þær eru aldrei opnaðar.

Það hefir verið tekið mjög vel fram nýlega í grein eftir Ólaf Friðriksson, hvað það er nauðsynlegt, að bækur sjeu skemtilegar. Jeg hafði sjálfur skrifað um þetta áður af veikum mætti.

Nú er jeg hræddur um, að ríkisforlagið færi einmitt að gefa út þessar ágætisbækur, sem enginn vill lesa. Jeg held; að hjá ríkisforlaginu myndi koma fram það sama og hætt er við hjá annari ríkiseinkasölu: að flytja vörur til landsins, sem enginn vill nota. Jeg tel miklu betra, að fólkið fái að velja sjálft, en að það láti forlagið tyggja ofan í sig. Það les þá vont og gott saman, og maður verður að trúa því, að það góða haldi velli. Annars stefnir alt norður og niður og verður ekki stöðvað með neinu ríkisforlagi.

Aðalókost þessarar tillögu tel jeg samt það, að jeg þykist sjá fram á, að engar bækur kæmu út utan við ríkisforlagið. Kristján Albertson getur um það í grein sinni, að það sje gallinn á tillögu Sigurðar Nordals um þýðingar á erlendum ritum, að hún nái of skamt. Þessar þýðingar úr erlendum málum, sem seldar væru við vægu verði, myndu gera innlendu bókaframleiðslunni svo erfitt fyrir í samkepninni. Þess vegna þyrfti að fara lengra og gefa líka út innlendu framleiðsluna. Ef Kristján Albertson hefði viljað fylgja þessum hugsanaþræði enn lengra, hefði hann hlotið að draga þá ályktun, að ef þýðingar gera ritum innlendra skálda erfiðara uppdráttar en áður, þá gerir ríkisforlag allri annari bókaútgáfu en þeirri, sem það annast sjálft, ómögulegt að vera til. Hið háa ráð, sem því stjórnar, verður alvoldugt „academi“, sem situr yfir höfðum allra, sem vilja skrifa.

Jeg skal ekki teygja umræðurnar. Jeg er alveg ráðinn í því, hvað jeg geri í þessu máli. Jeg tel ekki einu sinni ómaksins vert að fela það mentamálaráðinu til rannsóknar. Jeg vil láta sitja við það, sem nú er. Það er töluvert mikið stutt að útgáfu góðra bóka, bæði af fjelögum og sjóðum, t. d. sáttmálasjóði, og einhverja slíka millileið tel jeg affarabesta.