11.04.1928
Sameinað þing: 7. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í D-deild Alþingistíðinda. (2108)

98. mál, ríkisforlag

Flm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það eru til tvennar öfgar í þessu máli. Annað er fullkomin ríkiseinokun, en hitt er algert afskiftaleysi ríkisins. Mjer virðist hv. 1. þm. Reykv. (MJ) fylgja síðari stefnunni, af ótta við hina fyrri. En það eru til fleiri leiðir í þessu máli en fram kom hjá honum, og það vill svo tii, að einmitt eina af þeim leiðum

hefir hv. þm. sjálfur viljað fara á þessu þingi, með tillögu sinni um styrk til útgáfu nýrrar Íslandssögu. Sú tillaga átti skylt við þessa tillögu að því leyti, að hv. þm. trúði ekki, að hægt væri að koma sinni bókmentahugsjón í framkvæmd, nema með stuðningi ríkisvaldsins. Ef ríkisforlag hefði verið til, þá hefði hv. þm. snúið sjer þangað og ef til vill fengið betri áheyrn en hann fekk í þinginu.

Hv. þm. efaðist ekki um, að ef fólk á annað borð vildi lesa bækurnar, mundi einhver fást til þess að gefa þær út. Jeg hygg samt, að hv. þm. hafi oft rekið sig á það, að hann hefir ekki fengið íslenska bók hjá bóksala, sem hann hefir viljað eignast. Það hefði ekki hrint bóksalanum af stað til þess að gefa út bókina, þó að fleiri hefðu viljað bókina. Það er tvent, sem hindrar hann. Annað er menningarstig hans. Trúi hv. þm. ekki á óskeikulleik forstjóra forlagsins, ætti hann enn síður að trúa á óskeikulleik bóksalans. Hitt eru fjárhagsástæður bóksalans. Það er oft svo, að bóksalar verða að starfa með stuttum lánum og geta því ekki lagt fje í það, sem tekur langan tíma að láta borga sig.

Hv. þm. bar fram tvær ósamstæðar ástæður gegn þessari tillögu. Hann kvaðst í fyrsta lagi óttast, að forlagið gæfi út svo og svo mikið af góðum bókum, sem enginn vildi lesa, og í öðru lagi, að engar bækur kæmu út framhjá forlaginu. Þetta rekur sig hvað á annað. Ef forlagið hallaðist að því að gefa út mikið af gömlum bókum, sem fáir vilja lesa, er vegurinn því breiðari framhjá því. Með annari eins trú og hv. þm. hefir á vali lesendanna, ætti hann ekki að óttast, að ekki kæmu út bækur framhjá forlaginu.

Hv. þm. sagði, að menn þyrftu ekki að láta forlagið tyggja ofan í sig. Þetta orðalag verður þá líka að nota um núverandi bókaútgefendur og tímaritsritstjóra, eins og hv. þm. hefir sjálfur verið. Sá, sem vill eignast bók, getur ekki keypt hana, af því að hann vill eignast hana. Það er valið fyrir hann, og valið takmarkast af bókasmekk útgefanda og fjárhag. Jeg hugsa ekki, að tuggur, sem tugðar eru af svo skemdum tönnum, sjeu betri en raun yrði á um bækur ríkisforlags.

Í ræðu hv. þm. var bara einn tónn: Jeg er á móti ríkisrekstri. En aukin afskifti ríkisvaldsins hefir hv. þm. þó oft viðurkent með atkvæðagreiðslu sinni hjer á Alþingi.