16.04.1928
Neðri deild: 73. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í D-deild Alþingistíðinda. (2215)

158. mál, útvarp

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það er önnur skýring á því, hvers vegna jeg tók ekki til máls áðan, heldur en sú, er hv. þm. Vestm. (JJós) gaf í skyn, sem sje sú, að þegar eftir eru í þingsalnum 8 menn aðeins, þá þýðir ekki að ræða mál eins og þetta, og deildin er alls ekki ályktunarfær. svo er og hitt, að þetta mál hefir verið rætt á þingi áður og afgreitt frv. um það, eins og hv. þingmenn hafa minst á, og skipuð nefnd manna til þess að gera ákveðnar tillögur.

Í raun og veru hefi jeg lítið að segja fram yfir þetta. Það er fjarri því, að jeg hafi nokkra tilhneiging til þess að láta þetta verða pólitískt mál eða vera úfinn gagnvart útvarpsfjelaginu. En þingönnum, sem jeg hefi verið í upp á síðkastið, hefi jeg ekki haft tíma til að sinna því. Nefnd hefir haft um þetta mál að fjalla, sem jeg hefi sent öll plögg til, og vildi jeg ráðfæra mig við þá nefnd, áður en ákvörðun yrði tekin, en jeg hefi ekki fengið neinar tillögur frá þeirri nefnd enn þá.

Í þessu máli er eitt stórt atriði, sem enn hefir ekki verið athugað, og það er, hvaða bylgjulengd stór stöð hjer á landi mætti hafa. Um bylgjulengd stöðva er alþjóðasamkomulag, til þess að ekki rekist ein stöð á aðra.

Landssímastjóri siglir eftir fáa daga, og hefir honum verið falið að athuga þetta atriði sjerstaklega.

Að jeg hefi ekki tekið ákvörðun, stafar hvorki af óafsakanlegum undandrætti nje kuldagusti til málsins, heldur af því, að þetta er alvarlegt mál, sem á að taka ákvörðun um, og jeg vil taka þá ákvörðun í samráði við þá nefnd, sem um málið hefir átt að fjalla sjerstaklega, en hún hefir ekki sent tillögur sínar enn.