14.03.1928
Neðri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1046 í B-deild Alþingistíðinda. (231)

1. mál, fjárlög 1929

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Jeg skal ekki verða til þess að lengja þessar umræður mikið, en get þó ekki komist hjá því að svara síðustu ræðumönnum lítilsháttar.

Viðvíkjandi því, er hv. þm. Borgf. sagði út af sauðnautunum, skal jeg geta þess, að þau ummæli mín, sem um það fjellu, bar alls ekki að skilja svo, að við yrðum að sækja um leyfi til Dana til þeirra hluta, heldur var þar aðeins að ræða um fyrirkomulagsatriði, hvernig hægt væri að fá þau á sem ódýrastan hátt. Það hefir verið bent á, að á Grænlandi er mikið af þessum dýr um og þau mikið veidd þar. Eru því miklar líkur til þess, að ódýrast verði að fá þau á þann hátt, er jeg gat um.

Hv. þm. V.-Sk. (LH) taldi fram raunir bændanna í Álftaveri og mælti með styrk til þeirra. Það var ekki af því, að nefndin væri á móti að hjálpa þessum bændum, að hún bað hv. þm. að taka aftur þessa brtt., heldur var það af því, að hún hjelt, að þeir mundu tapa á því, að hún væri samþykt. Málið er svo vaxið, að þegar hefir verið gerður samningur við þá, að þeir fái greiddan helming kostnaðar, eða 1750 kr. En till. fer aðeins fram á 1500 kr., og við lítum svo á, að ef hún verður samþykt, þá falli sá samningur úr gildi. (LH: Það er ekki meiningin). Jeg vil leyfa mjer að spyrja hæstv. stjórn, hvort hún muni halda loforð fyrv. stjórnar, ef þessi till. verður samþ. Ef hún gerir það, hefi jeg ekkert á móti till., en annars mun jeg greiða atkv. á móti henni.

Hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) þarf jeg ekki að svara mörgu. Fjelagið Landnám á þakkir skilið fyrir starf sitt og á víst fullkomlega skilið að fá styrk. En eins og tillagan er orðuð, þá virtist nefndinni, að þessu fje ætti aðallega að verja til leiðbeiningar við nýbýlagerð, en það álítur nefndin, að sje hlutverk Búnaðarfjelags Íslands. Og að því er snertir það, sem sagt hefir verið, að Búnaðarfjelag Íslands hafi ekki tíma til slíks, þá skal jeg taka það fram, að fjelagið hefir iðulega annast og annast enn margvíslega mælingastarfsemi svipaða þeirri, sem hjer kæmi til greina.

Hv. þm. Vestm. var að minnast á ýmislegt, sem jeg sagði í sambandi við ábyrgðina til Ísfirðinga. Jeg hefi að vísu skrifað upp hjá mjer ýmislegt af því, sem hann sagði, en til þess að lengja ekki umræðurnar meira skal jeg láta vera að svara því.